Hið daglega registur

Mér hefur fundist ég hafa ná að gera heilan helling síðan ég kom úr jólafríi (hvenær sem það annars var, varla meira en vika síðan). Ég hef sent umsókn um þátttöku í málstofu í Oxford í júlí, þar sem ég verð hvort eð er á ráðstefnu í Leeds um sama leyti. Þar verð ég með erindi sem annað hvort verður afskaplega vinsælt eða ofboðslega óvinsælt. Það getur alltaf brugðið til beggja vona um slíkt. Ég verð einnig með fyrirlestur á Hugvísindaþingi í mars (það kom í ljós fyrir um tveim dögum) svo þá hef ég að einhverju að stefna. Grein í bígerð um sama efni sem er hálfskrifuð. Áhugaverðara efni fyrirfinnst víst ekki, jafnvel þótt víða væri leitað.

Ég hef líka sent styrkumsókn til tveggja rannsóknasjóða og bráðum fer ég að vinna í annarri umsókn í þriðja sjóðinn. Ég hef að mestu leyti undirbúið kennslu fyrir janúar, í námskeiði sem ég er aðstoðarkennari í. Á aðeins eftir að fá athugasemdir frá aðalkennaranum. Ég hef fundað. Ég hef lesið greinar. Ég hef lesið í (góðum, til allrar hamingju) bókum. En mest er um vert að ég hef svarað tölvubréfum jafnharðan og mér hafa borist þau. Það er nú aldeilis meira en hægt er að segja um suma. Eitt minna mörgu áramótaheita er svo að svara einum aumingjans manni sem ég hef vanrækt, en sá sendi mér tölvuskeyti í september.

Svo hef ég unnið í nokkrum bókum. Það er mesta furða að maður verði ekki geðveikur á svona verkefnaflakki, en þvert á móti þá virðist það gefa orku. Eitt verkefni sligar, þrjú styrkja, fimm er kannski pushing it, sem sagt er.

Auðvitað hef ég ekki gert allt þetta á einni viku. Ég hef unnið í þessu flestu í langan tíma. En þegar hlutirnir hlaðast upp svona þá finnst manni sem maður hafi gert heilu ósköpin. Og já, svo ég svari einu af mínum fjölmörgu aðdáendabréfum: ég hef hugleitt að endurnefna bloggið Innsýn í Fílabeinsturninn, en agentinn minn telur að það væri ef til vill óheppilegt í markaðslegu tilliti og ég hlýt væntanlega að kyssa vöndinn rétt einsog aðrir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *