Þjónn, það er kona í mannkynssögunni minni

Mig langar að verða duglegri við að setja inn ýmiss konar hugleiðingar hér, almenns efnis, námsefnis og svo framvegis. Til að mynda rámaði mig snögglega í það – meðan ég beið eftir espressókönnunni rétt áðan (ég drekk kaffi á kvöldin) í samræðu við Eyju um hina karlmiðuðu sögu (ég bjó til þennan Jón Sigurðsson sem fylgir bloggfærslunni, eiginlega alveg óvart, og þaðan spratt umræðuefnið) sem einhverjum gæti þótt móðgandi að tala um sem slíka – að saga, einsog ég man það, var fag sem öllum þótti leiðinlegt, bæði stelpum og strákum. Alltaf. Nema rétt á meðan það var tilkynnt að lesið yrði um aðra hvora heimsstyrjöldina – hvora sem var – þá þótti strákunum gaman í sögu. En svo byrjuðu þeir að lesa og saga varð strax aftur leiðinleg. Það stóðst ekki samanburð að lesa eða horfa á Apocalypse Now í heimabíói (héldu þeir).

Þórður bróðir kvartaði einhvern tíma undan því að honum væri fyrirmunað að lesa línulega atburðarás yfir margar aldir ef hann ætti að muna nokkurn skapaðan hlut hvað hann læsi, sér í lagi nöfn og ártöl. Og að vissu leyti er galið að læra söguna þannig, að vissu leyti er það alls ekki galið. Þegar maður fer að hugsa um þetta þessum árum síðar man maður vissulega að margir svitnuðu fyrir sögupróf. Nemendur grenjuðu einsog Ædolkeppendur á göngum skólans. Þeim gekk jafnan sæmilega sem verst gekk; enginn hafði í raun ætlast til að þeir lærðu þetta allt svona nákvæmlega og áhyggjurnar voru flestar tilefnislausar.

Þessar hugleiðingar eru þó fyrst og fremst sprottnar upp af þeirri staðreynd að mannkynssagan er karllæg, sem er mikilvægt að vera meðvitaður um þegar maður rannsakar sögu; tiltekin tímabil, menningu og bókmenntir þeirra. Það er ekki hægt að rannsaka miðaldabókmenntir nema rannsaka að einhverju leyti sögu þeirra einnig, jafnvel þótt það sé aðeins að litlu marki gert, og saga bókmennta er óhjákvæmilega saga menningar og tímabils í leiðinni. Og það er sáralítið af konum í þessari sögu allri. Ég man að þónokkrum sinnum gramdist bekkjarfélögum mínum það að eiga að læra „endalaust um einhverja löngu dauða karla“ og þær kvartanir komu jafnan frá strákum.

Ég er ekki að segja að við fáum breytt sögunni úr því sem komið er til að gera hana áhugaverðari, heldur að mér finnst þetta áhugavert í sjálfu sér. Það þarf nefnilega ekki nauðsynlega að vera að hið karlmiðaða falli körlum í geð einsog stundum mætti skilja á fólki.

~

Sjálfur hef ég alla tíð verið sögufíkill, þótt þekking mín á sögu hafi látið á sjá sökum vanrækslu síðustu misseri. Ég las allar kennslubækur sem eru alræmdar fyrir að vera leiðinlegar og fannst þær æðislegar, meiraðsegja Sjálfstæði Íslendinga I-III eftir Gunnar Karlsson. Ég hef það mér til afsökunar að ég var barn. Ég hef enga slíka afsökun þegar kemur að bókum Heimis Pálssonar.

Sturlungaöldin var mitt tímabil. Um hana vissi ég tíu ára allt það sem hægt var að læra af kennslubókum og meira til (núorðið man ég harðla lítið). Ég teiknaði ættartré Sturlunga og hending réði því að Snorri leit út einsog fífl á teikningunni en að Sighvatur Sturluson varð svalastur, og fyrir því hafði ég miklar mætur á Sighvati upp frá því og svíður alltaf dálítið í sinnið þegar ég keyri framhjá Örlygsstöðum í Skagafirði. Nú man ég ekki hvort Sturlunga var til á mínu heimili en í stað þess að lesa hana, eða gera tilraun til að lesa hana, þá hófst ég handa við að skrifa hana – á formi myndasögu – út frá því sem ég vissi. Sem var svosem ekki mikið þegar allt kom til alls.

Sighvatur féll við Örlygsstaði eftir hefðbundinni söguskoðun, en í minni útgáfu þá hafði hann falið sig í runna og duldist þar vel á grænu peysunni sinni; hann hefði lifað af bardagann ef pirraður Ásbirningur í leit að honum hefði ekki höggvið til runnans í gremju sinni og óafvitandi hæft Sighvat. Snorri var nokkuð nákvæmlega brytjaður eftir lýsingu Gunnars Karlssonar og fannst mér leiðinlegast að teikna þann kafla (enda lítið svigrúm til sköpunar). Þórður Sturluson varð óvígur í anakrónískri atlögu að skóggangsmanninum Gísla Súrssyni (Þórður bróðir hafði þá nýverið lesið Gíslasögu og mér þótti útlegð vegna sæmdarvíga spennandi) sem hafði víggirt heimili sitt með alls kyns gildrum. Þar féllu allir nema Þórður, slíkt heljarmenni fyrir sem Gísli var, en um örlög Þórðar og ævintýri átti eftir að skrifa lengri sögu. Hans sonur var enda Sturla sem var eiginlegur höfundur þessara frásagna allra, alveg sama þótt ég diktaði þær að mestu upp sjálfur. Inn í þetta hafði ég svo ráðgert að blanda Gretti Ásmundarsyni og fleiri köppum á einhvern hátt. Læt ég eftir mig óklárað verk en þætti vænt um ef ég fyndi varðveitt.

Það var því nokkuð skondið þegar ég sat tíma hjá mentór mínum fyrir réttum áratug og fékk að vita að þeir bróðir hans hefðu skrifað framhald Sverrissögu og verið það ofarlega á merinni að hafa reynt að frumgera fornmál til brúks í sögunni (það er alltaf gott að vita að maður er ekki einn um að fremja furðuverk). Og þegar maður lítur til sagnaritunar á miðöldum þá má nú vel ímynda sér að vinnubrögðin hafi ekki nauðsynlega verið ósvipuð á köflum, þótt ekki hafi verið með sama vúlgar hætti; sum miðaldarit eru óttalegt kópí-peist með viðbótum, mótsögnum og anakrónisma og engar forsendur endilega til að meta hver heimild er „rétthæst“, sér í lagi þegar viðkemur norrænni trú.

En þessi Sturlunga 2.0 sem ég skrifaði, ég get ekki sagt að hún hafi verið annað en karlmiðuð. Ég minnist þess ekki að í nokkrum einasta ramma hafi komið fyrir kona, hvað þá að minnst hafi verið á konur í sögunni. Einu konurnar sem var að finna voru í áðurnefndu ættartré sem ég felldi fremst inn í söguna til hægðarauka fyrir væntanlega lesendur. Og hvað þýðir þetta? Ætli það þýði ekki bara að það læri börnin sem fyrir þeim er haft, og að hið dularfulla kvenlaga gat í mannkynssögunni sé nokkuð sem maður þarf ætíð að vera meðvitaður um. Sögunni fæst ekki breytt en við ráðum því með hvaða hugarfari við lítum hana.