Sumardagurinn fyrsti

– var í raun á þriðjudaginn, a.m.k. hvað veðrið snertir. Eftir aðeins eitt ár í Danmörku, þar sem ég upplifði ekki beinlínis neina frídagahelgi, er ég orðinn alveg ringlaður í þessum íslensku frídögum. Ég hélt t.d. ekki að neinn héldi upp á sumardaginn fyrsta lengur nema hið opinbera, og hef haldið það í ein 20 ár. En þetta er víst einsog hver annar sunnudagur, og meðan ein kynslóð teygir sig eftir afréttaranum fer sú næsta á undan með börnin niður í bæ að horfa á skrúðgöngu! Aldrei hafði ég heyrt af því fyrr en í dag. Í mínum huga var þetta alltaf bara dagurinn þegar hjólið var dregið fram undan vetri.

Annars segir það ýmislegt um mig að mér finnst orðið fullmikið að detta í það á miðvikudagskvöldi bara af því það er frí daginn eftir, helgin rétt liðin og sú næsta rétt að koma. Raunar finnst mér orðið fullmikið af ansi mörgu. Kannski er það bara netið.

Þessa dagana er ég smátt og smátt að enduruppgötva Reykjavík. Rölti með Eyju út á Laugarnestanga á sunnudaginn – ég bjó hinumegin götunnar í 16 ár en hafði aldrei farið svona langt yfir tóftirnar – úteftir Sundahöfn og upp aftur við Sælgætisgerðina Völu sem er víst flutt eitthvert annað. Þar sníktum við strákarnir stundum nammi á árum áður.

Í gær rölti ég svo ofan úr Hlíðum niður í gegnum Laugardalinn og upp í Sólheima með stærðarinnar bókasafnspoka sem rifnaði á leiðinni. Miðasölubásarnir við Laugardalsvöll eru horfnir, en ljóta „torgið“ með bekkjunum og runnunum sem var hlaðið við gamla Laugarveginn 1994 er enn á sínum stað og í sömu órækt og það hefur verið síðastliðin 16 ár. Það vó aðeins upp á móti hinu sem hafði breyst. Fullt af fólki mun hafa verið að skoða skepnur í Húsdýragarðinum síðustu vikuna en þegar ég fór hjá var allt í lás. Þó er einsog mig minni að þar hafi jafnan verið opið á sumardaginn fyrsta svo kannski verður þar eitthvað af fólki á morgun að krútta úr sér þynnkuna.

Sjálfur fer ég líklega bara út að hjóla, einsog ég átti vanda til á þessum degi einhvern tíma á síðustu öld.

4 thoughts on “Sumardagurinn fyrsti”

  1. Ég var í húsdýragarðinum á þriðjudag. Þá var alveg áreiðanlega auglýst einhver dagskrá sumardaginn fyrsta – sem hluti af barnamenningarhátíð held ég. Ég gaumgæfði það að vísu ekki svo kannski er þetta vitleysa. Og kannski sáu þau þig bara nálgast og héldu að þú værir krókódílamaðurinn, slökktu öll ljós og skelltu í lás.

  2. Því má bæta við að ég hef alltaf kunnað betur við skrúðgöngurnar sumardaginn fyrsta en 17. júní því það eru ekki eins mikil læti og mannfjöldi.

  3. Mér datt raunar eitthvað svipað í hug, að útsendarar Fjölskyldu- og húsdýragarðsins fylgdust með ferðum mínum svo ég kæmi alltaf að luktum dyrum. Hefnist mér þá fyrir að hafa iðulega sniglað mér inn yfir girðingar í æsku.
    Sammála þessu með mannfjöldann. Pylsur og andlitsmálning í Laugardalnum hljómar raunar kunnuglega. Nú er einsog mig minni að það hafi áður verið á lóð Laugarnesskóla, eða enn líklegar bæði þar og í dalnum (í mörg ár létu allir strákar mála sig í framan einsog einhver skjaldbakanna og þeir sem vildu verða Rafael urðu súrir ef þeir fengu bláa rönd um augun). Iðulega hjólaði ég þarna framhjá en tók aldrei þátt því einhverra hluta vegna voru þarna jafnan krakkar sem maður kannaðist ekkert við.
    Og nú hlæ ég að samsetningunni ómenning og listasmiðjur.

Skildu eftir svar við Arngrímur Vídalín Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *