Minn eigin Schrödinger

Umsókn um doktorsnám við Árósaháskóla hefur verið send af stað. Svo mikið er víst að án þeirrar góðu aðstoðar sem ég hef notið væri útlitið öllu svartara, svo burtséð frá því hvernig til tekst á ég mörgum skuld að gjalda. Gott er að eiga góða að.

Umsóknarferlið má kalla heiðarlega tilraun til að missa vitið. Rannsóknarvinnan að baki umsókninni hefur staðið yfir síðan í nóvemberbyrjun og henni lauk tímabundið í dag á hádegi þegar umsóknarfresturinn rann út. Allan þennan tíma tók ég mér tvo frídaga. Þá varði ég síðasta mánuðinum að mestu í að semja sjálfa umsóknina og svaf varla allan tímann. Ég get þá leyft mér smá frí.

Þar með er hafið 3-4 mánaða ferli sem ég hef ekki stjórn á og þá er gott að geta einbeitt sér að einhverju öðru. Umsóknin liggur í læstu rúmi sem inniheldur tvær andstæðar úrlausnir í senn, minn eigin Schrödinger. Zenón heldur um tímaglasið. Þegar allt liggur fyrir í sumar verð ég búinn að pústa nóg út til að leggjast í þá vinnu sem fylgir hvorri úrlausn fyrir sig: að leggjast í fjögurra ára rannsóknarstarf, eða endurtaka ferlið frá upphafi.

One thought on “Minn eigin Schrödinger”

  1. Til Lukku með þetta! 😀 liggðu nú makindalega í leti og safnaðu orku á ný – þú átt það skilið 😉

Skildu eftir svar við Le Snesne! Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *