Næstu vikur og mánuðir

Mörg eru umhugsunarefnin á næstu vikum og mánuðum, en aðalatriðið er að hafa ekki miklar áhyggjur. Í lok næsta mánaðar mun það vonandi hafa skýrst hvar ég kem til með að búa eftir að samningurinn minn hér rennur út. Um svipað leyti kemur í ljós hvort ég muni yfirhöfuð búa í Danmörku eftir áramót.

Svo það má segja að öll mín tilvera rambi meira eða minna á barmi sömu mánaðamóta – bæði nám mitt og heimili. Og hvað tekur við á þeim tímamótum er háð mörgum breytum. Auk þess sem ég get leyft mér að gera.

Í nóvember er mér boðið í brúðkaup vinar míns á Indlandi. Það er boð sem ég held ég geti ómögulega hafnað (hann var auk þess búinn að lofa að sýna mér Tíbet og Bútan í leiðinni). Og í desember er þjóðfræðiráðstefna í Tartu í Eistlandi sem ég vil fyrir alla muni sækja, auk þess að ég þarf að skila af mér meistararitgerð um það leyti.

Hvort hún verður hluti af stærra verkefni hér og nú eða síðar og annarsstaðar kemur í ljós í júní. Svo það er margt sem leitar á hugann um þessar mundir. En ef ekkert fer eftir áætlun finn ég útúr því þegar þar að kemur, jafnvel þótt það þýði atvinnuleit á Íslandi meðan ég sæki um annarsstaðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *