Mér fannst lengi vel eins og sagan væri liðin, ekkert áhugavert gerðist þaðan í frá og allt myndi lulla svona einhvern veginn áfram fremur tíðindalítið. Þetta reyndist rangt í tvennum skilningi. Fyrir það fyrsta þá er sagan aldrei liðin, það er alltaf eitthvað á hverjum tíma sem segja mætti, í dvalarhorfi, að sé „að gerast“. Þó að tíundi áratugurinn hafi að mestu verið „leiðinlegur“ í sögulegu tilliti en eftir því dásamlegur með tilliti til annarra þátta mannlífsins (að mér sjálfum fannst á sínum tíma), þá var samt töluvert margt hræðilegt og sögulegt sem þá gerðist.
Sovétríkin féllu til að mynda með langdrægu andvarpi, eftir heldur heimsendastemmdan níunda áratug, og Júgóslavíustríðin hófust. Á dularfullan hátt fannst mér eins og stríð í Evrópu væru liðin tíð þó að ég ælist upp með þau í blússandi gangi. Júgóslavíustríðunum lauk ekki fyrr en um aldamótin, hvað sem minni tilfinningu um sögulega tíma leið, og eftirmál þeirra voru enn í hámæli (réttarhöldunum yfir Milosevic lauk ekki einu sinni fyrr en 2006!) þegar annar atburður skók heimsbyggðina.
Það var víst ekki hægt að neita því að það væri nokkuð sögulegt þegar maður horfði með hryllingi á turna tvo í New York borg hrynja í beinni útsendingu. Vinur minn sendi mér í SMS-skilaboðum einhvern „spádóm“ Nostradamusar þá um kvöldið sem mér þótti mögnuð lesning. Á táningsárunum var auðvelt að leggja trúnað á alls konar svoleiðis vitleysu sem gekk þráðlaust milli fólks. Sennilega var þetta ekki einu sinni rétt heimfærð tilvitnun fremur en svo margt annað í þessum dúr, heldur tilbúningur. En sögulegt var þetta. Ellefti september það er, ekki smáskilaboðin.
Mér finnst ég orðinn svolítið sjóaður í að lifa sögulega tíma núna og er orðinn dálítið þreyttur á þeim. Það er eins og þetta sé stöðugt á tíu ára fresti. Fall Sovétríkjanna, stríðið gegn hryðjuverkum, bankahrunið, heimsfaraldur kórónuveiru. Maður getur jú litið svo á að í öllu falli hafi maður þá einhverjar sögur að segja þegar fram líða stundir – börnum, barnabörnum, er það ekki alltaf viðkvæðið? En hverjum til ánægju yrðu þær sagðar? Nemendur mínir muna ekki einu sinni bankahrunið og sýna því engan sérstakan áhuga þegar ég tengi bókmenntir við þann heimsviðburð, svo ekki sé minnst á þann sérstæða íslenska atburð sem búsáhaldabyltingin var – en kannski hef ég takmarkaðan áhuga á því sjálfur að rifja þann tíma upp of náið. Vegna þess að ég var þar. Það grær aldrei alveg um heilt eftir að heilt samfélag hrynur.
„Ég var þarna,“ get ég sagt. Það finnst engum það áhugavert. Ekki mér heldur. Þau sem voru þarna muna það líka og við getum rifjað það upp saman ef við nennum, ef við finnum ástæðu til; þau sem voru þar ekki hafa tæpast forsendur til að gera sér upp áhuga. Mér líður eins gagnvart Kófinu þó að það eigi sér enn sinn stað í núinu. Við erum öll saman í þessu núna og því lítið í raun um það að ræða. Við höfum engu við að bæta hvert fyrir annað. Samfélagsmiðlarnir loga af eilífri endurtekningu á því sem allir vita og engin ný leið kemur upp úr krafsinu til að færa þetta í orð. Þetta er löngu hætt að vera samræðuhæft efni jafnvel meðan þetta er í gangi. Hvernig verður það þá í framtíðinni? Hvernig sú framtíð verður er kannski áhugaverðasta spursmálið í þessu öllu saman, því hún verður varla alveg eins og samfélagið sem var. Allt breytist.
Hvort ég mun nokkru sinni finna tilefni til að rifja þennan tíma upp og reyna að setja í eitthvert samhengi fyrir aðra að skilja, eða fyrir sjálfan mig að skilja, það er síðan önnur spurning. Það munu væntanlega verða til bókmenntir á þessum tímum eins og á öðrum tímum, þar verður til samhengi sem mun liggja fyrir bókmenntafræðingum eins og sjálfum mér að útskýra í ræðu og riti. Ég sé fyrir mér eftir tíu ár að ég muni standa frammi fyrir nemendum mínum og ræða þetta, Kófbókmenntir. Hvað segja Kófbókmenntir okkur um lífið á Íslandi á fyrsta fjórðungi aldarinnar – og svo framvegis. Kannski munu nemendur sitja þá eins og mér finnst þau gera núna og orðalaust gefa til kynna að þau hafi á þessu takmarkaðan skilning af því þau voru ekki þarna. Og mér mun líða eins og gömlum manni að þusa eitthvað um gömlu daga, eins og mér líður þegar gagnvart hruninu.
Ég á þannig erfitt með að ímynda mér að ég muni hafa neitt sérstaklega áhugavert um veirufaraldurinn að segja þó að tíu ár líði eða þrjátíu. Amma mín mundi vel seinni stríðsárin en talaði aldrei um þau. Mér finnst ég skilja það betur núna þó að mér hafi fundist það skrýtið áður. Jú, aðspurð mundi hún Goðafoss, hræðilegt alveg. Ekki orð um það meir. Ég man að sama skapi þegar Manhattan tæmdist, tæplega áttahundruð manns létust á einum degi í New York ríki, Norður-Ítalía breyttist í dystópíu, ég man veru mína í París í upphafi faraldurs, áhrif veirunnar á Íslandi og svo framvegis, mannlausa Þingvelli. Ég man þetta og þetta er ennþá svona. Minningin á eftir að þróast og breytast en alltaf vera til staðar en nú þegar er fyrsta kynslóðin til sem ekki mun muna þetta og ekki skilja þetta.
Sagan á sér stað núna, í dvalarhorfinu, rennur stöðugt og óstöðvandi eins og straumvatn. Mér finnst ég orðinn vanur þessum sögulegu atburðum svo að segja og eins og ég sagði er ég orðinn svolítið leiður á þeim, þó hef ég hingað til sloppið óskaddaður frá þeim öllum ólíkt svo mörgum mér ólánsamari. En það er ekki víst að þannig verði það alltaf og það er heldur ekki víst að þannig verði það í þetta skipti. Það er engin leið að vita það hvort maður gangi heill frá þessu og þar af leiðandi engin ástæða til að velta því neitt fyrir sér, engin ástæða til að ræða það við nokkurn mann.
Þannig að á yfirborðinu er nánast eins og ekkert sé að gerast. Ég hugsa lítt um veiruna og tala enn minna um hana. Kannski er ekki laust við að ég hugsi svolítið til Radioheadtextans: „I’m not here. This isn’t happening.“ En einhvers staðar innst inni í þessum hugsunum stendur löngun mín til einnar óskar: að veröldin og sagan væri eins tíðindalítil í raun og mér einu sinni fannst hún vera.
Ég man vel 1989, Júgóslavíustríðin og 11. september – en það var allt meira og minna í býsna öruggri fjarlægð (þótt ég hafi heimsótt sögustaðina flesta seinna meir). En svo kom hrunið. Og hrunveturinn var sá besti sem ég man á Íslandi, það var orka í loftinu og fólk hætti – allavega tímabundið – að vera hálfvitar. Mér fór jafnvel að þykja örlítið vænt um þessa þjóð – fram að því hafði ég alltaf fyrst og fremst viljað sleppa úr þessu helvítis andleysi. Og þótt ástríðan og hugmyndirnar hafi kulnað finnst mér Íslendingar samt enn miklu skárri að meðaltali en fyrir hrun. Þótt það eigi ekki endilega við um þjóðfélagið sjálft.
En það skiptir máli að þetta sé í þjóðarminninu – við sjáum það bara á því að fjármálahrunið brestur á þegar nánast enginn man lengur kreppuna miklu og þjóðernispopúlismi er að ná fótfestu þegar heimstyrjöldin síðari er orðin sagnfræði frekar en lifandi saga í öfum og ömmum og pöbbum og mömmum. Og fáir ef nokkrir eftir sem muna spænsku veikina.
Því þótt vissulega sé sagnfræðin skráð og margir fróðir um þessa atburði þá er það bara ekki það sama, þegar hið eiginlega minni byrjar að hverfa þá er eins og mótstaðan bresti oft. Þá er þetta eitthvað sem getur ekki gerst í alvörunni og allir sem mótmæla því gerast sekir um einhverja útgáfu af Reductio ad Hitlerum.
Það sem maður hefur samt kannski meiri áhyggjur af er að við gleymum hraðar, það er alveg galið að við höfum hleypt kapítilismanum aftur á fullt skrið svona svakalega fljótt aftur eftir hrunið.