Hugleiðingar í Kófinu

Ef einhverju sinni var ástæða til að hefja bloggið aftur til vegs og virðingar, þá er það nú á tímum heimsfaraldurs.

Ég hef verið að velta fyrir mér lestri og ritun undanfarið, ekki síst vegna þess að ég kenni hvort tveggja á Menntavísindasviði HÍ fólki sem mun sjálft þurfa að kenna börnum og ungmennum lestur og ritun. Í þessu sambandi fór ég að velta fyrir mér blogginu. Ég hef haldið úti þessu bloggi síðan í apríl 2003, svo bloggið er á átjánda ári núna.

Það er allt önnur manneskja sem stofnaði bloggið en skrifar á það núna, manneskja sem átti eftir að læra margt og öðlast umtalsvert meiri ritfærni. Hvergi öðlaðist ég eins mikla æfingu í að koma hugsunum mínum í orð og að eiga í skoðanaskiptum við aðra eins og með því að blogga. Að því leyti held ég að það hafi verið visst menningarslys þegar bloggið lagðist að mestu af. Ég held að það sé þess vert að reyna að endurvekja það.

Oft er talað um vanda íslenskunnar á stafrænum tímum, til dæmis þegar kemur að sjálfgefnu tungumáli hugbúnaðar (iðulega enska). Sjálfgefnar gæsalappir eru enskar og fólk þarf að læra sérstakar hundakúnstir til að gera þær íslensku, nema það stilli hugbúnaðinn til að breyta þeim sjálfkrafa (sem aftur veldur vandræðum ef maður ætlar svo að skrifa á ensku). Þá aukast stöðugt möguleikarnir á því að tala við tækin okkar en það þarf maður að gera á ensku enn sem komið er.

Ég hafði hins vegar ekki áttað mig fyllilega á því hvaða takmarkanir hinn stafræni heimur setur öðrum tungumálum og að þá sé ekki endilega aðalmálið hvort um er að ræða örtungur eins og íslensku eða milljarðatungu eins og kínversku – ekki fyrr en ég rakst á stutta hugleiðingu um það einhvers staðar á vefnum. Stafrænt kínverskt ritmál er nefnilega einfaldað töluvert til að það sé á annað borð hægt að skrifa það á lyklaborði og þetta veldur því vandamáli að stór hluti Kínverja er að glata getunni til að handskrifa upprunalegu táknin – læsi á hina raunverulegu kínversku er að glutrast niður á meðan sú einfaldaða er sjálfgefin í stafræna heiminum. Það er beinlínis óhugnanlegt til þess að hugsa að við séum orðin það háð tækninni að tæknin stýrir því hvernig við hugsum og tjáum okkur fremur en að hugsun okkar og tjáning stýri þróun tækninnar.

Blessunarlega búum við íslenskumælandi ekki við þetta tiltekna vandamál þótt okkar vandi sé ekki síður ærinn. En ég velti því fyrir mér hvort ekki væri ráð að finna möguleika á því að endurvekja bloggið og nýta þann miðil að einhverju marki í lestrar- og ritunarkennslu. Bloggið hefur þann kost sömuleiðis umfram hefðbundna ritvinnslu að vera margmiðla tæki sem hægt er að deila á myndböndum og hljóðskrám sömuleiðis, en fyrst og síðast er bloggið – eða var í öllu falli í eina tíð – samfélag. Miklu dýpra og betra samfélag en samfélagsmiðlarnir hafa nokkru sinni getað boðið upp á.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *