1. maí

Þegar maður hefur ekki geð í sér til að fylgja kröfugöngunni alla leið út á Ingólfstorg til að hlusta á sturlaðar ræður um kjarasamninga sem eru í engu samræmi við veruleikann, þá er orðið ljóst að annarleg öfl hafa rænt þessum degi. Mín græna ganga, sem var ásökuð um að ræna þessum degi í gær af „verkalýðsfélögunum“, sveigði af leið inn á Austurvöll. Þaðan þurfti ég frá að hverfa þegar dagskráin reyndist of þjóðernisleg fyrir minn smekk. Barátta fyrir náttúru á fjandakornið ekki að vera barátta fyrir „þjóðlegum gildum“. Það á að heyja hana með rökum.

Mér fannst ég ekki almennilega staddur í veruleikanum í afbeygju göngunnar í Pósthússtræti því þaðan sást vel að yfir Ingólfstorgi hékk risastór rauður borði, ég man ekki áletrunina nákvæmlega en eftir minni var hún svona:

VELFERÐ – HAGVÖXTUR – ATVINNA

Skilaboðin frá spilltu kapítalistasamtökunum ASÍ eru semsagt þau að launafólk sé heimskur múgur sem þurfi að sefja með orwellskum frösum. Í frægri skýrslu (sem þó enginn man eftir), sem unnin var um ímynd Íslands kortér í Hrun, hljóðaði frasinn svona:

KRAFTUR – FRELSI – FRIÐUR

Þetta er ekkert annað en daður við fasisma, og þegar markaðssetningarteymi hins meinta alþýðusambands er farið að strengja svona skilaboð ásamt sovéskum hnefa sem geislar af yfir kröfugönguna á 1. maí, þá hafa annarleg öfl ekki aðeins rænt deginum heldur pakkað honum inn í plast og selt hann. Einsog Che Guevara bol. Svona fyrst það tókst ekki að færa daginn í Húsdýragarðinn einsog eitt sinn var reynt að gera. Krepptir hnefar eru líka mikið teknir eftir Hrun, sem er það andartak í Íslandssögunni – einsog hún verður umrituð – þegar fólkið taldi sig hafa eitthvert raunverulegt vald yfir ákvarðanatöku í landinu.

ÚTRÝMUM KYNBUNDNUM LAUNAMUN

Þetta stóð á öðrum borða frá ASÍ. Þetta getur alþýðusambandið látið framleiða fyrir sig svo það geti bægt frá sér hugsuninni og þurfi ekki raunverulega að gera neitt í málunum. Ef það raunverulega hefði áhuga á þessu baráttumáli þá hefði nú kannski eitthvað þokast til í þeim efnum. En þess í stað snýst 1. maí um að orga eitthvert bull um kjarasamninga yfir hausamótunum á norpandi fólki á Ingólfstorgi, það snýst um fólk á háum launum sem árlega þarf að þykjast hafa staðið í eldlínunni, lyft grettistaki í launamálum alþýðunnar. Mestur hluti dagskrárinnar fer þó í einhverja hljómsveit sem var vinsæl í fyrra svona til að undirstrika það að þetta er ekki baráttufundur og að verkalýðsfélaginu þínu er drullusama um þig. Fyrir þeim er þetta næsti frídagur við 17. júní.

Gylfi Arnbjörnsson var púaður niður úr ræðupúlti á 1. maí 2009. Ég er hissa á því að hann mæti ekki eggjum núna, fjórum árum síðar þegar enn hefur ekkert gerst og alþýðusambandið hefur engan gaum gefið þeim málefnum sem það þykist standa fyrir. Hafi þeir skömm fyrir þessir skíthælar og vogi sér ekki að ásaka aðra um að ræna af sér alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins.

VINNA ER VELFERÐ

Stóð á enn einum borðanum. Þetta er ógeðslegt.

One thought on “1. maí”

  1. Takk fyrir þennan góða pistil. Alveg sammála þér og ég held að sífellt fleiri opni augu sín fyrir því að þessi svokölluðu „hagsmunasamtök“ launþega gefa skít í hagsmuni okkar. Jú, þau fara í mál við ferðaþjónustuna sem rænir starfsfólk sitt, en það gætu sérhæfðar skrifstofur gert og ASÍ-félögin sjá um rekstur orlofssvæða og virðist það vera helsta málið. En að það réttlæti þá tíund (eða miklu meira) sem við greiðum þeim af launum okkar er af og frá. Þau eru alltaf að tala um „þjóðarsátt“ sem er ekkert annað en launalækkanir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *