Markaðsbúskapur rannsakandans

Gamall maður kemur með hundi sínum innanúr hrauni og geingur í veg fyrir lestamenn:
Og hverjir eru mennirnir?
Hinn feiti svarar: Ég er hans majestets bífalíngsmaður og prófoss.
Óekkí, muldraði gamli maðurinn hás einsog rödd úr fjarska. Skaparinn er nú samt sá sem ræður. – HKL

Ég er svona náungi sem vakir á næturnar með samviskubit og les kennslubækur í fornum germönskum málum. Samviskubitið er vegna þess að mér finnst ég vera svo illa lesinn og að ég viti ekki neitt. Það hefur samt enginn lagt upp með að ég læri gotnesku eða fornensku nema ég sjálfur. Og það eina sem ég les eru miðaldafræði. Mér finnst ég bara ekki lesa nóg af þeim. Tilraunir til að lesa annað fara fljótt út um þúfu; ég byrjaði til dæmis að endurlesa Íslandsklukkuna í gær en háðið var í of grófum kontrast við hitt lesefnið til að skorpnaða fræðisálin gæti meðtekið. Það var einsog að horfa með öðru auganu á Klovn í miðju atvinnuviðtali.

Merkilegt nokk er ég ekki einn um þetta. Til er heil gomma af síðum fyrir framhaldsnema að leita sér huggunar í. Vinsæl myndasaga er PhD Comics sem fjalla allar um tímadráp og tilgangsleysi framhaldsnáms. PhD Stress er gifsíða um hugvísindi og streitu (ég skil fæsta brandarana þar). Og svo rakst ég í kvöld á giffærslu á Buzzfeed sem heitir What grad-school is really like þar sem ýmislegt er sem ég kannast við.

Margar fleiri svona síður eru til um víðan vefinn en maður rekst líka á þetta á skrifstofunni í Gimli. Margir þar eru með hvatningsorð uppi á borðum. Einn kollegi er með fræga enska skiltið „Keep calm and keep going“ hangandi uppi. Annar er með æðruleysisbæn. Það eru beisiklí allir að fara úr hárunum af stressi yfir að vera ömurlegir, óþarfir og illa lesnir. Framtíð ekki aðeins íslensks fræðasamfélags, heldur fræðasamfélags alls heimsins. Það er dálítið merkileg tilhugsun.

Hvers vegna líður doktorsnemum svona? Kannski eru þeir margir illa lesnir, en sennilega hafa þeir bara ekki lært það enn að það er ekki hægt að gera hlutina svona nákvæmlega, að það er ekki nægur tími til í heiminum til að gera eina rannsókn nægilega ítarlega úr garði til að það borgi sig; tíminn vegur á endanum á móti gæðunum. Þannig að um þetta er farið einsog öðru í þessum heimi að þegar öllu er á botninn hvolft snýst það gæðastjórnun og arðsemissjónarmið. Ég er ekki viss um að ég sé sáttur við þá niðurstöðu en þetta er nú einu sinni bara blogg.