Í frystinum

Ef einhverjir nemenda minna álpast inn á þetta blogg skulu þeir vita að ég gekk í bandvitlausu veðrinu úr austanverðum Hlíðum út á Árnastofnun til að verða mér úti um greinarnar sem verða til umræðu á morgun. Eða hefði gert það ef konan mín hefði ekki bent mér á að við eigum bíl. En ég lenti í ævintýri við að setja á hann bensín þar sem kortaraufin á dælunni var frosin. Heldur betur. Já, það eru engar smá fórnir sem ég færi fyrir nemendur mína.

Háskólatorg var einsog kjötkælir og þeir fáu nemendur sem sáust þar héngu stífir einsog dilkar. Stúlkan í Hámu sat á lopapeysu (eða í henni, ef þið skiljið ekki forsetninguna) og hafði þykka húfu á höfðinu en nötraði samt. Það verður ekki hæðst nógu mikið að þessari svokölluðu byggingu. Verktakinn hefur sjálfsagt gert samning við arkitektinn um að ljúga því að ber steypa væri í tísku, selt fokhelt hús sem fullklárað og þeir skipt afgangnum á milli sín. Svei mér ef ekki.

3 thoughts on “Í frystinum”

  1. Þetta hús er brandarari. Allt við það er slæmt. Hringstiginn versti stigi Íslandssögunnar og stólarnir í stofunum þeir óþægilegustu á háskólasvæðinu. Stofurnar sjálfar eru svo það breiðar að í þau skipti sem ég hef kennt þar labbaði ég maraþon fram og til baka til að geta heyrt spurningar nemenda og varð hás á að öskra svörin svo allir heyrðu. Það að ætla að benda á dæmi í kraftbendilssýningu krefst svo tvítekningar því tjöldin eru tvö og alls ekki sést á tjald úr hinum enda stofunnar.
    /rant

  2. Ég veit ekki hvaða risi hannaði þessa stiga en þrepin eru samt akkúrat ekki nógu breið til að maður geti tekið tvo skref á þeim. Meira að segja hljóðhönnunin er slæm þarna.

  3. Já, hljómburðurinn er ömurlegur, og þessi stigi er akkúrat, einsog þið segið, ferlegur. Auk þess hallar hann svo það er ekki hægt að hlaupa hann, nema maður sé til í að taka steypu framfyrir sig og brjóta hálsinn. Ég hef líka fengið að prófa að taka þann tröllagang þjakaður af brjósklosi og það var ekki skemmtilegt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *