Um helgina var mér líkt við Gísla Martein. Ég tók skyndiákvörðun um að eipa ekki á náungann heldur láta kjurt liggja. Síðar um kvöldið var mér aftur líkt við hann, en það var viðkunnanleg manneskja að öðru leyti svo ekki gat ég eipað á hana. Næsti sem segir þetta við mig deyr, og þá ekki í neinum fígúratífum skilningi. Að því sögðu má lýðum ljóst heita að ég þarf í klippingu.
Fyrir nokkrum árum – kannski fjórum – keypti ég úrval andvökuljóða Stephans G, aðallega af því mér fannst titillinn svalur. Ljóðin reyndust nú reyndar ekki jafnsvöl, en í einhverjum plebbaskap átti ég til að grípa í bókina ef ég varð andvaka. Núna opnaði ég hana ekki einu sinni til að sofna úr leiðindum. En eins og það er nú svalt í þeoríunni að vera andvaka þá verður að segjast að mestur glansinn hefur horfið fyrir mér að undanförnu.