Haustið 2006 mætti segja að skrattinn hafi hitt ömmu sína (skrattar eru víst lítið í því að heimsækja ömmur sínar) þegar forlögin höguðu því þannig að ég varð kunnugur Ásgeiri Berg. Báðir vorum við nýnemar við Háskólann, hann í heimspeki og ég í íslensku, báðir grindhoraðir, ljóshærðir og aðdáendur hatta. Öll áhugamál sameiginleg fyrir utan að honum fannst gaman að spila körfubolta, sem engum þykir á Íslandi utan Reykjanesskaga. Svo líkir, að fólki fannst, að einhverjir munu hafa haldið okkur bræður.
Ásgeir átti sér ýmis fylgitungl sem ég varð kunnugur, en eitt þeirra vafðist alltaf fyrir mér. Ég fann mig nefnilega stöðugt í þeim sporum að honum fylgdi einhver Jóhann sem ég kannaðist aldrei neitt við. Einhverju sinni kynnti ég mig fyrir einhverjum félaga Ásgeirs sem hann taldi mig hafa hitt mörgum sinnum. Hann hló og sagði: „Þetta er Jóhann!“
Nújá, svo þetta er þessi J´óhann, hugsaði ég. Við annað tækifæri álpaðist ég inn á Næsta bar eins og gjarnan gerðist á þessum árum. Þar var einhver maður á borðinu hans Ásgeirs, ólmur sem berserkur. Ég hafði aldrei séð mann tala svona með öllum líkamanum, meira að segja fótunum. Sennilega bar hann é-in sín fram með ökklunum. Þessi náungi virtist þekkja mig en ég ekki hann, og áður en ég vissi hafði hann með líkamlegum sannfæringarkrafti slegið (óvart) bjórglasið mitt langt út á gólf þar sem það fórst — og búið að henda honum út af barnum áður en ég áttaði mig á neinu.
– Hver var nú þetta? spurði ég.
– Þetta var JÓHANN! svaraði Ásgeir. GETURÐU EKKI MUNAÐ EFTIR JÓHANNI?
Oft hitti ég Jóhann og kynnti mig fyrir honum í hvert sinn, honum og Ásgeiri til mikillar gremju. Mér skildist á Ásgeiri að Jóhanni sárnaði þetta mjög. En sama hvað ég reyndi að muna Jóhann þá gat ég aldrei áttað mig á því hvernig hann liti út.
Næstum því áratug eftir að Jóhanni var varpað út af Næsta bar mætti ég snotrum manni á Hjarðarhaganum — þá var ég nýfluttur í vesturbæinn — sem heilsaði mér með virktum. Hann hefur séð örvæntingaraugnkúluvarpið í tóftum mínum sem ætíð fer af stað þegar ég þekki ekki einhvern en vil ekki láta í það skína (þetta gerist oftar en ég vil viðurkenna), svo hann bætti því hæversklega við að hann héti Jóhann (Jóhann Björn).
Nú var þetta komið, þessu andliti gæti ég ekki gleymt. Nema hvað, fjórum árum síðar dvaldist ég lengi í Kaupmannahöfn og var þá töluvert í félagsskap við allt annan Jóhann (Jóhann Heiðdal), og sá Jóhann sagði mér þessa sömu sögu, að ég hefði átt eitthvað erfitt með að þekkja sig forðum. Nú fóru hjólin að snúast í höfðinu á mér. Það var aldrei einn Jóhann, þeir voru tveir! Og Ásgeir Berg, sá óhamingjunnar apaköttur, það óafvitandi illmenni, höfuðsóttargemlingurinn atarna, hafði þá haft sinn hvorn Jóhanninn með sér sitt á hvað í eitt eða tvö ár og ætíð presenterað báða fyrir mér aðeins sem Jóhann — hinn eina og sama Jóhann eins og ég skildi það. Kameljónið Jóhann, sem aldrei leit eins út dag frá degi, var stundum óðamála en stundum spakur sem snigill.
Þessu slengdi ég framan í skúrkinn hann Ásgeir.
– Í öll þessi ár léstu mig halda að ég gæti ekki munað eftir Jóhanni, en svo voru þeir tveir!
– Jaá, þú segir nokkuð. Reyndar, þegar ég hugsa út í það, þá gætu þeir hafa verið þrír.
– ÞRÍR!?
Og svona er nú sagan af Jóhanni. Í dag þekki ég vel í sundur hinar ýmsu íterasjónir Jóhanns, sem nú býr á Akureyri en vinnur í Melabúðinni og á þríbura í Kaupmannahöfn. Ég veit samt enn ekki hver þessi þriðji Jóhann er, en mig grunar að hann muni dúkka upp fyrirvaralaust næst þegar ég hitti Ásgeir Berg á förnum vegi, og þegar ég reyni að kynna mig fyrir honum ýlfri Ásgeir furðu lostinn á mig:
– ÞETTA. ER. JÓ-HAAAANN!