Martraðir um hvítabirni II

Í gær bloggaði ég um hryllingssögur Jóhannesar Friðlaugssonar af hvítabjörnum sem gengu á land í Þingeyjarsýslum. Sagan sem ég nefndi sérstaklega er fundin og hún er mikið óhugnanlegri en mig minnti. Kannski engin furða þótt ég yrði hræddur við að fá svona skepnu heim til mín:

Allmörgum árum seinna fluttu þangað önnur hjón með tvo syni sína og bjuggu þar í nokkur ár, án þess að nokkuð bæri til tíðinda. Þá var það einn vetur, að harðindi gerði mikil, og kom hafís að öllu Norðurlandi. Einn morgun vöknuðu hjónin á Þeistareykjum við hávaða fram í bænum, og rétt á eftir er baðstofuhurðin brotin í spón, og stór hvítabjörn kemur inn á gólfið. Svo var rúmum háttað í baðstofunni, að þau voru aðeins tvö og bæði fyrir stafni, en annað var háarúm, og sváfu drengirnir þar, en hjónin í neðra rúminu. Þegar björninn kom inn, rís bóndinn upp úr rúmi sínu og kallar í drengina og biður þá að vera kyrra og láta ekkert á sér bæra. Ætlar bóndi svo að seilast í stóran hníf, sem var upp undir sperru í baðstofunni. En áður en hann fengi náð honum, sló dýrið hann með hramminum, og þurfti hann ekki meira. Fór konan sömu leið. Síðan lagðist dýrið á líkin og fór að éta þau. Á meðan lágu drengirnir alveg grafkyrrir og þorðu ekki að hreyfa sig af hræðslu og skelfingu við dýrið. Þegar dýrið var búið að seðja sig af líkunum, fór það fram úr baðstofunni og út. Risu þá drengirnir á fætur og fóru að ræða um, hvernig þeir ættu að frelsa sig frá birninum og helst að ráða hann af dögum – og hefna svo foreldra sinna. Var þá annar þeirra 12 vetra, en hinn 10 vetra. Komu þeir sér saman um það, að eldri drengurinn skyldi taka stóra hnífinn og fara milli þils og veggjar, því að það var manngengt á milli. En á þilinu var allbreið rifa. Gerðu þeir ráð fyrir, að dýrið mundi koma aftur til að vitja um leifarnar af líkunum, og átti þá yngri drengurinn að gera vart við sig uppi í háarúminu. En þá mundi dýrið rísa upp á afturfæturna og fara að gægjast upp í rúmið að drengnum. Ætlaði þá eldri drengurinn að reyna að koma lagi á björninn með hnífnum, í gegnum rifuna á þilinu. Fór þetta eins og drengirnir höfðu ráðgert. Eftir nokkra stund kom dýrið inn aftur og fór að gæða sér á leifunum. Reis þá yngri drengurinn upp í rúminu. Kemur dýrið auga á hann, rís upp á afturfæturna og teygir hrammana upp á rúmstokkinn. Sætir þá eldri drengurinn færi og leggur hnífnum í kvið bjarnarins og sker út úr, og verður það svöðusár. Þegar björninn fékk lagið, snýr dýrið út úr bænum án þess að skipta sér neitt af drengjunum. En drengirnir náðu bæjum í Mývatnssveit, og bærinn lagðist í auðn.

— Jóhannes Friðlaugsson, Gróin spor, bls. 210-12.

Glöggir lesendur taka eftir að þessi bútur er in medias res, en frásögnin á undan fjallar um hjón sem bjuggu áður á Þeistareykjum, en bóndinn varði sig bangsanum með grjótkasti eftir að sá síðarnefndi hafði áður étið konu hans upp til agna. Þá situr aðeins spurningin eftir: Ætli jörðin að Þeistareykjum sé enn á lausu, ef ske kynni að mann langaði til að reisa sér bústað?

3 thoughts on “Martraðir um hvítabirni II”

  1. Ég ólst upp þarna nálægt og þessi saga var alltaf sögð á mínu heimili. Þeistareykir er ótrúlegur staður. Því miður hefur Landsvirkjun eyðilagt þar mikið eins og víða annars staðar þar sem eitt sinn var fallegt.

  2. Mér þætti mjög gaman að koma þarna, er kominn með ágætislista yfir svona staði sem mig langar að heimsækja til að tengja við sögurnar. Varðstu ekki myrkfælin af svona bangsasögum?

  3. Ég var a.m.k. alltaf hrædd við ísbirni! Í Safnahúsinu á Húsavík er uppstoppaður ísbjörn, minnir að hann hafi verið felldur við Grímsey á hafísárunum um 1965. Sögurnar lifnuðu enn frekar við í þessu uppstoppaða ferlíki. Eða mér fannst hann ferlega stór þá en svo sá ég hann ekki fyrir svo löngu og þá var hann nú ekkert sérlega stæðilegur. Kannski var þetta bara unglingur, og ábyggilega skotinn glorhungraður.

Skildu eftir svar við Hilma Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *