Ég er afskaplega heppinn maður. Það er ekkert svo langt síðan ég hætti að gera kröfur um að fá mikið í lífinu og fór að gera meiri kröfur til sjálfs mín í staðinn (segi ég og hljóma einsog pseudóintellektúalinn Paulo Coelho), en síðan þá hef ég fengið meira en mér finnst ég í raun hafa átt tilkall til.
Ég á konu sem elskar mig og stjúpdætur sem tóku mér vel frá upphafi. Mér hafa hlotnast meiri tækifæri til menntunar en ýmsum vinum mínum (sem ekki njóta þeirra forréttinda að geta kvartað undan LÍN), og ég hef fengið að stunda nákvæmlega það nám sem ég vildi. Ég var reiðubúinn að stunda það hvar sem er í raun en örlögin höguðu því þannig (ekki í alvörunni, þetta er orðatiltæki) að ég fann ástina og námið í sama landi. Og ég er svo heppinn að hún bæði skilur áráttuna þar sem hún hefur sjálf lokið doktorsnámi (og doktorsnám er, eftir því sem ég kemst næst, áralöng æfing í áráttuhegðun) og hefur þolinmæði gagnvart henni.
Allt nám mitt til þessa hef ég stundað með það að markmiði að gera það sem ég geri núna. Það hefur verið draumur minn síðan í menntaskóla, lítilfjörlegur sem hann annars er. Ég er líka svo heppinn að ég hef aðstöðu til þess starfa hjá Hugvísindastofnun, mér að kostnaðarlausu. Þar get ég setið umkringdur bókunum mínum við rannsóknir allan liðlangan daginn. Ég hef ekki fleiri lífsmarkmið en ást og visku og á hverjum degi reyni ég að rækta hvorttveggja (kannski ég prófi að skrifa bók í nafni Coelhos og sjái hvernig hún selst).
On monsters: an unnatural history of our worst fears eftir Asma beið mín á pósthúsinu í gær og ég er búinn að lesa rúman þriðjung af henni. Þrjár aðrar eru enn á leiðinni: Monsters: evil beings, mythical beasts, and all manner of imaginary terrors eftir Gilmore, Monsters, marvels and miracles: imaginary journeys and landscapes in the middle ages, og bók næstum því sama titils, Marvels, monsters, and miracles: studies in the medieval and early modern imaginations. Það er víst nóg annað að lesa meðan ég bíð eftir þessu. Ég hlýt að teljast lánsamur að hafa tímann til að lesa þetta.