Síðastliðið misseri hef ég verið að kukla við filmuljósmyndun. Það byrjaði sakleysislega þegar ég keypti ódýra og frumstæða myndavél frá bókabúðinni á Flateyri, Kodak Ektar H35 Half-frame: nýja hönnun sem líkir nokkurn veginn alveg eftir gömlu instamaticvélunum að því undanskildu að í stað kubbs er innbyggt flass og í stað hylkis tekur vélin filmu á rúllu og skýtur á hálfan ramma í senn, svo hægt er að fá 72 myndir á 36 mynda filmu.
Engar stillingar eru á vélinni og í stað þess að sýna gegnum linsuna er aðeins plastgluggi á vélinni, eins og á einnota myndavélum. Myndirnar eru auðvitað misjafnar eftir því. Í raun er eiginlega ómögulegt að ná góðum myndum á vélina nema í dagsbirtu, þrátt fyrir flassið. En það er hluti af því sem heillaði mig við hana, þetta stjórnleysi og þessar allt að því handahófskenndu niðurstöður. Þetta er feiknarlega skemmtilegt ekki síður vegna þess að það er ekkert markmið hjá mér að taka skýrar eða flottar myndir. Mig langar til að taka myndir af andartökum og það er allt í lagi þótt þær verði skrýtnar, skældar og misheppnaðar. Eiginlega bara betra.
Þetta fikt jók áhuga minn á því að prófa mig áfram með alvöru myndavélar og svo vildi til að ég hafði aðgang að þrem gömlum vélum sem afi minn (sem einmitt var fæddur og uppalinn á Flateyri) átti. Internetið er gjöfult, því á því má finna upprunalega leiðbeiningabæklinga með öllum þessum myndavélum auk nýlegra myndbanda sem sýna helstu atriði sem kunna þarf skil á. Þannig komst ég fljótt af stað með að leika mér með gömlu vélarnar líka.
Og það verður að segjast að myndir teknar á filmu eru bara ekki eins og stafrænar myndir. Það er ekki hægt að líkja þessu saman, því alveg sama hversu fullkomin stafræna tæknin er og verður þá eru filmumyndir miklu hrárri, það eru svo margir þættir sem koma saman og ljósmyndarinn fær ekki niðurstöðuna fyrr en löngu seinna, sem verður þess valdandi að ósjálfrátt fer maður að taka myndir á allt annan hátt. Það er líka annars konar dýpt í filmum, birtan er önnur og skuggarnir sömuleiðis, og auðvitað allt háð því meðal annars hvernig filmu maður notar og hvernig maður notar hana. Það á sér einhver galdur stað þegar filma nemur ljós sem ég kann ekki að skýra. Mér nægir sú skýring að þetta gleður mig. Það er það eina sem ég sækist eftir með þessu dútli. Og nú hefur þetta áhugamál á skömmum tíma undið upp á sig. Ég hef skráð mig á námskeið í Myndlistarskóla Reykjavíkur til að (vonandi) læra skipulegar á þessa tækni. Hef að vísu ekki enn fengið staðfestingu á að pláss sé fyrir mig í bekknum, en það er vonandi.
Önnur hliðræn baktería sem náði taki á mér nýverið eru vínylplötur. Sumarið 2018 dvaldi ég í Kaupmannahöfn og meðan Gunni heitinn var á milli heimila geymdi ég fyrir hann ferðaplötuspilara og lítið plötusafn. Ég fiktaði auðvitað við þetta fyrst ég hafði það til varðveislu, hafði aldrei áður sett plötu undir nál og fannst þetta skemmtilegt. Öðruvísi stemning fólgin í þessu, meiri innlifun vil ég segja sem felst í nokkrum þáttum:
- Hin fýsíska plata, sem leggja þarf undir nálina. Hver einasta rykarða, rispa eða kám (eða skortur á þessu), breidd grófanna í sjálfri plötunni, hefur áhrif á hvernig platan spilast. Ef til vill mætti halda því fram að í hvert sinn sem maður spilar sömu plötu sé það aldrei alveg sami flutningurinn.
- Lengd plötunnar hefur áhrif á hvernig maður hlustar á hana, enda líður ekki löng stund áður en A-hliðin hefur runnið sitt skeið og snúa þarf plötunni við. Þetta útheimtir annars konar hlustun, meiri andlega viðveru. Í öllu falli finnst mér ég hlusta meira gagngert, frekar en að ég renni plötu í gegn í bakgrunninum meðan ég geri eitthvað annað.
- Þetta hvetur fólk til að hlusta frekar á hverja plötu í heild sinni. Það hef ég raunar alltaf gert svo að því leyti er þetta engin breyting fyrir mig.
Svo ég af dellu minni keypti mér auðvitað minn eigin ferðaplötuspilara, alveg eins og þann sem Gunni átti, og borgaði sama og ekkert fyrir hann. Þessi spilari var ekki byggður til að endast og svo fór að nú nýverið keypti ég mér mjög vandaðan, reimardrifinn plötuspilara frá Lenco sem ég þurfti sjálfur að setja saman, með massífum tónarmi ólíkt þessu fislétta plastskrípi á gamla spilaranum mínum. Ég get ekki neitað því að ég elska sándið sem þessi græja framkallar, í samvinnu við Tívolítækið mitt.
Eins og með filmuna finnst mér vera allt annars konar hljómur í vínylplötum en í stafrænum skrám eins og ég hef fyrst og fremst hlustað á síðustu tvo áratugi. Mér finnst hann hlýrri og meira umfaðmandi, en ekki eins hreinn og tær. Það er eitthvað að gerast í hvert sinn sem ég spila plötu sem á sér ekki stað þegar ég spila af Spotify, eitthvað sem ég veit ekki hvað er fyrir utan allt það samspil ólíkra þátta sem á sér stað til að framkalla tónlist af plötunni. Ég heyri snark þegar kusk verður á vegi nálarinnar, og platan dansar hring eftir hring eftir því hvernig ég hef sjálfur stillt tónarminn. Það er eitthvað lífrænt við þetta.
Það er fjarri mér að halda því fram að vínyl sé betra en eitthvað annað (þessi náungi hér hefur skrifað langa og lærða grein þar sem hann heldur því fram, eins og margir audiofílar, að vínyl sé betra). Sjálfum finnst mér það ekki skipta neinu máli hvað er betra og hvað verra, og efast raunar um að það sé hægt að meta það, held það sé fyrst og síðast persónubundið og fólk á auðvitað bara að njóta þess sem það nýtur. Það er komið í tísku aftur núna að gefa út tónlist á kassettum til dæmis, sem höfðar ekki til mín. Mér hefur alltaf fundist tónninn í þeim of hár einhvern veginn. Ég myndi heldur ekki hlusta á hvernig tónlist sem er í plötuspilara. Tónlist sem er hönnuð í og fyrir stafrænt umhverfi er ég til dæmis ekki viss um að myndi skila neinu á plötuspilara umfram það sem er hægt að spila af Spotify í sæmilega góðum græjum.
Án efa eru til alls konar týpur sem snobba á þann eða hinn veginn fyrir því sem þeim þykir betra, með mishaldbærum rökum, en hvað sem því líður vil ég halda því fram að vínyl sé í öllu falli öðruvísi. Það fylgir því annars konar stemning, annars konar hljómur, og ég nýt þess betur að hlusta á uppáhaldstónlistina mína þannig. Það sem höfuðmáli skiptir eins og ég sé það er að mér þykir einfaldlega skemmtilegra að spila tónlist af plötu, í góðum plötuspilara, úr sæmilegum hátölurum. Ég nýt þess hvað allt er lifandi við þetta, án þess ég geti útskýrt hvað það er nákvæmlega sem gerir þetta lifandi.
Það er líka ákveðin aukafyrirhöfn, bæði hvað snertir vínylplötur og filmuljósmyndun. Það er lítið mál að smella af fínni mynd á símann sinn, með bestu tónlistina á Spotify tengda úr sama síma yfir í dúndrandi flottan blátannarhátalara, og njóta þess sem maður gerir. Sjálfur geri ég töluvert af hvoru tveggja, eins og flestir; er með stóran hátalara á skrifstofunni úti í Háskóla tengdan við klassíska listann minn á Tidal.
En ég verð um leið að viðurkenna, nú þegar ég er kominn á bragðið, að í hinu hliðræna finn ég mun meiri ánægju — bæði í efninu sjálfu og líka í umstanginu. Rétt eins og það er meiri athöfn og innlifun að hlusta á plötu (ég allavega fæ meira út úr því en ella) þá er það í vissum skilningi handverk að meðhöndla gamla myndavél: að stilla hana af eins og maður telur henta hverju skoti, eftir þörfum hverrar filmu, hafandi hugfast að myndirnar sjálfar eru takmarkaðar við lítinn fjölda per filmu og því skipti hver tilraun máli, að trekkja kláraða filmuna tilbaka, að arka með hana í framköllun
— og bíða.