Það er víst enginn ósnertanlegur, forsætisráðherra Bretlands kominn í gjörgæslu. Einhvern veginn hafði ég ekki einu sinni velt því fyrir mér að það væri mögulegt. Á sama tíma er víða flutt í fréttum að tígrisdýr hafi greinst með Covid-19. Ég á bágt með að trúa því og vil fá almennilega staðfestingu á því.
Þessi faraldur verður furðulegri með hverjum deginum.
Eiríkur Örn orðar þetta ágætlega í sínum kima hins rafræna heims:
Þetta eru erfiðir dagar. Það er bara þannig. Maður ber sig vel og stundum líður manni vel en svo hellist þetta allt yfir mann inn á milli og þá getur maður ekki annað en viðurkennt að þetta er samt allt erfitt. Það er ýmislegt þarna sem er fallegt og gott – meiri tími með börnunum, minni radíus í lífinu þýðir meiri jarðtenging. Það er furðuleg sálarró í einum hugarkima á meðan það logar allt í öðrum.
Hjá mér er þetta meira eða minna í bakgrunninum meðan dagarnir fara í að skrifa nemendum og gera hvað ég get til að aðstoða þau við að ljúka námskeiðunum, fara yfir verkefni og leggja lokaverkefni fyrir, pæla aðeins í næsta misseri. Síðan man maður allt í einu eftir að opna fréttamiðla og fær veruleikann í smettið.
Sú hugsun leitar á mig að enginn veit almennilega hvernig hann bregst við veirunni nema reyna það fyrst. Boris Johnson sagðist í gær vera brattur en liggur núna í gjörgæslu. Mér finnst það ógnvænleg tilhugsun. Ekki hans vegna persónulega, heldur vegna okkar allra.
Ég hef ekki áhyggjur af því að þetta muni breyta heiminum — það er eins fokkíng gott að þetta breyti heiminum. Ef allt heldur áfram eins og ekkert hafi gerst þá held ég að lítil von sé fyrir mannkynið. Ég vona að þetta fái okkur til að staldra við og hugsa, hjálpi okkur að leita leiða til að gera hlutina betur. Þorsteinn Gylfason sagði eftirminnilega að menning væri að gera hlutina vel. En núna held ég að það væri beinlínis ómenning að gera ekki betur en við höfum hingað til gert, nú þegar skelfilegar aðstæður hafa sýnt okkur hvers konar alþjóðlegur samtakamáttur er mögulegur.
Við umturnum lífi okkar og samfélagi vegna farsóttar – sem eðlilegt er. Höldum því svo áfram jarðarinnar vegna.