Þetta var nokkuð óþægileg nótt, ég hélt áfram að hrökkva upp hóstandi. Vaknaði svo skjálfandi og með höfuðverk sem ég er enn ekki laus við og keyrði pabba, ásamt pumpu, Nesjavallaleiðina út að Úlfljótsvatni þar sem bíllinn hans sat á loftlausu dekki. Í þessu líka ofsaviðri. Á bakaleiðinni tafðist ég spöl úr leið aftan við Lapplander á þýskum plötum sem lullaði áfram á 50 úti á þjóðvegi. Velti fyrir mér stundarkorn hvort Huldar Breiðfjörð hefði verið þýddur yfir á tungu Búndesrepúblíksins og því ef til vill átt hlut að máli þótt óbeint væri, valdið straumhvörfum í hugum ungs vinahóps í 101 Stuttgart, „Wir müssen durch Island in einem Volvo Lapplander fahren!“ og nú væru þau komin í þennan hrylling hérna á sérstaklega völtu farartæki. Mikil er ábyrgð þín, Huldar.
Á leiðinni heim kom ég við í Góða hirðinum og festi kaup á flatskjá til að tengja við borðtölvuna sem ég hef ætlað skrifstofunni. Ég setti svo tölvuna saman til þess eins að setja upp Office á henni en þá virkaði ekki fyrsti diskurinn sem öll installasjónin hangir á. Þar sem ég nenni alls ekki að finna Office fyrir Windows XP á netinu (þótt ég eigi keypt eintak þyrfti ég að stela þessum úrelta hugbúnaði, sem er fullkomlega snargalið) sótti ég OpenOffice á makkann og færði yfir á tölvuna með minnislykli. Það þarf að duga í bili.
Og nú fer klukkan að nálgast fimm og ég hef enn ekki unnið neitt í dag. Me miserum.