Ég gleymdi því víst alveg þar til það hvarflaði óvænt að mér í dag, að í gær voru tíu ár frá því ég byrjaði að blogga. Það sem verra er: þetta er allt til ennþá, hér á þessari síðu. Hér er hægt að lesa vissa þætti ævi minnar frá því ég var rúmlega 18 ára fábjáni í MR til dagsins í dag. Fátt af því að vísu er sérlega persónulegt; ég hef alltaf gætt þess að bera ekki eymd mína á torg þó af henni væri sannarlega nóg þessi fyrstu ár sem ég bloggaði.
Þessi tíu ár mynda líka vissan ramma. Manneskjunni er eðlislægt að hugsa í tímabilum og Bloggið um veginn er, einsog það er varðveitt og eftir mínum eigin skilningi, ramminn um mikilvægasta tímabil ævi minnar. Tímabilið frá því rétt eftir að ég tók ákvörðun um hvert ég ætlaði mér í lífinu og fram að deginum í gær þegar ég var kominn á þann stað sem ég hafði ætlað mér, sat óþreyjufullur við skrifborðið mitt og barðist við grein sem vildi ekki falla saman á samskeytunum, grein sem ég skilaði loksins í dag. Á blogginu eru einnig skrásett ýmis tímabil efasemda inni á milli; ýmsir draumar sem ég ákvað að elta í stað þess gamla, draumar sem ég að lokum gaf aftur upp á bátinn í stað þess gamla.
Nær ekkert er fjallað um fjölskylduhagi, eða ástarævintýri. Það er semsagt ekkert djúsí. Bloggið er sjálfhverft. Það er sjálfsmynd garðyrkjumanns, menntskælings, IKEAstarfsmanns, ungskálds, háskólanema, bókavarðar, fræðimanns – sem á tilgerðarlegan hátt hefur stundum breytt stafsetningu sinni, og bloggað um það! Eitt sinn breytti ég tímafærslunum í árið eftir fæðingu Þórbergs að gamni mínu, sem olli mér miklum höfuðverk þegar ég svo skipti um vefumsjónarkefi. Síðustu misseri hefur bloggið endrum og sinnum verið farvegur til tjáningar á sjálfsmynd stjúpföður. Afar lítið þó. En það helgast fyrst og fremst af því að síðustu misseri hefur bloggið sigið svolítið undan öðrum skyldum.
Litlu ævintýrin sem maður efnir til eiga það stundum til að leysast upp fyrir augunum á manni. Maður gleðst yfir því sem maður hefur, berst fyrir því sem maður ekki hefur, og sættir sig við allt þar á milli. Allt þetta er varðveitt í 2918 færslum sem birtar eru á tíu árum; sumar þeirra voru teknar aftur úr birtingu og á sumum þeirra var beðist velvirðingar.
Nú þegar tíu ár eru liðin frá því ég byrjaði, og rétti tíminn kominn til að hnýta slaufuna og hætta, finnst mér það ómöguleg tilhugsun og finn mig þess heldur knúinn til að halda áfram. En kannski með eitthvað breyttu sniði. Vandinn við bloggið er að undir eins og maður hefur fundið því eitthvert tiltekið snið þá snýst það við í höndunum á manni og umbreytist jafnharðan. Það er eitt af því sem gerir bloggið að krefjandi miðli, eitt af því sem heldur því fersku, og það er ein af mörgum ástæðum fyrir því að halda því áfram.
Kannski verð ég hérna áfram eftir tíu ár til viðbótar.
Til hamingju með áfangann!