Viðbjóðurinn á AMX

Á sama tíma og ég les í dönskum fjölmiðlum að fyrst hafi verið talið að um hryðjuverk hafi verið að ræða í Noregi, en svo hafi það reynst vera Norðmaður, berst enn ógeðfelldari málflutningur úr afdankaðasta horni íslenskra netheima. Þá á ég ekki við það illa innrætta fólk sem ásakaði Önnu Pálu Sverrisdóttur um pólitíska sýndarmennsku fyrir að láta hafa eftir sér við fjölmiðla að hún hefði áhyggjur af vinum sínum sem skotið hafði verið á, heldur smáfugla AMX.

Best er að veita ekki hatursfullu öfgafólki athygli og leyfa því bara að spúa sínu eitri úti í horni, en stundum ofbýður manni óþverrinn sem frá því kemur. Ungir jafnaðarmann voru stráfelldir á Utøya og í Osló var forsætisráðuneytið sprengt í loft upp. Samkvæmt nýjustu fréttum eru að minnsta kosti 93 látnir. Ef til vill finnast þau aldrei sem enn er saknað.

Þetta er harmleikur sem kemur okkur öllum við. Og meðan allir með snefil af samvisku finna til samhygðar með Norðmönnum á þessum döpru tímamótum í norskri sögu – sögu okkar allra – þvert á stjórnmálaskoðanir, nota þeir sem standa að baki AMX tækifærið til ógeðfelldra pólitískra árása á mótherja sína. Þeir hafa látið hafa eftir sér að það sé hræsni af Össuri Skarphéðinssyni að senda samúðarkveðjur til Norðmanna, af því hann nýverið fór til Palestínu að kynna sér aðstæður fólksins á hernumdu svæðunum og lýsti í kjölfarið yfir stuðningi við vilja fólksins þar til að lifa í friði sem þjóð í eigin landi.

Hann er kallaður hræsnari fyrir að vera stuðningsmaður hryðjuverkasamtaka, eftir skilningi AMX. Í mörg ár hafa Ísraelar átt í friðarviðræðum við Palestínumenn. Líklega eru Ísraelar þá hræsnarar líka fyrir að barma sér þegar einhver fremur hryðjuverk þar í landi, svona einsog hægrimenn hljóta allir að vera hræsnarar um leið og einn þeirra fremur hryðjuverk og myrðir 93 saklausar manneskjur, eða hvað? Sú yfirlýsing að fólk skuli hafa tækifæri til að lifa við sömu lífskjör og við teljum sjálfsögð er nefnd stuðningur við hryðjuverkasamtök. Á sama tíma reyna AMX-liðar að afneita því að ódæðismaðurinn hafi verið hægriöfgamaður.

Athugasemd þeirra um að nasismi eigi eitthvað skylt við sósíalisma er of heimskuleg til að svara. En hitt, að þeim finnist það ekki fyrir neðan sig að gera lítið úr fjöldamorðum á jafnaðarmönnum á einstaklega ógeðfelldan hátt, með því að spyrða þá saman við hryðjuverkasamtök – vel að merkja hafa AUF það einnig á sinni stefnuskrá að stuðla að friði milli stríðandi fylkinga fyrir botni Miðjarðarhafs, svo þetta er ekki aðeins árás á Össur, heldur öll þau sem létu lífið í hryðjuverkunum í Noregi – það nægir þeim ekki einu sinni, heldur eru þeir nægilega veruleikafirrtir til að reyna að neita því að maðurinn hafi aðhyllst hægristefnu. Einsog það geri harmleikinn eitthvað skárri eða verri eftir því hvar hann fann sig í stjórnmálum.

Það hefur ekki hvarflað að þeim að fjalla um málið eftir eigin yfirlýstu stefnu, sem á eins kaldranalegt og það nú er að heita „vönduð miðlun frétta“, heldur notfæra þeir sér vofveiflegasta atburð í sögu Norðurlanda til að skjóta á pólitíska andstæðinga og spyrða þá saman við hugmyndafræði sem í þeirra sjúka höfði þeir sjálfsagt tengja við ódæðismanninn sjálfan. Meiri viðbjóð í íslenskri umræðuhefð hef ég ekki orðið var við í langan tíma, ef nokkru sinni. Slík gegndarlaus mannfyrirlitning er alveg á pari við óþverrann sem liggur eftir Anders Breivik á prenti; að ungir jafnaðarmenn hafi átt skilið að deyja fyrir stuðning sinn við fjölmenningarstefnu, og í leiðinni stuðning þeirra við sjálfstætt ríki í Palestínu samhliða Ísrael. Já, gott ef hann kallar það ekki hræsni líka.

Eru smáfuglarnir ánægðir með að vera spyrt svona saman við morðingjann á Utøya? Ekki get ég ímyndað mér það. En samkvæmt AMX hlýtur það sömuleiðis að teljast hræsni að nú syrgja 2000 manns hinn 21 árs Tore Eikeland á opinni minningasíðu. Samkvæmt þeim er kannski hræsni að finna í frásögn ungrar stúlku sem faldi sig í hrúgu látinna félaga í tilraun til að lifa af. Samkvæmt AMX hljóta allir að vera hræsnarar aðrir en þeir sjálfir. En hvernig væri nú, Friðbjörn Orri og félagar, að þið sýnduð sömu samúð og aðrir sýndu ykkur ef ungir hægrimenn hefðu verið myrtir í hrönnum á samkomu fyrir það eitt að hafa hugsjónir og ræða þær? Ef þið alls ekki getið sýnt tilhlýðandi virðingu fyrir mannslífum, ef ykkur er alls ekkert heilagt annað en fullvissa ykkar um eigið ágæti, þá er kannski betra að þið haldið bara kjafti og geymið þórðargleðina meðan við hin syrgjum með norsku þjóðinni.

Greiningardeildin hefur svarað

Sá mæti maður Kristinn Theódórsson tilkynnti á vefsíðu sinni í gærkvöld að hann myndi í dag svara grein minni En hún var svo djarflega klædd! sem ég skrifaði umbeðinn fyrir Druslugönguna, og þótti heiður að. Raunar líkti hann skrifum mínum, eftir því sem ég kemst næst, við tölvuleikinn um Mariobræður (af gullpeningalíkingu Kristins helgast fyrirsögnin hér). Ekki stóð á efndum og gagnrýnin birtist fyrir skömmu. Ég að sjálfsögðu fagna þeirri umræðu.

Nú þekki ég Kristin ekki nema af afspurn, og af póstlista félagsskapar sem við báðir eitt sinn tilheyrðum. Af honum hef ég ekkert nema gott eitt spurt og vefsíða hans hefur mér gegnum tíðina þótt staðfesta allt það sem ég hef heyrt og séð, að hér sé á ferðinni rökfastur og málefnalegur maður með gríðarlega þolinmæði til samræðna, sama hversu galin viðhorf viðmælendur hans kunna að hafa. Upp á síðkastið hefur Kristinn fjallað talsvert um það sem honum finnst vera „öfgafemínismi“, og skotið víða í gagnrýni sinni. Ég hef verið ósammála Kristni í flestum atriðum þeirrar umræðu.

Raunar hafa mér þótt allir deiluaðilar bera skarðan hlut frá borði, kannski ekki síst vegna þess að enginn virðist tala sama tungumálið þegar kemur að femínisma, og eilíft er höggvið í sama knérunn. Engin samræða á sér stað. Gagnrýni Kristins á mín skrif virðist mér vera sama marki brennd að því leyti að ég tel hana vera á misskilningi byggð. Kristinn verður þó fráleitt ásakaður um að forðast samræðu, þar sem hann sjálfur efnir til hennar nú, en slík samræða sem hér er efnt til þrífst þá og því aðeins að vilji beggja til að eiga í henni sé til staðar; slík samræða þarf umfram allt að vera málefnaleg og heiðarleg. Ég geri ráð fyrir að Kristinn sé mér sammála og því getum við rætt þetta án upphrópana.

Kristni þykir kynjaumræðan á Íslandi lituð karlfyrirlitningu, og gerir sér lítið fyrir og greinir nokkra þræði hennar sem honum finnst hann sjá í skrifum mínum. Hann vill karlfyrirlitninguna upp á borðið, að minnsta kosti að hún sé meðvitað tekin með í reikninginn eigi umræðan að byggja á karlfyrirlitningu, svo hægt sé að ræða kosti hennar og galla. Ekki skil ég sjálfur hvaða kostir gætu mögulega fólgist í karlfyrirlitningu, enda hafna ég henni jafn einarðlega og kvenfyrirlitningu hvað svo sem menn annars vilja lesa milli línanna. Haukur Már Helgason, heimspekingur og rithöfundur, benti á það á Facebook – því miður ekki á bloggsíðu sinni – að Gillzenegger á forsíðu símaskrárinnar væri jafnvel meiri móðgun við karlkynið. Orðrétt sagði Haukur Már:

Ætli geti verið að forsíðuefni símaskrárinnar sé fyrst og fremst niðrandi fyrir karlmenn, á þann máta sem konur mega venjast að auglýsingamyndir séu? Það sem raunverulega komi við kauninn á Dofra, Hjálmari, öllum femínísku körlunum – og já, líka mér – sé kannski ekki kvenfyrirlitningin ein heldur þessi mynd af karlmanninum: karlmaðurinn sem yfirborðskennt, sjálfsupptekið flón. Og jafnvel fyrst og fremst: karlmaðurinn sem líkami. Karlmaðurinn sem próletarían líkami. Hlutur. Dildó allra landsmanna.

Þetta er hárrétt hjá Hauki; auðvitað gengur þetta á báða bóga. En ekki hef ég orðið var við að umræðan neiti að horfast í augu við karlfyrirlitningu í samfélaginu, neiti að viðurkenna hana, því hún er sannarlega til staðar og engan þekki ég sem ekki getur fúslega viðurkennt það að það er alveg jafn slæmt þegar karlar eru hlutgerðir, sem óhjákvæmilega felur í sér karlfyrirlitningu, einsog þegar það hendir konur.

Hér er þó líklega um áherslumun að ræða fremur en vöntun á að líta í eigin barm. Jú, karlar eru líka fórnarlömb fyrirlitlegra staðalmynda, en konur eru það í svo miklu meiri mæli að dæmin verða illsambærileg. Femínisma hefur stundum verið legið á hálsi að vera hugmyndafræði kvenna, að femínistar berjist fyrir auknum réttindum á kostnað karlmanna, einskonar kvenræði. Það er ekki rétt. Femínismi hinsvegar einblínir á konur sem félagslegt og menningarlegt viðfang í samfélagi sem stjórnað er að stórum hluta af körlum. Enda þótt femínismi opinberlega snúist um jafnan rétt beggja kynja, þá er í því ljósi ekkert óeðlilegt við það þótt femínistar starfi á forsendum kvenna.

Mér þykir undarleg ef snúa á upp á mig og aðra karlkyns femínista sem ég þekki að við séum haldnir karlfyrirlitningu, meðvitað eða ómeðvitað, fyrir það eitt að taka slaginn á forsendum kvenna. Ég fullyrði að við gerum okkur öll fyllilega grein fyrir að þessu er einnig öfugt farið, og þá er heillavænlegra að benda á óréttlæti hvar sem það fyrirfinnst fremur en að benda á brotalöm á einum stað að því er virðist til þess eins að gagnrýna annað – og kalla það svo karlfyrirlitningu eða, einsog ég sá einhversstaðar, „sjálfmiðaða rörasýn“, jafnvel fasisma. Femínísk barátta á Íslandi hefur skilað mörgum réttarbótum til karla einnig, til að mynda rétti til feðraorlofs, og jafnréttislög tryggja körlum jafnmikinn rétt á vinnumarkaði og konum. Gjarnan er horft framhjá þessu, og sú barátta er hvergi nærri búin.

Með enn öðrum orðum eru karlmenn ekki að „leggjast í útgerð við að ala á reiði og tortryggni í garð eigin kyns“ og það er svo fremi ég fæ séð ekki „algeng aukaverkun af því að gerast femínisti“ að gera slíkt. Kristinn segir einnig:

Nú á dögum er bæði dálítið “inn” fyrir karlmenn að hatast út í femínisma og að vera yfirlýstir femínistar. Mér sýnist Arngrímur hafa kosið síðari kostinn og við það er vitaskuld ekkert að athuga.

Mér finnst Kristinn hér nánast líkja fólki við krakka sem velja sér fótboltalið í ensku deildinni, svona af því bara, einsog börn gera – eða meting um hljómsveitir, ég barasta trúi ekki að þér þyki Wham vera betri sveit en Duran Duran. Þessu er auðvitað ekki svona farið, hvort sem það er móðins ýmist að hata femínista eða vera yfirlýstur femínisti. Ég kaus mér ekki síðari kostinn (þeir eru auk þess fleiri) – mér var einboðið útfrá eigin sannfæringu að fylgja henni. Ég tek það ekki nærri mér þótt mér sé óbeint líkt við kynjafræðinemann Högna sem skráði sig til þess eins í háskóla að ríða sem flestum stelpum, en mér þykir leitt þegar menn sjá ekki handan slíkra einfaldana á flóknum, hápólitískum kringumstæðum.

Ef einhverjir sannarlega kjósa sér þann kost að gerast femínistar í slíku skyni, jafnvel bara til að vera móðins, þá eru þeir allteins fyrirlitlegir og það sem þeir með ímyndaðri afstöðu sinni berjast gegn. Enginn velur sér að gerast femínisti – það gerir réttlætiskennd og sannfæring, vilji til að taka þátt og berjast fyrir því sem maður telur gott og rétt. Ég viðurkenni strax að ég les hér alltof mikið í orð Kristins, enda veit ég að hann átti alls ekki við neitt í þessa líkingu, en þetta liggur engu að síður falið milli línanna – það liggur í orðanna hljóðan, að það liggi mögulega eitthvað meira að baki „ákvörðun“ karla um að gerast femínistar. Að það sé móðins. Ef einhverjum virðist femínismi vera orðinn móðins (það virðist mér ekki) þá kannski þýðir það að við séum að ná árangri.

Fyrst ætla ég þó að taka fram að ég kann vel að meta og styð baráttuna fyrir jafnræði kynjanna. Femínistar hafa gert frábæra hluti og eru að gera frábæra hluti. Þeir hafa lyft grettistaki við að opna augu heimsins fyrir rótgrónu feðraveldi sem litar afstöðu samfélagsins til flestra ef ekki allra félagslegra hluta og gríðarlega margt hefur áunnist. Hreyfingin hefur sannarlega breytt heiminum til hins betra. Hún hefur hinsvegar líka breytt heiminum til hins verra í augum einhverra og ég þekki t.d. sjálfur konur sem sjá dálítið á eftir valinu um að vera húsmóðir og eyða meiri tíma með börnunum en nútímasamfélagið leyfir. Allir hlutir hafa kosti og galla. Líklega eru þó flestir sammála um að kostirnir við kvenréttindabaráttuna vegi mun þyngra en ókostirnir.

Hér erum við Kristinn alveg hjartanlega sammála, að því undanskildu að ég skil ekki alveg klausuna um konur sem sjá eftir því vali að vera heimavinnandi húsmæður. Ekki vissi ég að nútímasamfélagið fordæmdi þær konur, en það kann svosem vel að vera að ég hafi ekki orðið var við það. Á hinn bóginn er það einmitt frábært að makar geti í samráði hvort við annað tekið um þessi mál meðvitaða ákvörðun. Því var ekki að heilsa fyrir örfáum áratugum og sýnir það best hversu langt við höfum komist af litlum efnum og endalausum mótbyr.

Kristni gremjast viðbrögð sumra femínista sem hann hefur, einsog áður var nefnt, átt gagnrýnin samskipti við á netinu. Ekki get ég svarað fyrir þá femínista nema að því leyti sem ég hef fylgst – lítillega vel að merkja – með téðum samskiptum, og einsog áður sagði hefur mér virst sem Kristinn og Hildur vinkona mín Lilliendahl, svo dæmi sé nefnt, tali hreinlega ekki sama tungumál þegar að þessum málum kemur. Ekki nenni ég að rifja upp hvert umræðuefnið nákvæmlega var til að aðgæta hvort ég muni þetta rétt, en forsendur beggja til samræðnanna voru svo ólíkar að mér fannst ég sjá strax í upphafi að þær yrðu dæmdar til að enda á aðeins einn veg. Það held ég fremur að sé rót vandans en að femínistar (hvað þá upp til hópa, einsog mér virðist gefið í skyn) fyllist heilagri vandlætingu um leið og á þá er hallað. En einsog segir get ég ekki talað máli allra femínista hér, eða Hildar hvað það varðar, né heldur ætti ég að gera það. Ég get aðeins svarað fyrir sjálfan mig.

Til þess að um það megi deila þarf að vera hægt að ræða málin segir Kristinn, og til þess er ég einboðinn.

Jafnrétti milli kynjanna er augljóslega gríðarlega margbrotið og flókið fyrirbrigði. Kynin eru líkamlega ólík og margt bendir til þess að þau séu einnig með töluvert ólíka hugsun. Það verður því aldrei þannig að allir karlmenn og allar konur séu sammála um að janfrétti sé náð – leyfi ég mér að fullyrða. Til þess er heimurinn of flókinn. Og það að deilur standi um það hvort orsakasamhengi sé milli kynjabundins ofbeldis og þess hvernig konur klæða sig er varla atriði sem vegur mjög þungt á vogaskálunum. Það sem hinsvegar þykir vega þungt er sú hugmynd að orsakasamhengið sé ekkert og að þær áhyggjur séu dulin tilraun til að stýra konum og kenna þeim sjálfum um ofbeldi gegn sér.

Hér tel ég að Kristinn misskilji mig. Ég segi að viðtekinn skilningur margra sé að jafnrétti hafi þegar verið náð. Ég segi ekki að svo sé eða að um það ríki almenn sátt meðal fólks. Kristinn klykkir svo út með því að gefa í skyn að það hljóti nú samt að vera orsakasamhengi milli klæðaburðar kvenna og nauðgana, þótt ég haldi öðru fram. Ég hinsvegar held ekki öðru fram: „… samt þurfa konur sérstaklega að mótmæla því að orsakasamhengi sé milli kynbundins ofbeldis og þess hvernig þær klæða sig,“ segi ég – í viðtengingarhætti. Það er klárt orsakasamhengi sem skýrist af rótgróinni kvenfyrirlitningu í samfélaginu. En það er ekki eðlilegt að svo sé, það er ekki eðlilegt að konur þurfi að gefa því gaum hvort þær séu nokkuð berskjaldaðar gegn nauðgunum klæddar svona eða hinsegin.

Það er samfélagslegt vandamál að það sé orsakasamhengi, og það er samfélagslegt vandamál þegar fjölmiðlar og lögregla lýsa yfir – einsog gerðist í tilviki þriggja erlendra, einsog sérstaklega var tekið fram að ástæðulausu, manna sem nauðguðu konu í Hafnarstræti fyrir 2-3 árum. Þá kom það fram að hún hefði verið þannig klædd. Það er ekki eðlilegt. Það er það sem ég gagnrýni, sú botnlausa, rótgróna kvenfyrirlitning sem finnst í því samfélagi þar sem sérstaklega þarf að vara konur við því að klæða sig ekki á „ögrandi“ hátt.

Ef það er raunverulega fylgni þarna á milli sem ekki mótast af feðraveldinu, en ekki bara fyrirlitleg átylla til að afsaka „meinta“ kynferðisbrotamenn, sem ætíð eru meintir þegar aðrir eru það ekki, og brýna fyrir ungum stúlkum að klæða sig heldur á hinn veginn en þennan, þá afskar það samt ekki nokkurn skapaðan hlut einsog Kristinn segir sjálfur. En burtséð frá mögulegri fylgni af þeirri sort þá eru nauðganir flestar ofbeldisverk framin án kynferðislegrar átyllu einsog þeirrar að kona hafi verið í svo flegnum kjól. Fórnarlömb kynferðisbrota geta af sér kynferðisbrotamenn, og þar er áreiðanleg fylgni. Þetta er ofbeldishneigð getin af áunninni og/eða meðfæddri geðröskun sem hefur lítið með kynferðislega fullnægju að gera. Í því ljósi hafa eftirfarandi rök lítil áhrif á afstöðu mína:

Spurningin er hvort afstaða kvenna myndi eitthvað breytast ef tölfræði sýndi það, að í næturlífinu sé umrædd fylgni raunveruleg. Mér hefur sýnst að gögnin bendi beinlínis til þess að svo sé þegar mengið er afmarkað við ungar konur á djamminu*, og brjóstvit mitt segir mér að hálfnakin örend kona muni vekja meiri athygli fullra dólga en kona sem er öðruvísi klædd.

Kristinn segir að varúðarorð og tilmæli af þessu tagi séu ekki kúgun. Ekki minnist ég þess að hafa haldið því fram þótt það fari nú raunar eftir forsendum hvort ég geti talist sammála honum. Þetta hefur bara ekkert með það að gera svo fremi ég fæ séð. Konur eiga ekki að þurfa að óttast það að ganga úti á götu, burtséð frá því hvernig þær kjósa að klæða sig. Um það snýst nú heila málið, og það lýsir einvörðungu gamaldags viðhorfum að mínu mati, einsog þeim nauðgunarkúltúr sem viðgekkst í Vestmannaeyjum fyrir þó ekki nema 20-30 árum og ég geri að umtalsefni í grein minni, að meiraðsegja lögreglan tíni sér til einhverjar utanaðkomandi forsendur kynferðisofbeldis einsog það færi ábyrgðina að einhverju leyti, hve litlu sem það er, yfir á brotaþola.

Á alveg sama hátt er sá ekki ábyrgur á neinn hátt fyrir eigin morði sem hættir sér út úr húsi eftir miðnætti. Slík umræða finnst mér algjörlega ótæk, og ég játa það hér og nú að ég á afskaplega bágt með að skilja það sjónarmið að sú umræða sé á nokkurn hátt relevant. Til þess er baráttan meðal annars að svona rök heyrist ekki framar. Til þess er baráttan að deyða kvenfyrirlitningu í samfélaginu hvort sem hún er undirliggjandi eða á yfirborðinu.

Arngrímur einfaldar málin glæpsamlega og gefur sér allt of mikið af vinsælum forsendum femínista (rétthugsun?)

Arngrímur lætur eins og það sé viðhorf margra karlmanna að konur “kalli eftir því sjálfar að þeim sé nauðgað” og það sé það sem þeir seru að segja þegar þeir minnast á klæðnað fyrir eða eftir að eitthvað slíkt á sér stað. Hér er verið að leika sér að blæbrigðum orðanna til að mála mun ljótari mynd af afstöðu karla en þörf er á (einkenni karlfyrirlitningar?)

Hérna tapa ég þræðinum aðeins. Stuttir pistlar kalla á einföldun. Ef ég ætti að skýra málin nægilega vandlega til að skilja ekki eftir eina einustu snurðu þyrfti ég að skrifa ansi veglega bók, og samt yrðu margir til að gagnrýna mig. Hvort einfaldanir mínar eru glæpsamlegar er ég varla dómbær á, en til þess voru þær gerðar að smætta flókna umræðu niður í stuttan pistil sem tæki á helstu selvfølgelighedunum einsog ég sé þau:

1. Það er sjúkt að taka þurfi þessa umræðu á 21. öldinni. Nauðganir eru samfélagsmein sem allir ættu að vera viljugir til að berjast gegn.

2. Samt eru ótrúlega margir sem setja ofan í við okkur sem finnst umræðan bera blak af körlum á kostnað kvenna, sér í lagi þegar hún einkennist – einsog Kristinn áreiðanlega hefur tekið eftir – af djúpstæðu hatri á okkur sem látum okkur málið varða. Um daginn var ég kallaður öfgakenndur, fasískur hálfviti sem vildi þagga niður umræðu fyrir að finnast óeðlilegt að fólk gerði grín að nauðgunum og tjá þá skoðun.

3. Konur og þeir sem þær styðja fylkja senn liði í göngu til að krefjast réttar síns til að vera ekki nauðgað. Það er málefni sem ég styð og því greip ég til einfaldana til að skrifa læsilegan pistil.

Kristinn spyr hvort fyrsta atriðið sem hann nefnir skýrist kannski af „feminískri rétthugsun“ – hvað svosem það er. Ég spyr á móti hvar megi finna rétthugsun innan þessa málefnis, og hvað sé þá ranghugsun. Ég kem nánar að því hér á eftir.

Hvað varðar seinna atriðið þá er engu logið upp á karlmenn þegar ég segi að margir þeirra séu haldnir undarlegum órum um kvenfólk, og að það viðhorf sé til að klæðaburður kvenna kalli á nauðgun. Það viðurkennir Kristinn meiraðsegja sjálfur fyrr í gagnrýni sinni. Aldrei sagði ég að það væri stór hluti, en það eru sannarlega margir. Ég tók dæmi af Baldri Hermannssyni framhaldsskólakennara, sem opinberlega sagði að stelpur væru að „biðja um að vera nauðgað“, Þjóðhátíð í Eyjum á árum áður þar sem það var þjóðarsport að nauðga sem flestum dauðadrukknum stúlkum og svo Gillzenegger og viðhlæjendum hans. Kristinn spyr sig hvort þetta séu einkenni karlfyrirlitningar. Ég tel mig hafa svarað því hér að ofan.

Kristinn ásakar mig um einföldun en gerist sjálfur sekur um að ofureinfalda afskaplega flókið og alvarlegt mein í samfélagsvitundinni. Auðvitað er greinin einföldun. Það liggur jú í hlutarins eðli. Rétt einsog þetta ívið lengra svar er einföldun á langtum stærri umræðu. Þegar Gillzenegger grínast með nauðganir (sem Kristinn andmælir), þá eru ótal manns úti í þjóðfélagi sem raunverulega hugsar þannig og svo aðrir sem eru svo truflaðir á geði að þeir gera ekki greinarmun á réttu og röngu. Gillzenegger, hvort sem hann sjálfur er haldinn kvenfyrirlitningu eða ekki, ýtti undir hana með skrifum sínum, og opinberlega hvatti til þess að Sóleyju Tómasdóttur yrði nauðgað. Það var ekki hluti af þeim bloggfærslum sem Drífa Snædal endurbirti á dögunum, enda eyddi Gillzenegger henni undir eins og málið barst til fjölmiðla. Ekki ætla ég að hafa fyrir því að reyna að leita uppi afrit af umræddri færslu, en hún var viðurstyggileg, og hérumbil orðrétt sagði Gillz að það væri réttast að nauðga Sóleyju duglega. Hann notaði orðið nauðga, svo sannarlega. Kristni finnst þau skrif sem Drífa endurbirti ekki gefa neitt svipað í skyn, en það finnst mér á hinn bóginn, með tilliti til fyrri skrifa hans um Sóleyju Tómasdóttur.

Það er einfaldlega magnað að svona vel skrifandi og hugsandi maður skuli leyfa sér að skrifa þessi undarlegu orð. “Að vilja ekki verið nauðgað..”. Til hvers að láta eins og það sé afstaða nokkurs manns að það í sjálfu sér að vilja ekki vera nauðgað sé einhverskonar rétthugsun? Rétthugsunin er fólgin í því að éta ályktanir um gang þessara mála alfarið og eingöngu upp eftir femínistum og dæma allar aðrar vangaveltur sem tilraunir til að draga úr baráttu kvenna við kynjabundið ofbeldi. Málið er einmitt að hugsanlega er hægt að gera ýmislegt annað til að draga úr slíku ofbeldi en að dásama orðræðu sem mörgum karlmönnum þykir lítillækkandi og ósanngjörn og hreinlega betur til þess fallin að skapa andúð á hreyfingunni en að styrkja hana.

Rétthugsun er útvatnað og gagnslaust hugtak þegar allt sem fellur manni ekki í geð má stimpla sem rétthugsun. Ekki tel ég mig sekan um að éta allt upp eingöngu eftir femínistum, hvað þá heldur að ég vilji dæma hugmyndir sem koma annarsstaðar frá úr leik. Mér þykir Kristinn gefa sér helst til mikið um mitt lundarfar hérna. Ekki sé ég á pistli mínum heldur að ég dásami orðræðu sem er karlmönnum lítillækkandi – þvert á móti hrauna ég yfir þá orðræðu sem er karlmönnum til mestrar minnkunar, nefnilega þeirrar sem Baldur og Egill stóðu fyrir. Gengisfelli ég karlmenn almennt einhversstaðar í pistlinum, eða ræðst ég gegn þeim á einhvern hátt? ekki þykir mér það. Pistlinum var öðru nær ætlað að vera hugvekja um raunveruleg viðhorf sem finnast á meðal karlmanna í íslensku samfélagi. Ef karlmönnum finnst óþægilegt eða lítillækkandi að kynbræður þeirra geti hugsað á þann máta er þeim sjálfum í lófa lagið að berjast gegn því. Ekki að þessi viðhorf einskorðist við Ísland nema síður sé. Mér var bent á eftirfarandi tilvitnun sem finna má á Common Sense Atheism:

My concern for level of pain of rape would be greater if it weren’t for the fact that most American women deserve to raped because they oppose prostitution as a sexual outlet for men. Since they deserve to raped, I cannot concern myself with the pain rape causes them.

Hversu margir á Íslandi ætli hugsi svona? Áreiðanlega fleiri en við Kristinn þorum að ímynda okkur.

Femínistar eru mjög gjarnir á að vísa öðrum tegundum hugsunar en þeirra eigin frá. Til þess hafa orðið til hugtök eins og að hrútskýra (e. mansplaining) og eru menn síðan gjarnan sakaðir um að vera vond fyrirmynd fyrir dætur sínar ef þeir leyfa sér að impra á öðrum sjónarmiðum en þeim sem hreyfingin er búin að leggja blessun sína yfir […] Staðan er hinsvegar mun síður þannig í dag, og er þetta í annað sinn sem ég bendi á þá kenningu mína að ofstækisfullur femínismi sé ekki eins auðvarinn og hann hefur verið fyrir nokkrum áratugum. Forsendur hafa breyst. Það má deila um hversu mikið þær hafa breyst, en það er einmitt umræða fyrir bæði kynin til að taka þátt í, en ekki kvenna einna að skera úr um, á hvern þann hátt sem þeim þykir henta – eða það hefði ég a.m.k. haldið að væri fremur jafnréttissinnuð afstaða.

Hvaða femínistar eru mjög gjarnir á að vísa öðrum hugmyndum en þeirra eigin frá? Ekki þekki ég þá femínista. Mér þykir alhæfingin leiðinleg og tilgangslaus. Hver ásakar menn um að vera vondar fyrirmyndir ef þeir impra á öðrum sjónarhornum en þeim sem „hreyfingin“ hefur lagt „blessun sína yfir“? Kristinn virðist halda að femínismi sé ein hreyfing, en hún er hundraðfalt klofin rétt einsog aðrar pólitískar hreyfingar. Þetta er einsog að segja að hægri sé svona og vinstri hinsegin. Slík skoðun heldur ekki vatni.

Að sjálfsögðu er það jafnréttissinnuð afstaða að bæði kynin taki þátt í umræðunni, en ég á bágt með að skilja hvað það er sem Kristni þykir vera ofstækisfullur femínismi. Hugtökin eru hreinar andstæður. En gefum okkur að til sé ofstækisfullur femínismi, þá þýddi það væntanlega að femínistar væru ekki að berjast fyrir jafnrétti lengur, heldur kvenréttindum. Ég veit ekki um neina slíka femínista á Íslandi, hvað þá annarsstaðar, og Femínistafélag Íslands legði ekki blessun sína yfir slíka hugmyndafræði – ef það er sú hreyfing sem Kristinn á við. Ég er reiðubúinn að hlusta á hvað Kristinn á við með þessu ef hann er reiðubúinn til að skýra það fyrir mér í lengra máli. Annars er hætt við að við skiljum ekki hvor annan.

En að segja Gillzenegger hafa verið að tala um að nauðga þurfii femínistum er gott dæmi um óheflaða túlkunaráráttu. Ef Gillzenegger hefði verið að tala um að “senda” tvær til þrjár konur á einhvern karlmann sem hann teldi þurfa á vænum skammti af kynlífi að halda, væri hann þá að tala um nauðgun? Nei, hann væri bara af heimskulegu kæruleysi að tala um að konurnar ættu mök við karlmanninn, án þess að gefið sé að ofbeldi komi þar nokkuð við sögu. En vegna þess að Gillzenegger talaði um að senda karla á konu, hafa margir tekið sér það skáldaleyfi að ætla honum að vera að tala um naugðun, og í grein Arngríms er þess ekki einu sinni gætt að tala um að Egill hafi etv. gefið í skyn að þessum konum eigi að nauðga, heldur er það einfaldlega fullyrt.

Ég var búinn að svara þessu áður en ákvað að leyfa tilvitnunni að fljóta með af einni ástæðu: Egill gaf svo sannarlega í skyn að það ætti að nauðga vissum nafngreindum femínistum. Ef þessu hefði verið öfugt farið, hefði mér þótt það eins ógeðfellt, ef senda ætti nokkrar konur til að losa brundið úr vatnsmelónustærðarpungnum á einhverjum aumingjans aktívista sem þyrfti bara duglega að fá á broddinn? Guð minn góður, já!

En hér verður þó að gæta þess einnig sem ég sagði um femínisma hér að framan, að hann er hugmyndafræði útfrá sjónarhóli konunnar sem viðfangs feðraveldisins. Og enda þótt konur nauðgi líka, þá getur Kristinn séð í hendi sér hvernig hlutföllin þarna á milli standa. Þótt nauðganir séu alltaf jafn alvarlegar, þá hallar gríðarlega á konur þegar kemur að kynbundnu ofbeldi, og því er ekki skrýtið þótt allt verði vitlaust þegar stungið er upp á því að nauðga konum einsog það sé einhver brandari. Dæmi um hið gagnstæða, til að gæta sanngirni, er til dæmis nýleg frétt sem Pressan birti um konu sem stöðvaði ræningja og hélt honum föngnum sem kynlífsþræl í 3-4 daga. Framsetningin var allt önnur en um nauðgun hefði verið að ræða, og það er alveg eins viðbjóðslegur og fyrirlitlegur fréttaflutningur í mínum augum einsog þegar gert er lítið úr nauðgun kvenna.

Svona túlkunargleði á orðum femínista myndu þeir sjálfir kalla rembu og fyrirlitningu, því fólki eru gerðar upp verri skoðanir en það hefur. Samfélagið er hinsvegar svo upptekið af því þessa dagana að fordæma hverskyns kvenfyrirlitningu, að sanngirni til handa karlmönnum er ekki orfarlega á baugi …

Þetta er einfaldlega rangt. Samfélagið er alls ekkert upptekið af því að fordæma kvenfyrirlitningu, ekki frekar en það er upptekið af því að fordæma karlfyrirlitningu. Ef eitthvað er þá erum við sem fordæmum kvenfyrirlitningu í rituðu máli ýmist rökkuð niður eða vænd um að líta framhjá karlfyrirlitningu, og fyrir hvert eitt okkar eru svona sjö aðrir á móti. Svo skal böl bæta að benda á annað eða hvað. Ástandið er alveg jafn óþolandi á báða bóga og það ætti Kristinn sjálfur að geta séð.

Takið eftir því að Arngrímur er nýbúinn að lesa mjög sterkt í orð Egils, ætla honum að mæla með nauðgunum, og nú fullyrðir hann að þessi viðhorf séu “raunveruleg”. Hvaða viðhorf?

Þessir menn sem Arngrímur fjallar um eru sannarlega að leyfa sér algjörlega óbeislaðan ruddaskap. Það er hinsvegar augljóslega um ruddalegan gálgahúmor að ræða og það segja þeir sjálfir þegar þeir eru spurðir út í þetta. Það afsakar hegðun þeirra vitaskuld ekki fyrir fimm aura, en þegar talað er um að þetta séu raunveruleg viðhorf, og lesið er nokkrum númerum harkalegar í orðin heldur en ljóst er að eigi að gera, er ekki lengur ljóst hver þau raunverulegu viðhorf eru. Augljóslega er þó a.m.k. um það viðhorf að ræða að það sé í lagi að tala mjög ruddalega um konur, en það er eina viðhorfið sem Arngrímur getur gefið sér að sé raunverulegt og það er alveg nógu slæmt, án þess að kryddað sé hressilega.

Ef Kristni nægja ekki dæmin mín um kvenfyrirlitningu og ógeðfelld viðhorf til nauðgana þá veit ég ekki hvað ég á að gera meira, nema einhver sé reiðubúinn að borga mér laun fyrir að vera í fullri vinnu við að safna ummælum sem staðfesta allt það sem ég hef sagt hingað til. Efast Kristinn um að til séu menn sem finnast nauðganir eðlilegasti hlutur í heimi? Þá má nefna títtnefnt moggablogg mannsins sem talaði um að af væri sem áður var þegar menn gátu riðið öllu dauðu á Heimaey á þjóðhátíð. Þá má aftur nefna Baldur Hermannsson. Þarf Kristinn frekari vitnanna við, í alvöru? Hvað um þá statistík að fjórðu hverri konu er nauðgað á lífsleiðinni?

Athugasemdum Kristins um fyrrum ríkissaksóknara hef ég þegar svarað hér að ofan að flestu leyti. Ummæli mínu voru ekki að svo miklu leyti hugsuð sem svo að Valtý þætti réttlætanlegt að nauðga konum, heldur að honum þætti eðlilegt að samfélagið væri þannig gert að konur mættu ekki klæða sig hvernig svo sem þeim sýndist án þess að vera nauðgað. Það er grafalvarlegt að helsti talsmaður ákæruvaldsins tjái sig með þeim hætti, og það stend ég við.

Og nú geta konur s.s. glaðst yfir því að afar vel skrifandi karlmaður hafi tekið sig til og samþykkt þá túlkun af miklum myndarskap – það hjálpar kannski dálítið við að bægja frá öllum efasemdum um að ríkissaksóknarinn fyrrverandi hafi virkilega verið svo lágkúrulegur í hugsun.

Þetta þykir mér óvanalega ómálefnaleg athugasemd hjá Kristni. Hann getur sjálfur dæmt um það eftir lestur þessa svars míns hvort ég sé sú týpa sem hann lýsir þarna, femínisti by fashion, hylli allra popúlískra kvenna. Ég læt þessu ósvarað.

Arngrímur er búinn að eyða öllu púðrinu í að fjalla losaralega um ruddaleg viðbrögð nokkurra bjána við dálítið ofstækisfullum ummælum fáeinna femíniskra stjórnmálamanna

Hvaða ofstækisfullu ummæli voru það ef mér leyfist að spyrja?

og í að gera fyrrum ríkissaksóknara upp hugsun sem ég get lofað ykkur að hefur aldrei hvarlað að honum. Í

Fyrrum ríkissaksóknari er einfaldlega bjáni ef það hvarflaði ekki að honum að þessi ummæli hans væru ámælisverð. Svo tilgreinir Kristinn einhver komment af Wikipediu sem ég var líka búinn að svara hér að ofan.

Arngrímur er einfadlega í grein sinni búinn að gera skrípamynd úr afstöðu þeirra sem telja umræðu um risk management ekki færa ábyrgðina yfir á þolanda glæps. Hann hefur gengið svo langt, að snúa afstöðunni fullkomlega á haus og lítur á hana sem yfirlýsingu um að það sé í lagi að nauðga druslulega klæddum konum og fyrir þann vítaverða útúrsnúning fær hann lof í lófa á heimasíðu göngunnar.

Að öllu ofangreindu sögðu er þetta einfaldlega útúrsnúningur á mínum meinta útúrsnúningi.

Nú vona ég að Kristinn taki sér tíma til að lesa þetta alltsaman í þaula og taka til þess ögn málefnalegri afstöðu en mér þótti hann gera í svargrein sinni. Á engan hátt ber honum að skilja mitt andsvar sem svo að mér þyki hann ekki þess verður að eiga í þessari umræðu, síður en svo. Mér þykir hinsvegar mikilvægt að útskýra betur hvaðan mín viðhorf spretta, og þar af leiðandi af hvaða hugarfari greinin mín mótast af.

Ég fyrirverð mig ásökunum um öfgar, femíníska eða pólitíska rétthugsun og karlfyrirlitningu. Það eru engar öfgar í því sem ég skrifaði. Á hinn bóginn er slíkt samfélag öfgafullt þar sem þarf sérstaklega að berjast gegn nauðgunum, og svara fyrir þá baráttu. Á móti kemur er Kristinn Theódórsson sá málefnalegasti sem hingað til hefur séð sér ástæðu til að svara mér, og það er vitaskuld mikilvægt að samræða geti orðið milli ólíkra sjónarmiða. Því fagna ég því að hann hafi tekið sér tíma til að svara greininni minni, sem sjálfan mig óraði raunar aldrei fyrir að fengi viðlíka útbreiðslu og athygli og raun ber vitni.

En hún var svo djarflega klædd!

Það er viðtekinn skilningur margra að jafnrétti hafi verið náð milli kynjanna, og því sé barátta fyrir jafnrétti orðin að tímaskekkju – að sumar konur vilji „meira jafnrétti“ en aðrir eiga að njóta, einsog svínin á Dýrabæ; eiginleg kvenréttindi í stað mannréttinda – og svo útbreiddur er þessi skilningur að upphafleg þverstæða Orwells hefur tapast í umræðunni þegar konum er jafnað við svín, sem aftur er jafnað við fasista, sbr. hugtakið femínasismi. Jafnrétti er náð, og samt þurfa konur sérstaklega að mótmæla því að orsakasamhengi sé milli kynbundins ofbeldis og þess hvernig þær klæða sig. Það er ekki síst merkilegt að þeim sem helst er tíðrætt um að banna skuli búrkur, því þær séu kúgunartól, skuli ekki finnast neitt athugavert við þá andstæðu kúgun að konur sem klæði sig „djarflega“ kalli eftir því sjálfar að þeim sé nauðgað. Kannski er þá ekki svo mikill munur á islamófóbum Íslands og þeim sem þeir óttast hvað mest eftir allt saman. Kannski ættu karlar bara að hætta að pæla í því hvernig konur klæða sig.

Undirliggjandi rót þessarar öndverðu þverstæðu einsog hún nú er sett fram liggur í kjarna vestrænnar menningar og órökstuddum ótta við fyrirbæri sem gjarnan er nefnt „pólitísk rétthugsun“. Látum liggja á milli hluta hvort það sé pólitísk rétthugsun að vilja ekki vera nauðgað, og hvort það sé nauðsynlega slæm sort af rétthugsun í sjálfu sér. Í menningunni er nefnilega fólginn ótti sem dansar á egg tvíeggjaðs sverðs, ótti við fordóma og áðurnefnda rétthugsun, og allt sem útaf stendur á hvorn bóginn sem litið er til liggur handan gagnrýni nema sá sem gagnrýnir vilji hætta á að teljast forpokaður.

Það er ekki langt síðan sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason stökk upp á nef sér af illskiljanlegu óþoli gagnvart ímyndaðri menningarelítu sem honum fannst hann vera kominn upp á kant við, af því hann hafði skrifað bók um Jónínu Benediktsdóttur sem fékk ekki alveg þær viðtökur sem hann átti von á. Hluti af vörn hans var að hann teldi samspil milli lágmenningar og hámenningar nauðsynlegt, og nefndi í því sambandi að hann hefði bæði Krishnamurti á náttborðinu sínu og Lífsleikni Gillzeneggers.

Eins skemmtilegt og það hlýtur að vera fyrir Gillzenegger að vera spyrt saman við einhverja óskilgreinda lágmenningu þá hefur Sölvi rangt fyrir sér. Gillzenegger er ekki lágmenning. Menn sem upphefja staðalmyndir og ýta undir kvenhatur dagsdaglega eru ekki lágmenning fyrir menningarelítu að meta á vogarskálunum sötrandi freyðivín; maður sem stingur upp á að nauðga femínistum er ekki þrepi lakari á menningarkvarðanum en sá sem stingur upp á ástarleik með kærustunni, einsog einskonar Rómeó fátæka mannsins. Hann er þvert á móti persóna sem endurspeglar viss viðhorf í samfélaginu á slíkan hátt sem ekki má gagnrýna án þess að vekja upp úlfúð hjá þeim sem óttast pólitíska rétthugsun meir en nokkuð annað. „Þetta er nú meiri pólitíska rétthugsunin, sérðu ekki að Gillzenegger er paródía?“ er gjarnan sagt. En þau viðhorf sem Gillzenegger endurspeglar eru raunveruleg, og þau eru alvarleg. Þau birtast meðal annars í fréttaflutningi DV af Jóni stóra, sem komst svo að orði á Facebooksíðu sinni:

„er það að gefa manni smá clue að kærastan sé of ung ef hún tekur nammið út úr sér og geymir á maganum á manni meðan hún gefur manni blowjob??:D“

Það er fólk til sem heldur í heiðri sömu viðhorf og Gillzenegger setur fram, hvort sem það er gert í gríni eða ekki, og fyrir vikið verður hann sem fjölmiðlafígúra ekki aðeins fyrirmynd þeirra, heldur einnig þeirra óhörðnuðu ungmenna sem hann helst vill höfða til – að eigin sögn með ráðleggingum um hollan lífstíl (nokkuð sem vekur upp furðu í mínu pólitískt réttþenkjandi brjósti). Ef rétt væri með farið væri þetta kannski í einhverjum skilningi fyndið, en að tileinka sér nákvæmlega sömu orðræðu – ef það er þá yfirhöfuð tilfellið að þetta eigi að vera fyndið – er það ekki.

Á dögunum rifjaði Drífa Snædal upp gamla bloggfærslu eftir Gillzenegger þar sem hann segir að:

„Þegar feministar verða of áberandi í fjölmiðlum hefur ávallt virkað að kalla til Ásgeir Kolbeinsson til þess að gefa þessum leiðinda rauðsokkum einn granítharðan í háruga bílskúrinn til þess að þagga niður í þeim.

Drífa Snædal fór mikinn í Kastljósinu á dögunum þar sem hún sat á móti Agli Helgasyni og reyndi að rífa kjaft. Aldrei hefur kvenmaður misst jafn mikið magn af saur í Kastljósinu áður.

Kolbrún [Halldórsdóttir] hefur aldrei fengið stifan lim og því hefur Fréttastofan ákveðið að senda Ásgeir, Jamal, Buka og Yao alla í þetta verkefni. Kolbrún toppaði sjálfa sig í leiðindum þegar hún stakk upp á því að nýfædd börn yrðu ekki sett í blá eða bleik föt. Kolbrún er í fullri vinnu við að vera óþolandi og tala með rassgatinu og það er kominn tími til að þagga niður í henni endanlega og munu þessir herramenn sem Fréttastofan taldi upp áðan fylla hana eins og hátíðarkalkún. Það mun vonandi vera til þess að hún steingrjóthaldikjafti og fari að haga sér.

Steinunn [Valdís Óskarsdóttir] er portkonan sem vildi breyta orðinu ráðherra í ráðfrú fyrir konur. Steinunn þarf lim og það strax. Á hana Steinunni Valdísi dugar ekkert annað en lágmark tveir harðir og munu Buka og Yao taka þetta verkefni að sér. Fréttastofan ákvað að gefa Ásgeiri Kolbeinssyni frí í þetta skiptið, en Fréttastofan vill ekki hafa það á samviskunni að Ásgeir finnist hangandi í ljósakrónu í vesturbænum.“

Heimildarmaður Fréttastofunnar vildi ekki koma undir nafni en hann hafði þetta að segja: “Ég hef aldrei séð annað eins, hún [Anna Margrét Björnsdóttir] gengur um fyrirtækið eins og mennsk Nilfisk ryksuga. Hún er duglegri að ryksuga inni hjá yfirmönnunum en af og til verðum við strákarnir niðri lucky og hún “ryksugar” okkur ef þú veist hvað ég á við.”

Þessar athugasemdir eru allar skrifaðar af sama manni og stakk upp á því að Sóley Tómasdóttir þyrfti á því að halda að henni yrði nauðgað duglega svo hún tæki sönsum og hætti að vera svona beinþurr kerling. Á sömu nótum eru athugasemdir kennara við Flensborg, Baldurs Hermannssonar, þegar hann sagði á bloggsíðu sinni að konur þráðu innst inni að láta nauðga sér. Hjálmar Sveinsson vakti athygli á þessum sömu ummælum Gillzeneggers í kjölfar umfjöllunar Smugunnar um upprifjun Drífu og opins bréfs Einars Ólafssonar til fyrirtækisins Já sökum upphafningar þeirra á þessum manni og þarmeð óhjákvæmilega á hans málflutningi, og uppskar grátkór fólks sem vændi hann um pólitíska rétthugsun, vinstrimennsku og þöggun – og enn aðrir sögðu að hann væri lélegur borgarfulltrúi – einsog nokkuð af þessu kæmi málinu við.

Þegar menn einsog Gillzenegger hafa uppi viðlíka munnsöfnuð endurspegla þeir raunveruleg viðhorf, til dæmis manna einsog Baldurs Hermannssonar, og þegar svo er komið þá er skammur vegur milli gríns og alvöru. Fyrrum ríkissaksóknari, Valtýr Sigurðsson, endurómaði þessi viðhorf í fyrrahaust þegar hann kenndi áfengisdrykkju brotaþola nauðgana um mörg þeirra tilfella sem kærð væru til lögreglu – því það er einmitt algjörlega í lagi að nauðga konu ef hún er of drukkin til að verja sig, ef marka má málflutning hans. Á bloggsíðu einni skrifaði svo síðuhaldari um að það væri af sem áður var þegar Þjóðhátíð í Eyjum snerist aðallega um að ríða eins mörgum konum og fundust dauðar á víðavangi eða í tjöldum og unnt væri. Brandarinn er búinn. Þessi viðhorf eru raunveruleg, og það síðasta sem umræðan um jafnan rétt kynjanna þarf er fjölmiðlafígúra sem bergmálar þessi sömu viðhorf einsog þau séu eðlileg.

Það er þess vegna sem baráttan er ekki búin. Jafnrétti er hvergi nærri náð meðan kvenfyrirlitning geisar um í samfélaginu einsog engisprettufaraldur og einasta baráttufólk fyrir jöfnum réttindum kynjanna er smættað niður ómálefnalega og tilraun er gerð til að koma þeim fyrir á þeirra rétta stað – sjálfsagt framan við eldavélina eða á framanverðum enda vöðvastælts valmennis sem veit hvað konum er fyrir bestu. Gillzenegger kann að vera paródía, en hann stendur sig öllu betur í forystu fyrir þann miðaldahugsanahátt sem réttlætir misrétti, kvenfyrirlitningu og nauðganir – ekki einasta sökum klæðaburðar – heldur fyrir sakir skoðana einna saman.

Á meðan konur geta ekki gengið um götur óhultar fyrir brjálæðingum sem halda að líkami þeirra sé musteri eigin karlmennsku er ekki unnt að taka slíkum málflutningi léttilega. Á meðan þau viðhorf viðgangast að konur séu á einhvern hátt lakari en karlar, að þær þurfi bara „einn stífan“ ef þær voga sér að vera með kjaft, að klæðaburður þeirra „kalli hreinlega á nauðgun“, þá á baráttan fyrir jafnrétti enn langt í land að ná. Þess vegna er Druslugangan nauðsynleg. Druslugangan er andóf gegn þessum viðteknu hugmyndum um konur sem leikfang til karlmannlegs brúks eftir hentisemi.

Þann 23. júlí næstkomandi munu allir sem láta sig málið varða mótmæla því að konur séu hlutgerðar, ekki aðeins sökum klæðaburðar sem gjarnan er orðað við „druslur“ – þótt það sé það sem sérstaklega er bent á hér – heldur almennt og yfirhöfuð. Það að enn sé til fólk sem réttlætir nauðganir og kynbundið ofbeldi, meiraðsegja innan réttarkerfisins, er nægileg ástæða til að spyrna fótum við og storka því rotna hugarfari sem gegnumsýrir íslenskt þjóðfélag. Af því tilefni munu öll sem láta sig málefnið varða fylkja liði „druslulega klædd“ og ganga niður Skólavörðustíg, Bankastræti og Austurstræti, og hvet ég allar konur og karla til að taka sér stöðu samhliða og mótmæla ójafnréttinu í samfélaginu með þeim.

Í andmælum við þá pólitísku rétthugsun hljótum öll að vænta þess að Gillzenegger og félagar bíði á hliðarlínunni, tilbúnir til að nauðga öllu klabbinu svo þeir fái kvöldmatinn sinn og daglega fullnægju. Mætum því öll til að sýna þeim að þeirra viðhorf eiga ekki upp á pallborðið lengur. Nauðganir eru glæpur sem snertir okkur öll, ekki aðeins konur, og hvernig fólk klæðist er ekki afsökun fyrir ofbeldi. Jafnrétti verður aldrei náð fyrren við útrýmum þeirri hugsun.

– Birtist fyrst á vefsíðu Druslugöngunnar í Reykjavík þann 3. júlí 2011.

__________________________________
Fleiri skrif hafa birst um efnið í kjölfar upprifjunar Drífu:

* Guðmundur Andri Thorsson: Íþróttasjálfurinn.

* Yrsa Þöll Gylfadóttir: Um húmor, íróníu og fyrirbærið Egil/Gillz.

* Magnús Sveinn Helgason: Af andlegum sjúkleika Gillzenegger.

* Magnús Sveinn Helgason: Nauðganaórar og grín Gillzenegger.

* Magnús Sveinn Helgason: Gillzeneggering íslenskra karlmanna.

* Sigurbjörn: Hræddir karlar grínast.

Þrjár breytingar á orðnotkun

1. Að vera sáttur við eitthvað. Í mínum huga merkti þetta alltaf að hafa sætt sig við að eitthvað væri kannski ekki eins gott og við væri að búast, t.d. „nýjasta GusGus platan er ekki eins góð og allir sögðu, en ég er sáttur við hana.“ Árið 2001 heyrði ég þetta fyrst notað með öfugum formerkjum. Þá hafði vinur minn fundið gamlan leðurjakka sem hann var „heavy sáttur með“, í merkingunni að hann var stóránægður. Síðan þá hef ég rekist á þetta víða, og mér sýnist meginreglan vera sú að sé atviksorði skotið framan við þá það mjög jákvæða merkingu að vera sáttur. Ég hef þó líka heyrt þessu fleygt á gamla mátann með nýju merkingunni, en þá er viðkomandi jafnan sáttur með eitthvað en ekki við.

2. Eitthvað er snilld. Held ég hafi fyrst heyrt þetta kringum 1997 á X-inu 9.77. Þá var sagt að eitthvað lag væri „gargandi snilld“. Þetta er orðið rótgróið núna, og eldri kynslóðir eru farnar að segja þetta, en ég man að þetta kom mér á óvart. Áður var snilld einhvers fólgin í hluta einhvers, en ekki heild þess, t.d. „snilldin við Strawberry Fields felst í skiptingunni milli tóntegunda frá intróinu yfir í viðlagið“. Núorðið er jafn algengt að það sé heildin sem er snilld.

3. Að kunna að meta eitthvað. Þetta læt ég fylgja með að gamni af því það náði aldrei fótfestu, svo ég viti. Þá höfðu nokkrir vinir mínir tekið upp á því að nota þetta orðalag yfir allt sem þeim fannst frábært. „Ég kann að meta þá mynd“ merkti „þessi mynd er frábær“. Fyrir mér fól orðalagið þó alltaf í sér niðrun gagnvart viðmælandanum, einsog hann kynni ekki að meta myndina líka – sem er einmitt upphafleg merking. Sá sem ekki kann gott að meta veit einfaldlega ekki betur. Upphafleg merking getur líka borið með sér þakklæti, „ég kann að meta hjálp þína“, en það er sjaldgæft og getur virst hálfafsakandi.

Þetta er auðvitað aðeins mín túlkun. Það væri gaman að heyra frá lesendum (ef einhverjir eru) hvað þeim finnst.