Æskuminningar – tvær huggunarsögur og hálf

Þegar ég var á fjórða ári og pabbi sótti mig til ömmu á maríunni í aftakaveðri. Félagar hans í löggunni skiluðu okkur út sennilega á horninu á Skeiðarvogi og Gnoðarvogi, þar sem við bjuggum, en þaðan er smáspotti að dyrunum. Ég átti bágt með veðrið og veðurofsinn hafði fljótt af mér paprikuskrúfupokann minn (af tegund sem ekki fæst lengur). Ég sá skrúfurnar fjúka út um allt og hafði ekki orðið vitni að öðru eins óréttlæti. Pabbi plantaði mér volandi í stofusófann, breiddi sæng yfir mig, setti spædermanspólu í vídjótækið og lofaði hátíðlega að hann myndi sko kaupa miklu stærri skrúfupoka handa mér. „Og köku?“ spurði ég. Já, og köku. Þetta efndi hann, að kökunni undanskilinni. Ég þurfti heldur enga köku.

Þegar ég stóð 4-5 ára í marki á leiktúninu í Piacenza meðan bróðir minn og pabbi skoruðu hvert markið á fætur öðru. Ég var gríðarlega óhress með þetta, svo pabbi lét einn vaða beint á mig svo ég gæti nú örugglega varið eitthvað. Það tókst, en ekki betur en svo að ég tókst á loft með boltanum og hafnaði inni í markinu, háorgandi. „Sjáðu, þú vannst okkur,“ sagði pabbi í huggunartón. „Þú varðir boltann.“ Hann hélt á mér heim.

Hversu hræddur ég var við slönguna í baðkerinu. Slangan var hvirfillinn sem myndast þegar tappinn er tekinn úr baðkeri. Einhvern tíma æddi ég upp úr baðkeri í tryllingslegum ótta þegar tappinn var fyrirvaralaust tekinn upp úr því. Ég fyrirskipaði að þetta mætti ekki, ég ætti að vera kominn upp úr fyrst. Þá leit ég í kerið og sá þar sem slangan byrjaði að liðast upp úr niðurfallinu og vagga höfðinu við yfirborðið, áreiðanlega vonsvikin að hafa enn eina ferðina misst af mér. Aldrei reyndi neinn að skýra fyrirbærið fyrir mér, ég hef sennilega ekki orðað óttann nógu skýrt. Ég man ekki hversu gamall ég var þegar ég hætti að óttast slönguna, en ég man síðast eftir að hafa velt henni fyrir mér fimm ára.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *