Það var svosem auðvitað að undir eins og ég snerti kaffivélina í Gimli þá hrykki helvítis draslið i sundur með öllu tilheyrandi og kaffikorg flæðandi út um öll op á vélinni. Þannig hefnist manni fyrir að mæta til vinnu á sunnudegi þegar Háma er lokuð, en þannig bar þetta til að ég vildi fylla á vatnstankinn en fann hann ekki, svo ég náttúrlega opnaði eina hólfið sem ég fann hvaðan í kjölfarið flóðu út ósköpin Pandóru; og þá var allt of seint, mér var fyrirmunað að loka vélinni aftur svo ég flýði vettvang í hryllingi. Mér er það enn hulið hvar á eiginlega að bæta á vatni en það kemur ekki að sök því ég mun aldrei koma nálægt þessu skrapatóli framar! Héðan í frá verð ég með bauk af neskaffi á borðinu fyrir neyðartilfelli á sunnudögum og ekki orð um það meir.
Játningar á sunnudegi. Það er einhver fegurð í því.