Póststrúktúralíski stíllinn

Ég er að lesa Bodies that Matter eftir Judith Butler, bók sem ég hafði lesið stóra glefsu úr í grunnnámskeiði um strauma og stefnur í bókmenntafræði. Mér fannst lítið mál á sínum tíma að lesa þetta en núna hnýt ég frekar um ýmis atriði í textanum. Það er þetta einkenni póststrúktúralískrar heimspeki að nefna alltaf ákveðinn greini ákveðins greinis samhengislaust í texta.

Nokkur uppdiktuð dæmi: einstigi sjálfsverundarinnar, the feudal essence of the id, the unspeakable condition of figuration. Úps, þetta síðasta var ekki skáldað. Vandinn er að samhengislaus eru hugtökin merkingarlaus (ég hef áður fjallað um the primary sadistic eroticism of the infant), það þarf að kynna þau til sögunnar áður en þeim er varpað fram og það þarf að skilgreina hvernig þau eru notuð í því samhengi sem þau eru notuð, jafnvel þótt – þess þá heldur jafnvel – það rjúfi flæðið í textanum. Flæði er gagnslaust í óskiljanlegum texta. Og það er óþarft að flétta saman flókin hugtök til að lýsa hlutum, hvað þá einföldum hlutum.

Ólíkt ýmsum bókmenntafræðingum hef ég lesið hrafl í Derrida og þykist á engan hátt hafa skilið það allt þótt ég hafi skilið samhengið. Hann er talsvert mikið í því að segja einfalda hluti í ónauðsynlega löngu máli og óþarflega flóknum setningum og tilvísunarsetningum á ofan, sjálfur sagði hann að hann kynni einfaldlega ekki að tjá sig með öðru móti. Butler, sem ég vil taka fram að er mikill töffari, byggir töluvert á Derrida og á þetta því stundum til líka.

Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvað er grætt á því að vera óskýr í orðavali og hugtakanotkun þegar það er tiltölulega einfalt að tjá jafnvel flóknar heimspekilegar hugmyndir í stuttu máli hafi maður á annað borð skilning á þeim, sem fær mig því alltaf til að velta því fyrir mér þegar ég skil ekki texta hvort höfundur hans hafi sjálfur skilið hvað hann ætlaði sér að segja. Það má halda því fram að stíllinn sé sjálfur afbygging, eða einsog oft er sagt að markmiðið sé að hver skilji textann sínum eigin skilningi, og að essayisminn liggi í hjarta póststrúktúralismans. En það er fullkomlega galið því í fræðimennsku verður að draga mörkin við merkingarbærni, textinn þarf að vera skiljanlegur því annars er hann ónothæfur.

Þannig hef ég upplifað það litla sem ég hef lesið eftir Juliu Kristevu, sem allt í senn misskilur Bakhtín, gerir skýrar hugmyndir hans óskiljanlegar, og er ófær um að skýra eigin fræðilegu hugsun á merkingarbæru máli. Lengi vel hélt ég að þetta væri þýðingin en nú er mér sagt að Kristeva sé alveg jafn óskiljanleg á frummálinu. Ef ég skil Kristevu á annan hátt en annar bókmenntafræðingur og svo koll af kolli, þá er komið upp vandamál, þá er textinn ónothæfur. Og það er hið versta mál ef góðar hugmyndir fara forgörðum vegna þess að höfundur þeirra gat ekki gert þær skiljanlegar.

One thought on “Póststrúktúralíski stíllinn”

  1. Skemmtileg grein og hjartanlega sammála með Kristevu, lásum slatta eftir hana í Kvikmyndafræðinni. Það var nú meira torfið. Ég er þakklátur fræðifólki á borð við Þorstein Gylfason heitinn, sem leggur sig fram að skrifa á mannamáli.

Skildu eftir svar við Einar Steinn Valgarðsson Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *