The Middle Ages' Greatest Hits

Það var ánægjulegt að fá póst frá Amazon með uppástungum um ‘best selling medieval history’. Sér í lagi þegar engin bók í mínu fagi selst nema það standi VIKING eitthvað með hástöfum á kápunni. Sem er aftur á móti ergilegt þar sem allt víkingatal er beinlínis villandi. Boethius var á listanum. Boethius bestseller stuðlar fallega.

Reykingafólkið með rjúkandi kaffibollana sína utan við Árnagarð færir mér nostalgíu. Hálft ár síðan ég hætti að reykja á morgun.

Því meira sem ég les af Samakenningu Hermanns Pálssonar því sannfærðari verð ég. Ekki vegna þess að Hermann færi svo sterk rök fyrir máli sínu, þau færir hann sárafá þegar upp er staðið, heldur vegna þess hversu sjúklega mörg dæmi hann telur upp sem ljóslega eru hafin upp yfir handahóf (það eru raunar ekki nándar nærri öll dæmin hans, en góðu dæmin tala sínu máli aftur á móti). Ég er spenntur fyrir möguleikunum. Fræði eiga enda að vera spennandi; ólýsanlega óskiljanleg er mér sú hugmynd að fræði séu þurrt og leiðinlegt staðreyndastagl. Jafnvel leiðinlegustu fræði eru áhugaverð í sjálfum sér. Nema kannski viðskiptafræði.

2 thoughts on “The Middle Ages' Greatest Hits”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *