Ég veit ekki hvort ég hef bloggað um þetta áður, en það rifjaðist upp fyrir mér við að máta jakka í gær þegar ég fór í Herra Hafnarfjörð, í fyrsta og eina skiptið. Ég rétt leit inn í búðina og rak samstundis augun í köflótt jakkaföt sem mig langaði í, heldur lítið falleg eftir á að hyggja, en ég hafði þau samt með mér af slánni og inn í mátunarklefa á innan við mínútu.
Þegar ég kom fram aftur, íklæddur fötunum, þá voru öll ljós í versluninni deyfð. Einhver rétti mér rauðvínsglas og þá tók ég eftir því að allir í búðinni voru ýmist með vínglös eða opnar flöskur af corona, og Einar Ágúst stóð í miðju rýminu flissandi eitthvað á meðan hann festi kapó á gítarinn. Áður en ég vissi af hafði jarmagutlarinn spurt hvern mann í herberginu hvort hann væri þá farinn, og í fagnaðarópunum sem fylgdu spurði náunginn sem hafði rétt mér vínglasið hvernig ég þekkti Magga. Þá kom auðvitað upp úr kafinu að ég þekkti engan Magga. Búðin var lokuð og einhver starfskrafturinn, vinur Einars Ágústs, átti afmæli.
Ég hefði getað gengið út í fötunum, en samviskan leyfði mér ekki annað en að spyrja hvort ég gæti samt keypt þau þótt búðin væri lokuð. Það mátti ég sannarlega og fékk þennan líka ágæta afmælisafslátt. Og eftir að vinur Magga hafði klippt af mér miðana fór ég í fötunum, fannst einhver stemning í því. Þegar ég var kominn heim mundi ég eftir þessu sem ég ætlaði að spyrja um í versluninni; nefnilega hvernig stæði á því að ég gæti ekki hneppt jakkanum svo vel væri en buxurnar væru samt nægilega víðar til að rúma bæjarstjórabumbu. En þetta hafði gleymst og búið að greiða fötin.
Ég get þannig lagað notað buxurnar ef ég herði beltið upp að sársaukamörkum og fel fellingarnar undir jakkalafinu. Það er bara ekki sérlega smart, og það er auk þess óþægilegt. Jakkinn er líka úr ódýru efni sem hefur krumpast svo varla verði slétt úr, auk þess get ég ekki hneppt honum. Svo eru fötin bara ekkert falleg hef ég komist að. Heldur léleg kaup það.
En það er nú eitthvað annað með þennan jakka sem ég keypti í gær handa sjálfum mér í jólagjöf frá henni ömmu minni. Það er sko jakki sem endast mun valdatíð sólkonungs Íslands herra Ólafs. Og A Christmas Card From a Hooker in Minneapolis kórónaði svo jólastemninguna í hátalarakerfi Kringlunnar. Mikið vona ég að textinn hafi síast inn í hauskúpur hins hamstola, kaupóða skríls sem tróðst þarna um rýmið einsog nautgripir. Ég yfirgaf Kauphöllina með ljúfa jólaglöggsangan fyrir vitunum, sjálfsagt ímyndaða. Blessuð jólin á sínum stað. Og ástin í loftinu.