Brjóskrof

Ég hef ekki lent í neinu sérstöku áfalli. Þess vegna líður mér dálítið kjánalega þegar ég segi þetta. Engu að síður: það er fyrst þegar eitthvað kemur upp á að maður áttar sig á því hversu viðkvæmur maður er, hversu lítið þarf til. Ég er lítillega skaðaður í mjóbaki, ég veit ekki hvernig það gerðist, en þetta heitir brjóskrof eða brjósklos, það er ekki alveg á hreinu hversu langt það er gengið eða hvers vegna.

Ég hef takmarkaða hreyfigetu sökum þessa. Stundum gefur annar fóturinn sig undan mér, þar sem ég stend eða geng, stundum við ökkla en oftast við hné. Í dag við mjöðm í ein tvö skipti. Þetta ætlar að stefna í hægri hliðina. Það er sársaukafullt að liggja. Þá finn ég ekki fyrir fótunum. Verst er samt að sitja, það leiðir upp í herðar, axlir og handleggi, stundum höfuð. Í náminu stend ég á herðum risa en á skrifstofunni er stundum sem risarnir standi á herðum mér, svo mikið er líkamlega álagið sem þessu fylgir. Stundum er sem allt stoðkerfið sé við það að gefa sig. Öðrum stundum líður mér prýðilega, til dæmis núna.

Fyrir eitthvað um áratug datt ég í stiga og fékk höggið einmitt þarna. Kannski er það þess vegna. Hryggjarliðir geta verið heila eilífð að gliðna, og sjúkraþjálfarinn minn segist sjá bókstaflega það, gliðnun. En ég veit það ekki, ég hef oft fengið högg einhversstaðar á þetta svæði og man bara óljóst eftir þessu síðasta skipti. Kannski er ástæðan öll önnur. Öll boð frá heila til fóta fara í gegnum mænuna, og skaðinn þarf ekki að vera nema rétt þetta lítilfjörlegur til að þau boð raskist. Það þarf ekki nema þetta, en þá sér maður líka hversu berskjaldaður maður er.

Það vissi ég svosem alltaf. Maður leiðir bara ekki hugann sérlega mikið að því sem tilheyrir ekki reynsluheiminum, af því maður skilur það ekki í raun fyrr en maður reynir það á eigin skinni. Það lagar þetta enginn nema ég sjálfur og nú þegar ég hef upplifað þetta er ég staðráðinn í að sigrast á þessu fljótt og örugglega. Næstu skref eru að læra betur inn á líkamann og hvernig hann virkar; ég lærði til dæmis í fyrsta sinn fyrir nokkrum dögum hvernig ég get slakað á herðunum. Það tók ekki nema 28 ár að fatta. Svo þetta er allt á réttri leið. Ég er brattur í öllu falli og tek þessu bara sem hverju öðru verkefni.

2 thoughts on “Brjóskrof”

  1. Hmm, ætli ég sé með brjóskrof? Ég missi stundum máttinn í hné eða ökla. Finn samt ekki fyrir þessum gríðarlegu verkjum sem þú lýsir í baki og herðum.
    En þarftu ekki að fá þér púlt Kiljan style til að sinna vinnu og rannsóknum?

  2. Sjúkraþjálfinn myndi ábyggilega mæla með svoleiðis púlti. En mér finnst ég þurfa að ná rödd Kiljans fyrst og andaktugum gáfumannasvipnum.
    Ef þetta er þrálátt vandamál þá sakar ekki að láta kíkja á það hjá heimilislækni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *