Ég þreytist ekki á að þakka fyrir þá þjónustu sem Háskóli Íslands býður nemendum sínum (munið það næst þegar þið kvartið að ekkert er sjálfsagt). Eftir að hafa skrifað meistararitgerð í svefnherberginu heima að mestu (við misgóðar aðstæður) og sumpart á Kringlusafni (tölum ekki um það) þá fór ég að hugsa mér til hreyfings. Eftir að hafa skoðað helstu möguleikana sem ekki eru ReykjavíkurAkademían þar sem ég áður vann – það eru þá borð á Árnastofnun, skrifstofa á Landsbókasafni eða skilrými (e. cubicle) í Gimli – þá sótti ég um aðstöðu á síðastnefnda staðnum um leið og ég hafði borgað skólagjöldin.
Og nú í vikunni var mér úthlutað borði þar, sem lög gera ráð fyrir að fylgi bókahilla, læsanlegur skápur og hirsla á hjólum. Nema lög gera náttúrlega ekki ráð fyrir fyrri borðbúa sem ekki hefur formlega yfirgefið aðstöðuna. Bókahillan er full af möppum og öðru drasli, skápurinn er læstur (og fullur) og hirslan er læst (og full). Fyrri borðbúi skrapp til útlanda í einsog eitt ár og tók aðstöðuna svona líka hressilega í gíslingu, í þeirri von að hann héldi henni á meðan einsog einhver Kjartan Ólafsson (helst þekktur fyrir að fara í fýlu þegar hann kom aftur frá útlöndum og fann að Bolli fóstbróðir hans hafði fastnað sér unnustu hans. Bolli neyddist loks til að púnktera hann með sverði svo hann dó, svo freklega lét hann með þetta. Það leiðir því bersýnilega af hefðun fyrri borðbúa að hann hefur ekki lesið Laxdælu).
Og undir eins og ég mæti á svæðið stendur varðhundur upp af borði hinumegin þils og tjáir mér að fyrri borðbúi sé væntanlegur innan loka annarinnar. Honum varð ekki kápan úr því klæðinu; seint um aftan eftir að allir höfðu yfirgefið svæðið, að undanskildum mínum gamla bekkjarfélaga Haraldi Hreinssyni, þá mætti ég og plantaði borðtölvu, pappírshrúgu og gommu af bókum á borðið. Daginn eftir var einsog ég hefði alltaf verið þarna. Ég hef að vísu ekki skápana (og fyrir vikið eru flestar bækurnar mínar ennþá heima), en í trausti þess að þau mál leysist sem allra fyrst (þ.e. á þessu ári) þá uni ég glaður við mitt. Nægilega kembdi ég hærurnar við varðhundinn (af ærnu tilefni) án þess ég fari sjálfur að pakka niður möppum fyrri borðbúa. Það væri hybris, enda er ég að vísu umkringdur kollegum hennar á alla kanta. Það ætti þó varla að verða alvarlegri sitúasjón en svo að staka bitsjslapp gangi á milli borða.