Að lýsa tilfinningu

Sumir dagar renna næsta sjálfkrafa saman við aðra, og það getur gerst jafnvel þótt róttækar breytingar eigi sér stað á milli þeirra. Það virkar einsog þversögn, segjum að ef áfall hendir, að upplifa daginn eftir það alveg einsog daginn á undan, og jafnvel vikurnar á eftir.

En kannski renna dagar saman einmitt helst við mjög afdrifarík tímamót. Þeir verða þá að eins konar úrvinnsluferli sem maður gengst á vald, og þótt það skili manni ef til vill mjög breyttum aftur þá verður maður ekki endilega var við að neitt ferli hafi átt sér stað. Það er einsog hugurinn dragi úr högginu með því að teygja á tímanum nógu lengi fyrir hann að vinna úr upplýsingunum, og þegar hann sleppir takinu hefur langur tími liðið án þess að maður endilega átti sig á því; maður hefur ferðast frá A til B án ferðalagsins á milli. Quantumtilfinningar.

Orð verða eitthvað svo forgengileg þegar maður reynir að lýsa tilfinningum, en kannski skilur einhver hvað ég á við. Mér varð hugsað til þessa gegnum merkilegan miðil sem verður til þegar manneskja manni ókunnug deyr, í þessu tilviki Þorvaldur Þorsteinsson. Ég hlustaði í gær á fyrirlestur sem hann hélt hjá BÍL fyrir aðeins tæpum þrem vikum að ég held, og þar orðar hann svo skemmtilega fræðavæðingu listanna, hann talar um að „fjölga inniskónum“. Og þar sem ég hlustaði af YouTube, á inniskónum við skrifborðið mitt í Háskólanum, rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fyrst öðlaðist þann metnað að verða fræðimaður og starfa við Háskólann (ég hafði raunar einnig þann metnað að verða fremstur íslenskra rithöfunda en samt aldrei akkúrat á sama tíma).

Á einhverjum svona ógeðisdegi einsog í dag, þegar ég var í menntaskóla, sat ég og skrifaði fyrstu málfræðiritgerðina mína, sem mér þykir raunar enn merkilega góð miðað við forsendur. En það sem helst háði mér þá er það sem helst háir mér enn, en það er að mér finnst ég ekki nógu duglegur við lesturinn, og allt í einu myndaðist brú milli gamla mín og nýja mín þegar ég leit út um gluggann í ógeðslegt veðrið og uppgötvaði að ég hafði á einhvern dularfullan hátt einsog ferðast í tíma frá því andartaki og komist þangað sem ég vildi.

En þetta gerðist ekki í gær þegar ég hlustaði á Þorvald, heldur í dag. Í millitíðinni gerðist nokkuð annað sem ætti að gera daginn í dag svo frábrugðinn deginum í gær að það er með ólíkindum að ég upplifi ekki skýr skil á milli þeirra. Dagarnir renna saman, ég sit hérna á inniskónum, alveg jafnmikið óklárað af verkefnum í vinnunni í dag einsog í gær, nokkuð sem ég hef oft upplifað áður en aldrei komið orðum að. Kannski kannast fleiri við þessa tilfinningu. Þótt orðin lýsi henni ekki vel þá sakaði ekki að reyna.

Eikin og eplið

Það hefur stundum orðið vart við undrun fólks yfir orðatiltækinu að sjaldan falli eplið langt frá eikinni, því auðvitað vaxi ekki epli á eikartrjám. Iðulega er bent á að í íslensku sé þetta einfaldlega látið stuðla sem títt er hér á landi, sem ekki er gert í t.d. ensku þar sem sams konar hugsunarvilla kemur þ.a.l. ekki fram: „The apple doesn’t fall far from the tree.“

En til er önnur skýring ólíkt skemmtilegri, þótt sennilega þyki mörgum sú fyrri duga. Í Völsunga sögu (kap. 3) koma fyrir ótal orð yfir eitt og sama tréð:

Svo er sagt að Völsungur konungur lét gera höll eina ágæta og með þeim hætti að ein eik mikil stóð í höllinni og limar trésins með fögrum blómum stóðu út um ræfur hallarinnar en leggurinn stóð niður í höllina og kölluðu þeir það barnstokk. […] Svo er sagt að þar voru miklir eldar gerðir eftir endilangri höllinni, en nú stendur sjá hinn mikli apaldur í miðri höllinni sem fyrr var nefndur.

Apaldur er forníslenskt orð yfir eplatré, getur raunar staðið fyrir hvers konar tré sem ber ávöxt, enda þætti það nú sennilega konunglegri eign að hafa í höllinni en eitthvert eikartré. Hvað segir þá orðabók Fritzners um það að sama tré skyldi vera kallað eik?

Ordet [eik] synes […] at være brugt om større Træer i Almindelighed […] Især har det dog været brugt om frugt- bærende Træer (se under apaldr 2, aldin, epli, jvf gsv. bærandz træ se Gloss. til Schlyters Udg. af Östgöta- lagen og M. Erikssons Landslag), idet eik og apaldr uden Forskjel betegnede ethvert Træ der har epli eller aldin Flat. I, 10210; Herv. 3307; ligesom apaldr og eik Völs. 877.

Og þar höfum við það. Hefðin fyrir því að rugla saman eikartrjám og eplatrjám er að minnsta kosti jafngömul Völsunga sögu, áreiðanlega talsvert eldri. Ef einhver leiðréttir ykkur um eikina og eplið þá getið þið bent viðkomandi á þetta.