1. Mér finnst það alveg hræðilega óskemmtilegt að sitja í strætó með fólki sem ómögulega getur beðið áfangastaðar til þess að hakka í sig ýmis konar matvæli. Sér í lagi ef viðkomandi sér sér ekki fært að tylla sér neinsstaðar annarsstaðar en við hliðina á mér. Mér finnst það hreint út sagt í hæsta lagi ósmekklegt. Verst er það þó ef átmenn þessir stunda þessa iðju sína á ógeðfelldan hátt, eins og ég ímynda mér að margir þeirra geri. Það gæti vel haldist í hendur, gríðarleg átþörf og ógeðfelldir borðsiðir, þó ég fullyrði nú ekkert um hvort svo sé.
2. Einhverju sinni er ég brúkaði orðtakið ‘guð má vita’, sem svo oft áður, fannst viðmælanda mínum eðlilegt að spyrja hvort ég tryði á guð, en það gat ég ekki játað, og ef ekki, hvers vegna ég talaði þá um hann sem til væri. Þessi hugsun er alröng. Það er í höndum okkar, sem ekki trúum, að leggja nafn guðs við hégóma, en ekki trúaðra, eins og alþjóð gerir sér áreiðanlega grein fyrir. Því væri það ekki guðlast, að hrópa nafn guðs af lítilfjörlegasta tilefni?
Þetta tjáði ég viðmælanda mínum spekingslegur á svip og samþykkti hann nálgun mína. Þá er að sjá, hvort lesendur mínir séu sama sinnis, ef einhverrar skoðunar gætir meðal þeirra á lítilmerkilegum málum sem þessu.