Þrjú ár á morgun og enn reynist mér erfitt að tala um tilfinningar mínar. Ég hitti dóttur hans í fyrsta sinn í mörg ár og svipurinn er yfirnáttúrlegur. Það var eins og að horfa beint í augun á honum, ljóslifandi. Ég varð orðlaus, meira svo en ég var fyrir.
Og enn get ég ekki talað um tilfinningar mínar. Það er ólíkt mér.
Svo leggst þetta utan á mann með tímanum eins og ryð og maður hættir að skilja hversu mikið flak maður smám saman er orðinn. Algjör lamandi kvíði, alla daga, allan daginn þar til maður venst því og hættir að taka eftir því af því lífið bara heldur áfram. Svo brestur eitthvað innra og brestirnir sýna sig ytra, líkaminn gefur eftir undan því andlega.
Stefni hraðbyri að því að verða sjúklingur. Vakna nötrandi, tek lyf en nötra áfram, hjakka gegnum þetta, fer nötrandi að sofa nema ég taki annað lyf sem er ávanabindandi og ég vil því ekki taka.
Sorg. Álag í vinnu. Sístækkandi tilfinning um tilgangsleysi flestra hluta, múmínpabbi orðinn að bísamrottu. Prinsípleysi hvert sem litið er. Stríð, rifrildi um stríð, rifrildi um allt — til hvers? Hverju breytir það hvað Íslendingar rífast um á internetinu? Hvernig bætir það heiminn? Er hægt að bæta heiminn? Hefur eitthvað á síðasta aldarfjórðungi gefið okkur það í skyn að við getum haft áhrif á nokkurn skapaðan hlut?
En þetta er sorg frekar en níhilismi.
Líkamlega planið er komið og loksins er ég kominn með fagaðila til að hjálpa mér að takast á við hið andlega. Í raun er andleg endurhæfing öll forsenda líkamlegrar endurhæfingar. Ég hef bara ekki getað talað um þetta, ég á engin orð. En nú finn ég að ég er brotinn svo ég bara neyðist til að tala um þetta, sama þó ég viti ekki hvernig.
Það er erfitt að viðurkenna að maður sé brotinn og að maður þoli ekki mikið meira. Finnst reyndar að það sé ekki alveg rétt lýsing en ég finn ekki aðra.
Nú sér vonandi til sólar, smám saman eftir því sem heimurinn hvolfir sér og mér með, allt að sólu og til bjartari tíma. Vonandi. En það hefur verið erfitt að finna birtu í deginum síðan Gunni dó, ekki síst í ljósi þess hvernig sú bjarta stjarna sem hann var hvarf sjónum okkar. Mér finnst ég orðinn kaldur, þreyttur, reiður, dapur, og ég á erfitt með að finna mína náttúrlegu barnslegu gleði yfir öllu og engu.
Ég þarf að endurheimta sjálfan mig. Nú er ég vonandi kominn á réttan stað til þess.