Fór utan veikur, kom aftur frískur. Vaknaði veikur aftur, veikari en fyrr, sýnist stærri og stærri bitar úr nefinu fylgja með í hvert bréfsnifsi. Það er eitthvað við loftslagið hérna. Ég er veikur allan ársins hring nema rétt á meðan ég skrepp til útlanda. Ó, linið þjáningar mínar með koníaki á köldum aftni.
Á Íslandi um helgar eru allir leigubílar fráteknir fyrir fullt fólk, en í Piacenza er þessu öðruvísi farið. Þar eru allir leigubílar fráteknir fyrir mílanskar mellur sem þangað berast með lestum til ýmissra gagnlegra nota (það er ekki sama, Via Appia eða Via Roma). Af þeim sökum mátti fyrir rúmri viku sjá ungan Íslending dragnast sjálfur með töskur sínar eftir illa upplýstum steingötum miðbæjar um nótt.
Sértu spurður hvað viðgengst í nágrenni lestarstöðvarinnar viltu svara sem fæstu í von um að bærinn glati ekki sakleysinu, bær þar sem mokað er yfir uppáhaldsleikvöllinn þinn svo menn hætti að selja sprautur þar, sama leikvöll og deildi almenningsgarði með glæpaklíkum og beittum ágreiningsmeðulum þeirra á næturna, sömu slagsmálum og lögreglan vaktar en ver ekki almenning gegn. Sértu spurður hvað viðgengst í nágrenni lestarstöðvarinnar máttu brosa og benda á að Milano Centrale er aðeins hársbreidd í burtu, ef líki þér ekki bærinn. Og fyllast stolti yfir mætti mannfæðarinnar, meðan Milano er milljónaborg og því hlutfallslega ba(r)nvænni. Gleymum ekki sígaununum, sértu spurður hvað viðgengst. Haltu þig annars heima, það gera allir hinir.
Líklega ertu ekki einn um að finnast tortryggilegt að illa klæddir blökkumenn selji kvenmannstöskur í göngugötunni. Já, það eru rasistar líka á Ítalíu.
Sértu ekki viss um að þú sért á réttum stað geturðu hughreyst þig við að Emil er alltaf handan við hornið með ráð við öllu hugarangri í formi alvöru kjötborðs og Birra Moretti á hálfa evru stykkið, já, jafnvel þótt til sé betri bjór. Og tak þinn bakpoka, maður! Fylltu hann af Moretti, salami, proschiutto og brauði; hjólaðu í almenningsgarðinn og skoðaðu hryðjuverk næturinnar, leggstu á hauginn miðjan þar sem leikvöllurinn var, segðu rónum að fokka sér ef þeir tala við þig því einum fylgir annar sem jafnan er með langa fingur. Drekktu bjórinn, fáðu þér pínu brauð á skinkuna og slafraðu í þig. Mundu að skinka er ekki sama og íslenski óþverrinn.
Loks: hjólaðu inní trjágöngin við göngugötuna (sjálfsmynd á ferð spillir ekki), dragðu fram blað og blýant, plantaðu þér framan við rónann sem sefur á bekknum. Skrifaðu bréf heim. Gegnum mistur verksmiðjanna skín sólin sjálf og fuglarnir syngja skærar en nokkru sinni fyrr, jafnvel þótt þú heyrir það ekki. Fegurðin er þeim mun meiri nú þegar þú hefur séð það ljóta. Njóttu hennar og opnaðu síðasta bjórinn. En umfram allt: gættu þín á íkornunum, fáðu ekki slíkan í andlitið ellegar sérðu eftir því. Gætir allteins gengið Via Roma í nasistabúningi. Daginn má fullkomna með kaffibolla á Piazza Duomo og ef vel er að gætt má ef til vill heyra organista dómkirkjunnar æfa fingurna fyrir barmafulla dagskrá helgarinnar.
Ég er ekki frá því að þetta sé besta bloggfærsla sem ég hef lesið lengi, enda er Birra Moretti úrvalsbjór sem veitir mönnum góða andagift, annað en sullið hér heima …
Ég ætlaði að skrifa eitthvað snyðugt en stærðfræðidæmið í ruslsíunni var svo erfitt að ég bara datt út. 😉
Þetta er alveg hreint magnað, mér líður eins og Fonzie! Eyyyy …
Þú ferð til Napólí næst, er það ekki?
Veit ekki með það, er búinn að selja augun úr hnakkanum á mér.
Dásamleg færsla-langaði þangað meðan ég las en samt ekki því ég er hrædd við róna,mellur og töskusölumenn.
Alli ég skil þig með stærðfræðina,þarf að hugsa mig um lengur en ég þori að viðurkenna í hvert skipti sem ég kommenta 😉