Ég byrjaði að blogga árið 2003 í þá daga þegar Bloggari dauðans var og hét, Beta rokk gaf út „bloggbók“ og Stefán Pálsson var „frægasti og besti bloggari Íslands“. Bloggið var fyrirlitinn miðill fyrst um sinn, ekkert nema sjálfhverf fífl að fjalla um eigin tær og sveppinn í baðkerinu heima. Svo ég hálfskammaðist mín fyrir að byrja á þessu líka.
Bloggið hefur breyst síðan; ekki miðillinn, heldur innihaldið. Maðurinn sem áður stærði sig af því að hafa „skrifað á netið síðan löngu áður en bloggið var fundið upp“ og þó aldrei verið bloggari, enda væri auvirðileg iðja að blogga, hann er núna frægasti (en ekki besti) bloggari Íslands.
Innihaldið hefur að því leytinu breyst að núna þurfa blogg helst að „fjalla um eitthvað“. Það dugar ekki lengur að búa í litlu múmínhúsi í vesturbænum og hjóla í vinnuna til að hægt sé að blogga um það. Blogg voru svosem alltaf pólitísk, en nú eru þau orðin vettvangur pólitískra greinaskrifa fremur en styttri athugasemda. Þar kemur tvennt til: annars vegar nýting dagblaðanna á bloggsíðum til að koma í stað hinna hefðbundnu viðhorfspistla, hins vegar Facebook sem orðinn er aðalvettvangur þessara styttri athugana. Ef ég fyrir tíu árum bloggaði um að George Bush væri stríðsglæpamaður þá gátu umræðurnar tekið marga daga og innleggin skipt tugum. Núna skrifar maður bara status og flestir læka til að „kvitta fyrir lesturinn“ (frasi af Moggablogginu gamla) frekar en að tjá sig.
Blogg verða auðvitað miklu minna spontant ef maður á allt í einu að byggja þau upp einsog fimm paragrafa esseiur. Þess vegna hefur gengið illa að halda Blogginu um veginn við. Stundum langar mig kannski að varpa einhverju fram í hálfkæringi um það sem ég vinn við, rannsóknir á miðaldatextum. En þegar til kemur þá ræð ég ekki við það. Hálfkæringurinn og nákvæmnisáráttan eiga í stöðugum erjum og á meðan er ekkert bloggað nema kannski um hversu erfitt er að blogga á Facebooköld. Einsog þessi færsla er.
Nú er að sjá hvað gerist með nýju upphafi. Ég byrjaði að blogga hjá Blogger og flutti mig svo yfir til Kaninkunnar 2005. Um líkt leyti flutti Óli Gneisti sig þaðan og stofnaði Truflun. Kaninkunni var einhverju sinni þannig lýst á spjallþræði að hún væri „vinstri bloggorgía“. Þar bloggaði enda mikið til það sama fólk og stofnaði og skrifaði á Múrinn meðan hann var og hét. Þótt ég kæmi seint inn var ánægjulegt að tilheyra þeim góða hópi.
En nú er langt um liðið. Múrinn hætti 2006 eða 2007 og nú er Kaninka að renna sitt skeið á enda. Sjálfur er ég fluttur á Truflun, sem sjá má. Og nú er bara að sjá hvað verður úr. Kannski mér takist að yfirstíga vandvirknina og leiðindaham pólitískra dálkaskrifa til að skrifa um eitthvað annað en þetta eilífa argaþras. Til að nálgast aftur það sem bloggið var án þess samt að það fari út í heimilisstörf og tannlæknatíma. Þetta blogg er fyrir alla og engan, einsog segir í undirtitli bókar einnar sem aldrei hættir að koma mér á óvart að hafi verið skrifuð fyrir nokkurn. Sennilega munu margir undrast á líkan hátt um þau skrif sem hér verða og þegar eru: ellefu og hálft ár af engu sérstöku.
Jájá, bloggið lifir þetta feisbúkkjaftæði af. Er það ekki?
Algjörlega! Bloggið er málið. Bloggið lifir, einsog Flatus.
Mín síða er voðalega mikið dáin – ég hef gert nokkrar atlögur að því að byrja aftur en þær renna alltaf út í sandinn. :/ Sakna þess samt.
En nú er einn kannski gríðarlega mikill plús við bloggið: það fór að verða töluvert meira mál að tjá sig um málefni í bloggheimum því það var svo mikil umferð um þá, en núna getur maður nokkurn veginn um frjálst höfuð strokið og þarf lítið sem ekkert að standa í erjum við misviturt fólk.