Einsog svo margir fylgdist ég dofinn með beinni útsendingu norska ríkissjónvarpsins á dögunum, þegar Anders Behring Breivik sprengdi fyrst forsætisráðuneytið í Osló og myrti þvínæst unga jafnaðarmenn í hrönnum á Utøya. Þessi voðaverk hefðu alstaðar verið hræðileg, en urðu því ógnvænlegri sem þau voru okkur nálægri, hefur gjarnan heyrst í kjölfarið. Huggun harmi gegn var hann einn að verki, hefur einnig heyrst.
Þá er kannski best að benda á nokkur atriði.
Breivik er þjóðernissinni, og sem slíkur er hann ekki einstakur. Ég sagði fyrst frá upplifun minni af íslenskum þjóðernissinnum í grein á Múrnum sáluga árið 2006. Inni á Kofa Tómasar frænda sátu þeir í myndarlegum hóp og ræddu Júðana, að Pólverjar væru armasti angi hins hvíta kynstofns, og að Hitler hefði bara alls ekkert verið slæmur maður. Á meðal þeirra sat drengur á að giska fjórtán ára, drakk bjór og reykti sígarettur. Á handlegginn hafði hann tússað hakakross og þóttist vera í góðum félagsskap. Í horninu sat aumingjans maður af asískum uppruna meðan á þessum ósköpum stóð og hlýddi áhyggjufullur á hvert einasta orð. Þetta voru hreinræktaðir nasistar.
Í mótmælum við Austurvöll á síðasta ári mættu nokkrir sjálfsyfirlýstir þjóðernissinnar með nasistafána, sem snögglega voru rifnir af þeim og réttilega brenndir. Í kjölfarið börmuðu þau sér nokkuð á síðum DV yfir að skoðanir þeirra væru réttmætar og því hefði eign þeirra að tilhæfulausu verið eyðilögð. Þau væru sko engir nasistar, þau væru bara þjóðernissinnar sem vildu losna við óæskilega kynstofna úr landinu. Á vefsíðu þeirra, sem ekki kemur til greina að ég tengi á, kemur fram að allir þeir sem ekki styðja málstað þeirra séu föðurlandssvikarar.
Í Svíþjóð komust Svíþjóðardemókratar í fyrsta sinn inn á þing á liðnu hausti. Systurflokkur þeirra er Danski þjóðarflokkurinn, sem fúnkerar nú sem hækja dönsku ríkisstjórnarinnar og stýrir úr oddasætinu í raun öllum þeim málefnum sem á einn eða annan hátt snerta innflytjendur. Báðir flokkar hafa opinberlega lýst því yfir að þeim sé kappsmál að stemma stigu við aðsókn innflytjenda sem ekki eru „norrænir“ útlits. Þannig hljóðar hin opinbera stefna, en í raun réttri gera flokkarnir tveir allt sem í sínu valdi stendur til að beinlínis hrekja innflytjendur burt. Til þess beita þeir ýmsum meðulum. Frægt er orðið þegar, í miðri kosningabaráttu í Svíþjóð, oddviti Svíþjóðardemókratanna í Malmö risti hakakross í enni sér og hélt því fram að múslimar hefðu gert það. Áreiðanlega bar hann krossinn stoltur.
Í Finnlandi komust Sannir Finnar til valda og í Hollandi er Frelsisflokkurinn undir forystu Geerts Wilders sífellt að færa sig lengra upp á skaftið. Sambærilega þróun innan evrópskra stjórnmála má sjá í Þýskalandi, Frakklandi og víðar. Alstaðar vex þjóðernissinnum fiskur um hrygg. Þeirra sáust einnig merki í íslenskri flokkapólitík þegar Frjálslyndi flokkurinn hljóp snögglega undir merki þjóðernisstefnunnar og þurrkaði sig rækilega út á landsvísu í kjölfarið. Ekki þar fyrir að þeir þar hafi ekki notið kjörþokka meðal sumra.
Í Árósum eru nasistar sérstaklega áhrifamiklir hef ég eftir áreiðanlegum heimildum. Tveim ungum stjórnmálamönnum mér kunnugir, sem á vettvangi Einingarlistans hafa opinberlega beint spjótum sínum að nasistum, hefur verið hótað lífláti. Annað þeirra hefur ítrekað orðið fyrir alvarlegum líkamsárásum, misst tennur og hlotið varanleg ör. Ég hef tekið að mér að skrá eftir þeim þessa atburði alla, en sökum ótta við afleiðingarnar hefur reynst erfitt að fá þau til viðtals. Ítarleg saga þeirra bíður betri tíma til birtingar.
Í þessum hafsjó öllum er Anders Breivik engin undantekning nema að því leyti að hann hafði í hyggju að framkvæma það sem aðrir hafa hingað til aðeins hugsað – og sú áætlun var allítarleg einsog Haukur Már Helgason hefur fjallað um og tekið til rækilegrar greiningar. Haukur Már bendir ennfremur á að í einu og öllu aðhyllist Breivik nákvæmlega sömu hugmyndafræði og ofangreindir stjórnmálaflokkar, hefur skoðanir sem enduróma vítt og breitt um bloggsíður og athugasemdakerfi fjölmiðla, ekki síst á Íslandi.
Nálægðin við hryðjuverkin í Noregi verður ennþá meiri þegar þau eru sett í samhengi við þá þróun sem átt hefur sér stað í Evrópu á undanförnum áratug. Að það sé huggun harmi gegn að hann hafi starfað einn get ég á engan hátt tekið undir á meðan völlurinn eykst á heilu samtökum samskonar sálarleysingja vítt og breitt í álfunni. Menn einsog Breivik starfa aldrei einir, ekki hugmyndafræðilega, og það er í hugmyndafræðinni sem rót ofbeldisins liggur – ekki í sálarkirnu einstaks brjálæðings.
Birtist fyrst á Smugunni.