Í dag bað móðir mín mig um að setja saman fyrir sig ekki eitt, heldur TVÖ náttborð, keypt í IKEA. Ég hefi nú böglast til að setja annað þeirra saman, og reyndist verkið torsótt; annars vegar vegna eigin óþolinmæði, hins vegar vegna óverkamannslegra handa minna, sem seint munu venjast því hlutverki, að munda skrúfjárn í lengri tíma.
Hitt náttborðið set ég saman síðar. Þolinmæði mín rennur svo grunnt að ég gæti freistast til að feta hinn myrka veg máttarins.
Talandi um máttinn, ég andmæli því að allegóríur þær, sem menn þykjast geta fundið í Star Wars, séu tilkomnar af nokkru öðru en tilviljun. Örlög Lýðveldisins lágu skýrt fyrir árið 1977, löngu áður en Gorgeirar þessa heims fengu færi á forsetastólnum. Þótt lýðræðið hrynji með stofnun Keisaraveldisins í mynd frá 2005, hlýtur það að segja sig sjálft, að örlög þess hafi þegar verið ráðin fyrir 28 árum. En menn mega svo sem gera sér ýmsar hugmyndir, ef það skemmtir þeim betur þannig.