En hún var svo djarflega klædd!

Það er viðtekinn skilningur margra að jafnrétti hafi verið náð milli kynjanna, og því sé barátta fyrir jafnrétti orðin að tímaskekkju – að sumar konur vilji „meira jafnrétti“ en aðrir eiga að njóta, einsog svínin á Dýrabæ; eiginleg kvenréttindi í stað mannréttinda – og svo útbreiddur er þessi skilningur að upphafleg þverstæða Orwells hefur tapast í umræðunni þegar konum er jafnað við svín, sem aftur er jafnað við fasista, sbr. hugtakið femínasismi. Jafnrétti er náð, og samt þurfa konur sérstaklega að mótmæla því að orsakasamhengi sé milli kynbundins ofbeldis og þess hvernig þær klæða sig. Það er ekki síst merkilegt að þeim sem helst er tíðrætt um að banna skuli búrkur, því þær séu kúgunartól, skuli ekki finnast neitt athugavert við þá andstæðu kúgun að konur sem klæði sig „djarflega“ kalli eftir því sjálfar að þeim sé nauðgað. Kannski er þá ekki svo mikill munur á islamófóbum Íslands og þeim sem þeir óttast hvað mest eftir allt saman. Kannski ættu karlar bara að hætta að pæla í því hvernig konur klæða sig.

Undirliggjandi rót þessarar öndverðu þverstæðu einsog hún nú er sett fram liggur í kjarna vestrænnar menningar og órökstuddum ótta við fyrirbæri sem gjarnan er nefnt „pólitísk rétthugsun“. Látum liggja á milli hluta hvort það sé pólitísk rétthugsun að vilja ekki vera nauðgað, og hvort það sé nauðsynlega slæm sort af rétthugsun í sjálfu sér. Í menningunni er nefnilega fólginn ótti sem dansar á egg tvíeggjaðs sverðs, ótti við fordóma og áðurnefnda rétthugsun, og allt sem útaf stendur á hvorn bóginn sem litið er til liggur handan gagnrýni nema sá sem gagnrýnir vilji hætta á að teljast forpokaður.

Það er ekki langt síðan sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason stökk upp á nef sér af illskiljanlegu óþoli gagnvart ímyndaðri menningarelítu sem honum fannst hann vera kominn upp á kant við, af því hann hafði skrifað bók um Jónínu Benediktsdóttur sem fékk ekki alveg þær viðtökur sem hann átti von á. Hluti af vörn hans var að hann teldi samspil milli lágmenningar og hámenningar nauðsynlegt, og nefndi í því sambandi að hann hefði bæði Krishnamurti á náttborðinu sínu og Lífsleikni Gillzeneggers.

Eins skemmtilegt og það hlýtur að vera fyrir Gillzenegger að vera spyrt saman við einhverja óskilgreinda lágmenningu þá hefur Sölvi rangt fyrir sér. Gillzenegger er ekki lágmenning. Menn sem upphefja staðalmyndir og ýta undir kvenhatur dagsdaglega eru ekki lágmenning fyrir menningarelítu að meta á vogarskálunum sötrandi freyðivín; maður sem stingur upp á að nauðga femínistum er ekki þrepi lakari á menningarkvarðanum en sá sem stingur upp á ástarleik með kærustunni, einsog einskonar Rómeó fátæka mannsins. Hann er þvert á móti persóna sem endurspeglar viss viðhorf í samfélaginu á slíkan hátt sem ekki má gagnrýna án þess að vekja upp úlfúð hjá þeim sem óttast pólitíska rétthugsun meir en nokkuð annað. „Þetta er nú meiri pólitíska rétthugsunin, sérðu ekki að Gillzenegger er paródía?“ er gjarnan sagt. En þau viðhorf sem Gillzenegger endurspeglar eru raunveruleg, og þau eru alvarleg. Þau birtast meðal annars í fréttaflutningi DV af Jóni stóra, sem komst svo að orði á Facebooksíðu sinni:

„er það að gefa manni smá clue að kærastan sé of ung ef hún tekur nammið út úr sér og geymir á maganum á manni meðan hún gefur manni blowjob??:D“

Það er fólk til sem heldur í heiðri sömu viðhorf og Gillzenegger setur fram, hvort sem það er gert í gríni eða ekki, og fyrir vikið verður hann sem fjölmiðlafígúra ekki aðeins fyrirmynd þeirra, heldur einnig þeirra óhörðnuðu ungmenna sem hann helst vill höfða til – að eigin sögn með ráðleggingum um hollan lífstíl (nokkuð sem vekur upp furðu í mínu pólitískt réttþenkjandi brjósti). Ef rétt væri með farið væri þetta kannski í einhverjum skilningi fyndið, en að tileinka sér nákvæmlega sömu orðræðu – ef það er þá yfirhöfuð tilfellið að þetta eigi að vera fyndið – er það ekki.

Á dögunum rifjaði Drífa Snædal upp gamla bloggfærslu eftir Gillzenegger þar sem hann segir að:

„Þegar feministar verða of áberandi í fjölmiðlum hefur ávallt virkað að kalla til Ásgeir Kolbeinsson til þess að gefa þessum leiðinda rauðsokkum einn granítharðan í háruga bílskúrinn til þess að þagga niður í þeim.

Drífa Snædal fór mikinn í Kastljósinu á dögunum þar sem hún sat á móti Agli Helgasyni og reyndi að rífa kjaft. Aldrei hefur kvenmaður misst jafn mikið magn af saur í Kastljósinu áður.

Kolbrún [Halldórsdóttir] hefur aldrei fengið stifan lim og því hefur Fréttastofan ákveðið að senda Ásgeir, Jamal, Buka og Yao alla í þetta verkefni. Kolbrún toppaði sjálfa sig í leiðindum þegar hún stakk upp á því að nýfædd börn yrðu ekki sett í blá eða bleik föt. Kolbrún er í fullri vinnu við að vera óþolandi og tala með rassgatinu og það er kominn tími til að þagga niður í henni endanlega og munu þessir herramenn sem Fréttastofan taldi upp áðan fylla hana eins og hátíðarkalkún. Það mun vonandi vera til þess að hún steingrjóthaldikjafti og fari að haga sér.

Steinunn [Valdís Óskarsdóttir] er portkonan sem vildi breyta orðinu ráðherra í ráðfrú fyrir konur. Steinunn þarf lim og það strax. Á hana Steinunni Valdísi dugar ekkert annað en lágmark tveir harðir og munu Buka og Yao taka þetta verkefni að sér. Fréttastofan ákvað að gefa Ásgeiri Kolbeinssyni frí í þetta skiptið, en Fréttastofan vill ekki hafa það á samviskunni að Ásgeir finnist hangandi í ljósakrónu í vesturbænum.“

Heimildarmaður Fréttastofunnar vildi ekki koma undir nafni en hann hafði þetta að segja: “Ég hef aldrei séð annað eins, hún [Anna Margrét Björnsdóttir] gengur um fyrirtækið eins og mennsk Nilfisk ryksuga. Hún er duglegri að ryksuga inni hjá yfirmönnunum en af og til verðum við strákarnir niðri lucky og hún “ryksugar” okkur ef þú veist hvað ég á við.”

Þessar athugasemdir eru allar skrifaðar af sama manni og stakk upp á því að Sóley Tómasdóttir þyrfti á því að halda að henni yrði nauðgað duglega svo hún tæki sönsum og hætti að vera svona beinþurr kerling. Á sömu nótum eru athugasemdir kennara við Flensborg, Baldurs Hermannssonar, þegar hann sagði á bloggsíðu sinni að konur þráðu innst inni að láta nauðga sér. Hjálmar Sveinsson vakti athygli á þessum sömu ummælum Gillzeneggers í kjölfar umfjöllunar Smugunnar um upprifjun Drífu og opins bréfs Einars Ólafssonar til fyrirtækisins Já sökum upphafningar þeirra á þessum manni og þarmeð óhjákvæmilega á hans málflutningi, og uppskar grátkór fólks sem vændi hann um pólitíska rétthugsun, vinstrimennsku og þöggun – og enn aðrir sögðu að hann væri lélegur borgarfulltrúi – einsog nokkuð af þessu kæmi málinu við.

Þegar menn einsog Gillzenegger hafa uppi viðlíka munnsöfnuð endurspegla þeir raunveruleg viðhorf, til dæmis manna einsog Baldurs Hermannssonar, og þegar svo er komið þá er skammur vegur milli gríns og alvöru. Fyrrum ríkissaksóknari, Valtýr Sigurðsson, endurómaði þessi viðhorf í fyrrahaust þegar hann kenndi áfengisdrykkju brotaþola nauðgana um mörg þeirra tilfella sem kærð væru til lögreglu – því það er einmitt algjörlega í lagi að nauðga konu ef hún er of drukkin til að verja sig, ef marka má málflutning hans. Á bloggsíðu einni skrifaði svo síðuhaldari um að það væri af sem áður var þegar Þjóðhátíð í Eyjum snerist aðallega um að ríða eins mörgum konum og fundust dauðar á víðavangi eða í tjöldum og unnt væri. Brandarinn er búinn. Þessi viðhorf eru raunveruleg, og það síðasta sem umræðan um jafnan rétt kynjanna þarf er fjölmiðlafígúra sem bergmálar þessi sömu viðhorf einsog þau séu eðlileg.

Það er þess vegna sem baráttan er ekki búin. Jafnrétti er hvergi nærri náð meðan kvenfyrirlitning geisar um í samfélaginu einsog engisprettufaraldur og einasta baráttufólk fyrir jöfnum réttindum kynjanna er smættað niður ómálefnalega og tilraun er gerð til að koma þeim fyrir á þeirra rétta stað – sjálfsagt framan við eldavélina eða á framanverðum enda vöðvastælts valmennis sem veit hvað konum er fyrir bestu. Gillzenegger kann að vera paródía, en hann stendur sig öllu betur í forystu fyrir þann miðaldahugsanahátt sem réttlætir misrétti, kvenfyrirlitningu og nauðganir – ekki einasta sökum klæðaburðar – heldur fyrir sakir skoðana einna saman.

Á meðan konur geta ekki gengið um götur óhultar fyrir brjálæðingum sem halda að líkami þeirra sé musteri eigin karlmennsku er ekki unnt að taka slíkum málflutningi léttilega. Á meðan þau viðhorf viðgangast að konur séu á einhvern hátt lakari en karlar, að þær þurfi bara „einn stífan“ ef þær voga sér að vera með kjaft, að klæðaburður þeirra „kalli hreinlega á nauðgun“, þá á baráttan fyrir jafnrétti enn langt í land að ná. Þess vegna er Druslugangan nauðsynleg. Druslugangan er andóf gegn þessum viðteknu hugmyndum um konur sem leikfang til karlmannlegs brúks eftir hentisemi.

Þann 23. júlí næstkomandi munu allir sem láta sig málið varða mótmæla því að konur séu hlutgerðar, ekki aðeins sökum klæðaburðar sem gjarnan er orðað við „druslur“ – þótt það sé það sem sérstaklega er bent á hér – heldur almennt og yfirhöfuð. Það að enn sé til fólk sem réttlætir nauðganir og kynbundið ofbeldi, meiraðsegja innan réttarkerfisins, er nægileg ástæða til að spyrna fótum við og storka því rotna hugarfari sem gegnumsýrir íslenskt þjóðfélag. Af því tilefni munu öll sem láta sig málefnið varða fylkja liði „druslulega klædd“ og ganga niður Skólavörðustíg, Bankastræti og Austurstræti, og hvet ég allar konur og karla til að taka sér stöðu samhliða og mótmæla ójafnréttinu í samfélaginu með þeim.

Í andmælum við þá pólitísku rétthugsun hljótum öll að vænta þess að Gillzenegger og félagar bíði á hliðarlínunni, tilbúnir til að nauðga öllu klabbinu svo þeir fái kvöldmatinn sinn og daglega fullnægju. Mætum því öll til að sýna þeim að þeirra viðhorf eiga ekki upp á pallborðið lengur. Nauðganir eru glæpur sem snertir okkur öll, ekki aðeins konur, og hvernig fólk klæðist er ekki afsökun fyrir ofbeldi. Jafnrétti verður aldrei náð fyrren við útrýmum þeirri hugsun.

– Birtist fyrst á vefsíðu Druslugöngunnar í Reykjavík þann 3. júlí 2011.

__________________________________
Fleiri skrif hafa birst um efnið í kjölfar upprifjunar Drífu:

* Guðmundur Andri Thorsson: Íþróttasjálfurinn.

* Yrsa Þöll Gylfadóttir: Um húmor, íróníu og fyrirbærið Egil/Gillz.

* Magnús Sveinn Helgason: Af andlegum sjúkleika Gillzenegger.

* Magnús Sveinn Helgason: Nauðganaórar og grín Gillzenegger.

* Magnús Sveinn Helgason: Gillzeneggering íslenskra karlmanna.

* Sigurbjörn: Hræddir karlar grínast.

One thought on “En hún var svo djarflega klædd!”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *