Stjúp er líka ekta

Gamlárskvöld
Mér finnst svona eftir á að hyggja að það sé til talsvert mikið af efni um það hvernig er að verða faðir, en öllu minna um það hvernig það er að verða – snögglega sem slíkt hendir – stjúpfaðir. Ég geri mér grein fyrir að það er ekki eins merkilegt og hitt, en það er þó talsvert merkilegt þó kannski sé það ekki á þann hátt sem maður sjálfur hefði búist við. Það er heldur ekki neitt sem auðvelt er að koma orðum að, og kannski er líka bara ágætt að hafa sem fæst orð um það.

Dagarnir undanfarna mánuði hafa liðið einsog ég veit ekki hvað, svo maður gleymir eiginlega öllu öðru en því sem liggur næst manni, beint framan við nefið. Áramótin síðustu voru öðruvísi en ég hef átt að venjast: þau fyrstu síðan áramótin 1999-2000 sem ekki voru gegndarlaust fyllerí, þau fyrstu sem ég fagnaði sem stjúpfaðir.

Svo túristalegt!
Í kjölfarið áttum við Eyja nokkra ljómandi daga í París. Það var gott að komast úr fannferginu sem var hérna heima og aftur í einhverslags haust. Það fyrsta sem vakti athygli mína, fyrir utan sérstaka hönnun Charles de Gaulle flugvallarins, voru göngin sem við þurftum að fara í gegnum til að komast út. Þar ljómuðu gömul raularalög frá sjötta áratugnum, einsog til að búa mann undir að stíga aftur í tímann, og París olli mér engum vonbrigðum þar. Í lestinni inn að Gare du Nord tók við næsti fasi undirbúningsins. Náungi spilaði á harmóníku og rukkaði farþega fyrir flutninginn, og skildi þar milli sauða og hafra; aðeins túristar borguðu.

Í París gerðum við að sjálfsögðu margt ósköp túristalegt: skoðuðum Eiffelturninn, Svartaskóla, Pantheon, Sigurbogann (við þá nöturlegu götu Champs Elysées), Sacre Cœur, Notre Dame og sitthvað fleira; fundum rigninguna í hárinu á þröngum stígum milli þrettánda og fimmta hverfis, settumst við kaffibolla þar sem okkur sýndist, keyptum baguette og, þótt einstaklega settleg værum, komst ég að minnsta kosti í tengsl við minn innri bóhem. Sumir staðir í París orkuðu á mig einsog ímyndunaraflið væri komið heim. Við áttum einnig inni gott heimboð hjá Kristínu Parísardömu og fjölskyldu, eftir að hún var svo ljúf að sýna okkur aðeins um Belleville.

Sem hið fyrra ár er allt útlit fyrir að ég muni ferðast mikið. Ég á pantaðan flugmiða til Árósa eftir tæpar sex vikur, þar sem ég verð með erindi á ráðstefnu. Þar sem það er engin heil brú í því að taka sér á hendur sjö tíma ferðalag á fyrrum heimaslóðir til þess eins að masa í 20 mínútur ákvað ég að vera viku. Þá ætti ég að ná að heimsækja vini í að minnsta kosti tveim sveitarfélögum.

Sérhver vegur að heiman er leiðin heim, einsog einhver sagði (pottþétt einhver búddisti), og á það tvöfalt við í mínu tilviki þar sem ég fer svo enn eina ferðina til Árósa í ágúst til að taka þátt í annarri, heldur stærri ráðstefnu. Raunar þeirri stærstu mögulegu innan minna fræða, og ég er svo lánsamur að skipuleggjendur hafi dottið á hausinn áður en þau fóru yfir umsóknirnar. Að minnsta kosti finnst mér líklegast að einmitt þess vegna hafi þeim þótt góð hugmynd að fá mig þangað.

Sem fyrr segir hef ég kannski ekki endilega verið óviðjafnanlega upptekinn undanfarið, ég hef bara ekki verið viðræðuhæfur, beinlínis. Ég hef gleymt mér við ýmis störf, misgáfuleg, en vonandi sér fyrir endann á að minnsta kosti einu verkefni í haust. Það eru um það bil fimm ár síðan ég byrjaði á því svo það yrði kærkomið að losna við það, kannski ekki síst vegna þess að ég finn til ábyrgðar gagnvart því og að ábyrgðarleysi er mér öllu eðlislægara.

Við Anna María á góðri stund að horfa á sjónvarp
Ábyrgðarleysi er þó fáanlegt í ýmsum sortum, en ekki þeirri sem mætti mér í kvöld þegar Eyja var í heimsókn hjá vinkonum. Stelpurnar höfðu semsagt rifist eitthvað sem litlu máli skipti, einsog börn gera, og úr varð að sú yngri kom inn í svefnherbergi til mín og spurði hvort hún mætti lesa fyrir mig í staðinn fyrir systur sína, og úr varð að hún kláraði fyrir mig bókina! Svo burstaði hún tennurnar alveg ótilneydd og þegar ég spurði hana hvort ég ætti að lesa eitthvað fyrir hana fór hún og sótti Madditt innan úr herbergi. Núna liggur litla skinnið á rúminu okkar Eyju með apaskottið Önnu Maríu í fanginu, og sefur.

Allt hefur sinn tíma, og það þótt hann líði hratt, og hlutirnir hafa gengið svona upp og ofan einsog jafnan er raunin um flesta hluti. Enginn verður ókrítíseraður stjúppabbi, altént hvað börnin varðar, en hitt er þó annað mál að þegar allt kemur til alls þá stóla þau nú samt á mann á talsvert margslungnari vegu en mann sjálfan, sýnískan lífsnautnasegginn, hafði grunað. Það sem gerir slíkar stundir ennþá verðmætari er sú tilfinning að maður hafi unnið sér inn fyrir traustinu, að maður megi vera til staðar, því það mega alls ekki allir. Og það er hreint út sagt ótrúleg tilfinning sem, því meir sem ég hugsa út í það, er eiginlega fullkomlega ónauðsynlegt að menga með orðum.

One thought on “Stjúp er líka ekta”

  1. Stjúp er sko ALVEG ekta. Ég er svo stálheppin að hafa fengið að vera stjúpmóðir í 21 ár (vá hvað ég er gömul) svo ég veit hvað ég er að tala um.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *