Ég rakst á nafn í fjölmiðlum sem ég kannast vel við og smettið á myndinni sem fylgdi staðfesti að um sama mann er að ræða. Ég kynntist honum kannski aldrei neitt vel en við urðum málkunnugir í Hornafirði 2006. Þá stefndi allt í að hálendinu norðvestur af Héraði yrði sökkt, sem varð og raunin, og náungi þessi ákvað að leggjast í andlegan leiðangur austur, fótgangandi til Kringilsárrana við Kárahnjúka.
Fyrstu nóttina svaf hann að sögn í Elliðavogshrauni austur af Bláfjöllum og fannst mér það ekki sérlega mikil afreksganga á einum degi, þó ég auðvitað héldi um það kjafti. Síðan þegar hann var kominn eitthvað áleiðis austur, kannski á Mýrdalssand, var hann búinn að rústa fótunum og skórnir voru fullir af blóði. Restina af leiðinni til Hafnar fór hann á puttanum og þar ætlaði hann að jafna sig áður en hann héldi áfram ferðinni upp á hálendi. Við duttum eitthvað í það saman á hótelinu og ætluðum að vera í sambandi síðar, en það varð ekkert úr því.
Svo varð hann fyrir bíl held ég skömmu síðar, kannski árið eftir, og ég man eftir að hafa lesið um það í fréttum. Það virðist hafa farið betur en á horfðist á þeim tíma. Hann var illa haldinn á eftir og spáð einhverri örorku, minnir mig.
Þetta var fínn náungi, en svolítið sérstakur. Ein af þessum týpum sem er alltaf að leita að sjálfum sér og fattar ekki að hann er nákvæmlega sá sem hann er og ekkert sérlega flókið við það, óþarfi að sækja vatnið yfir lækinn. Hef aldrei alveg botnað í þessum andlegu leiðangursmönnum.
Skondið að sjá honum skyndilega bregða fyrir í frétt um mál sem tengist honum í sjálfu sér ekki neitt. Þá rifjuðust okkar stuttu kynni upp fyrir mér. Væri alveg til í að rekast á hann aftur á flóahóteli úti á landi, detta svolítið í það og heyra fleiri sögur af honum.