Nýársraus

Ég hef aldrei verið mikið fyrir áramótaheit en nú hef ég fundið svo mikið í lífi mínu sem orðið gæti betra að það má kannski taka saman lista.

Meðal fjölmargra áramótaheita minna er að hætta að lesa íslenska fréttamiðla aðra en heimasíðu Ríkisútvarpsins, af því að þeir eru fyrirlitlegt drasl, bæði hvað varðar efnisval og framsetningu.

Óskylt áramótaheit er að liggja minna á skoðunum mínum og losa mig við lamandi átakafælni sem hefur hrjáð mig í rúmt ár. Þrátt fyrir það ætla ég líka að reyna að vera umburðarlyndari (þó ekki í garð hálfvita) og það er líklega snúnasta markmiðið.

Ég gæti ekki horft minna á sjónvarp en ég geri núna svo það getur ekki orðið að heiti, en kannski ég reyni að hlusta meira á útvarp (orðið útvarp í mínum huga merkir Rás1).

Sjálfgefna heitið sem nær því ekki einu sinni að vera markmið er að halda áfram að vera hættur að reykja. Eftir tvær vikur verður hálft ár liðið síðan ég reykti síðast og ég man ekki alveg hvernig það var. Mér finnst ennþá ofboðslega sjarmerandi hugmynd að reykja en ég gleymi því æ oftar og lengur í senn að mig langar alltaf dálítið í sígarettu, svo sú fíkn er að mestu horfin. Líklega með betri ákvörðunum síðasta árs, sem annars þaut hjá í móðu.

Á árinu 2012 ferðaðist ég minna en árið 2011 en þó ferðaðist ég heila gommu. Ég fór til Parísar með Eyju minni, en mig hafði alltaf dreymt um að fara þangað voða ástfanginn, leiðast um gömlu strætin og kyssast undir Eiffelturninum. Champs-Élysées voru vonbrigði sem ég mun seint jafna mig á, eftir allt sem ég hafði heyrt um þá eina frægustu breiðgötu heims. Ég ferðaðist tvisvar til Danmerkur og hitti í bæði skiptin góða vini bæði í Kaupmannahöfn og í Árósum, sem ég sakna ennþá ofboðslega mikið þótt mér finnist líka dálítið erfitt að koma þangað. Ég veit ekki hvaðan sú viðkvæmni kemur. Til Þýskalands fór ég tvisvar, annarsvegar í rútuferð frá Árósum að skoða Heiðabæ og Slésvík og nærliggjandi fornleifauppgröft, hinsvegar til Berlínar frá Kaupmannahöfn að heimsækja Kára Pál.

Um sumarið endurnýjaði ég kynnin við Borgarbókasafn Reykjavíkur, en til þess að geta flust til Árósa þurfti ég fyrst að hætta vinnunni þar og það var talsvert erfitt. Það var því gott að koma aftur „heim“ þótt ekki væri nema í tvo mánuði. Ég lauk meistaraprófi frá Árósaháskóla og hlaut þann fallega titil cand. mag. (sem mér finnst vera margfalt flottari en M.A.). Svo flutti ég minn fyrsta alvöru ráðstefnufyrirlestur við sama skóla og hóf doktorsnám í Háskóla Íslands, sem hefur verið ofboðslega skemmtilegt.

Að undanskildum forsetakosningunum komst held ég alveg hjá því að fylgjast með stjórnmálum á árinu sem leið og ég ætla að halda uppteknum hætti á þessu ári og gera mitt allra besta til að hunsa kosningabaráttuna í vor. Þar mun ekkert koma fram sem orðið gæti mér til upplýsingar um nokkurt einasta mál.

Þetta eru í grófum dráttum stefnumiðin fyrir nýja árið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *