Sú afstaða sem þú kaust þér í byrjun er orðin að stórri spurningu og svarið mun hugsanlega ákvarða hvernig allt líf þitt verður. Spurningarinnar er ekki alltaf spurt á sama tíma, stundum aldrei. En það er mikilvægt að vera búinn að gera upp hug sinn áður en þörf er á því að svara.
Fyrir mér felst spurningin í þrennu. Afstaða mín var áður föst en hefur orðið breytileg hvað allt þrennt varðar og svarið mun fara eftir þáverandi aðstæðum. Ég get ekki svarað spurningunni fyrr en ég verð spurður og mér finnst það ekki góð tilhugsun. Mér finnst ég þurfi nauðsynlega að vita nákvæmlega hvað ég er reiðubúinn að gera seinna í lífinu og á hvaða forsendum. Þessu ber þó ekki að rugla við tilvistarkreppu.
Þetta blogga ég um of snemma. Það er mér líkt að eyða tíma mínum í tilgangslausar vangaveltur um hvað við taki. Forsendur verða hugsanlega allt aðrar þegar þar að kemur en ég hef alltaf haft tilhneygingu til að reyna að leysa öll vandamál áður en þau gerast. Það verður að teljast til marks um ofskipulagni að ég sé farinn að reyna að skipuleggja hlutina 10-15 ár fram í tímann. Ég hef t.d. þegar skipulagt nær allan námsferil minn. En það verður aldrei hægt að skipuleggja allt. Hvers vegna reyni ég þá?