Vampírur og skrímsli

Bloggið er hinn nýi tjáskiptamiðill er hinn gamli tjáskiptamiðill. Einu sinni þótti bloggið sjálfhverft. Það var löngu fyrir daga Facebook.

Ég held ég taki Ingólf mér til fyrirmyndar og bloggi hugleiðingar mínar um ýmis viðfangsefni mín. Eða – ég hef lengi ætlað mér að gera það, og var byrjaður að ætla að gera það enn einu sinni í kvöld, þegar ég rambaði á bloggið hans Ingólfs. Og nú er ég búinn að tengja á bloggið hans. Þetta er einsog í gamla daga.

Fyrsta myndin sem ég horfði á í heilu lagi á nýju ári (á nýársnótt raunar eftir að konan mín var sofnuð) var upprifjun, Shadow of the Vampire, sem ég hafði ekki séð í rúman áratug, síðan áður en ég byrjaði að blogga. Hún fjallar um hliðstæðan veruleika þar sem vampíran í Nosferatu Murnaus var í raun og veru vampíra sem þurfti að múta með blóði svo að hægt væri að leikstýra henni. Engin sérstök hugmynd svosem en myndin er góð.

Ég er að lesa um vampírur, bók eftir Tony Thorne, Children of the night: of vampires and vampirism. Ég keypti hana fyrir nær nákvæmlega tólf árum en hef ekki lesið fyrr en nú. Helsti ljóðurinn á þeirri bók er skipulagsleysið, hún er of mikið popp fyrir strúktúr. Annar galli er að hún er ekki nógu fræðilega unnin; fyrir vikið get ég ekki treyst einni einustu heimild nema ég lesi hana sjálfur. Synd hversu margar þeirra eru á slavneskum málum. Þriðji hnökrinn er að höfundur fer út fyrir sérsvið sitt sem eru málvísindi og því er hann ef til vill ekki eins trúverðugur og ella. Þrátt fyrir þessa ljóði á bókinni getur gagnrýninn lesandi grætt mikið á því að lesa hana. Svo kostar hún sama og ekkert á Amazon núorðið.

Af öðrum bókum þá bíð ég nú eftir On monsters: an unnatural history of our worst fears eftir Stephen Asma. Sæborgin hennar Úlfhildar Dagsdóttur mun vera svipað uppbyggð og fjallar um skylt efni og sömuleiðis langar mig að lesa þessa hér eftir David Gilmore (ekki þennan úr Pink Floyd). Á aðventunni sogaðist ég ofan í Dumasarfélagið hans Pérez-Reverte og ætlaði í kjölfarið að slátra Nafni rósarinnar yfir jólin en hef svo ekki nennt að takast á við hana, frestaði henni fyrir vampírur. Sennilega les ég Drakúla í kjölfarið sem ég hef einhverra hluta vegna alltaf litið á sem litlu systur Frankensteins, sem er vel að merkja æðisleg bók. Þá hef ég í hyggju að rifja upp Poe og Lovecraft og, ef ég endist, lesa Paradísarmissi í fyrsta skipti í heild sinni (ég var ekkert sérlega impóneraður þegar ég reyndi stuttlega við hana fyrir nokkrum árum).

Sumar nefndra bóka hafa að gera með doktorsverkefnið mitt, aðrar ekki, eða að minnsta kosti ekki beint, en það eina sem ég endist til að lesa utan skyldunnar þessi misserin er alltaf að einhverju leyti tengt efninu. Ég hef því látið bókaflóðið eiga sig þetta árið og þess í stað lesið um ferðalag heilags Brendans og ævisögu Árna Magnússonar (aftur). Í annarri þeirra eru skrímsli en í hinni brenna handrit. Ég veit ekki hvort er hryllilegra.

Og hverju skilar þessi lestur? Tja, eitthvað er farið að fæðast í höfðinu á mér, og ekki bara eitthvað um ófrýnileg vængjuð dýr, þótt þau eigi stóra hlutdeild í hugsunum mínum. Af öllum klassískum spurningum sem ég fæ um námið („hvað geturðu þá unnið við?“) hefur enginn nokkru sinni spurt mig hvort maður verði ekki skrýtinn af að pæla svona mikið í ófreskjum. Ég þori ekki að fullyrða neitt ennþá. En ég fer að klára vampírustúdíuna bráðum og þá kannski verður skrímslakompendíið komið í póstinum. Þá verður nú gaman að vera til.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *