Draumfarir

Laddi tekur alltaf þátt í mottumars
Margt dreymir mann skrýtið, til dæmis um daginn þegar ég var staddur aftan í flutningabíl ásamt heimsþekktum spámiðli sem vildi ginna mig í kynlífsleik með sér og stærðarinnar mannapa (þó ekki beinlínis górillu).
Í nótt var það þó öðruvísi. Þá dreymdi mig að ég væri staddur í Bandaríkjunum, að líkindum, og mætti púmu úti á götu einsog það hét í draumnum, reyndar líkari svörtum pardus. Til að forða öðrum frá fjörtjóni slóst ég við púmuna og hafði undir, en ekki fyrr en hún hafði slegið sundur rifkassann í mér með hramminum svo beinin stóðu út um síðuna.
Ég gekk heim á leið og hafði þvínæst samband við neyðarlínuna, sallarólegur, til að tilkynna þeim um benjar mínar og biðja um sjúkrabíl. Leið og beið uns bíllinn kom og við stýrið sat Laddi, skartandi fínu yfirskeggi. „Er allt í lagi félagi?“ spurði hann, svo hin einstaka Laddarödd bergmálaði í vitund minni. „Jájá,“ sagði ég, „en ég þarf að komast á næsta sjúkrahús.“ „Græjum það,“ svaraði Laddi og vísaði mér aftur í bílinn.
Fyrri drauminn ræð ég fyrir því að bráðum muni uppgötvast óþekkt apategund sem vafasamir einstaklingar muni reyna að notfæra sér til sinna eigin ískyggilegu meðala, en þann hinn síðari ræð ég svo að mér sé hollast að taka ekki þátt í mottumars í ár.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *