Rauðar pöndur í rennibraut

Hljóðin af leikskólanum eru óviðjafnanleg þennan morguninn. Ein stúlkan hefur fundið upp víbrandi hljóð sem kalla mætti sonic burst ef finna ætti lýsandi heiti, og önnur tvö börn virðast ætla að skila raddböndunum aftur út í náttúruna þar sem þau munu samlagast íslenskum jarðlögum um aldur og ævi. Öll eru hljóðin þó með krúttröddum barna sem hefur svipuð áhrif á mig og að sjá myndband af rauðum pöndum að leika í rennibraut. Svo þetta er gott.

Ég er ennþá sigri hrósandi síðan í gær eftir að ég fékk góða dóma fyrir verk mín og álpaðist í kjölfarið til að lesa téð verk í fyrsta skipti síðan í apríl. Er eðlilegt að þykja ótrúlegt að maður hafi skrifað eitthvað? Ég er ekki að tala um síhangandi Damóklesarsverð impostorsyndrómsins, heldur að ég meðtek svo mikið af upplýsingum dag hvern að ég gleymi stórum hlutum úr eigin rannsóknum. Sennilega er allt þetta ferli þjálfun í að hugsa stórt. Ég er enn bara að læra. Eins gott líka að ég haldi áfram að læra. Ég er megamaskína núna samanborið við sjálfan mig fyrir ári. Þá þóttist ég vita allt og þykist þó vita helmingi minna núna.

Ætti ég endalausa peninga myndi ég kaupa mér fleiri Loebklassíkera (ég á þrjár bækur af 520). Mest langar mig í Evsebíus, Beda og Ágústínus og bíð í ofvæni eftir að fleiri komi út eftir Heródótos. Ætti ég endalausa peninga myndi ég raunar kaupa mér allt settið. Og hús í Kaliforníu. En í augnablikinu myndi ég alveg sætta mig við að eignast restina af Plíníusi og þá hina fyrrnefndu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *