Á íslensku má alltaf finna orð

Stelpurnar kölluðu á athygli mína rétt í þessu. Þegar hún var fengin spurði sú yngri þá eldri hvort hún vildi kynnast sér. Sú eldri játti því og þær nudduðu kinnunum saman, eða „gerðu a“ einsog það hét víst eitt sinn.

Á sunnudaginn heyrði ég svo hið frábæra orð pomsur í fyrsta sinn. Pomsur eru hraðahindranir, nefndar svo af því maður „pomsar svona niður“.

Óþekkt fólk og horfið

Á Háskólatorgi er jafnan gaman, enda þótt byggingin sé ein sú ljótasta á landinu öllu. Þar er margt um manninn og oftast hitti ég fólk sem ég þekki, í dag hitti ég t.d. málvísindanemuna knáu hana Silju Hlín. Vanalega hitti ég þó mun fleira fólk sem ég þekki ekki neitt, eða man a.m.k. ekki eftir. Þá er lítið annað að gera en að heilsa á móti, brosa sínu blíðasta og vona að ekki komi til samræðna. Þetta hefur hent mig fjórum sinnum í dag. Getur kannski verið að ég þekki alls ekki allt þetta fólk?

Kannski ég ætti bara að biðja um að allir kynni sig alltaf fyrir mér einsog í fyrsta skipti og dikti upp nafn á þessa fötlun mína.

Gamlir kunningjar halda áfram að deyja, ýmist af slysförum eða fyrir eigin hendi. Fyrst frétti ég fyrir tilviljun af einum sem vann með mér í ríkinu forðum. Síðar sóttum við fíluna saman þegar hann ákvað að klára loksins sagnfræðina. Hann velti bílnum sínum fyrir rúmum þrem árum. Þá var einn sem ég vann með á Borgarspítalanum og hefur greinilega liðið illa. Hann fór í sumar, blessaður strákurinn.

Skrýtið þegar fólk fer svona.