Samabók ÍE

Íslendingabók Kára hefur ekki efni á því að vera kresin á heimildir þegar kemur að allra elstu ættartengslum á Íslandi. Á bláþræði framætta strandar allt að lokum á einni heimild og þess vegna eru fornaldarsögur Norðurlanda til dæmis á meðal heimilda Íslendingabókar. Þar af leiðandi leyfir ættfræðin mér sitthvað sem sagnfræðin gerir ekki: til dæmis að kalla mig afkomanda Ketils hængs og Hrafnistumanna.

Ketill hængur var sonur Hallbjarnar hálftrölls, sem var mjög í nöp við tröll en átti þó eintóm tröll að vinum, enda var hann sjálfur af tröllum kominn. Hugmynd Hermanns Pálssonar um samskipti Hrafnistumanna og trölla (hinir fyrrnefndu eru fæddir tröllabanar) er sú að hér sé um að ræða samskipti Norrænna manna við Sama; hugtakið tröll nái nefnilega yfir galdramenn, jötna og Finna – það er að segja Sama – allt í einu. Sem er að mörgu leyti skynsamleg ályktun. Hún leiðir engu að síður að því, með hjálp ættfræðinnar, að ég sé af samískum ættum (sem af jojki má heyra). Það er kannski ágætt dæmi um hversu hættulegt það getur verið að taka svona hluti of bókstaflega.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *