Ég held ég hafi ekki fundið eitt einasta blogg um lögreglustöðvarmótmælin sem ég get tekið undir með. Og það er hreinlega bara ekki á þetta helvítis kraðak bætandi, svo ég sleppi því bara að segja nokkuð. Nema kannski þetta: Ég er orðinn ansi þreyttur á þessu rúllandi skoðanabrjálæði sem bloggheimar eru, og það er einsog blogggáttin bæti ennfremur á vitleysuna, þar sem nær allir sem á annað borð vilja tjá sig eiga sínar eigin síður, sem gerir komment óþörf. Það ærir svo óstöðugan að sjá hálft moggabloggið endurtaka færslurnar sínar aftur og aftur í kommentum við færslur ósammála bloggara sem aftur endurtaka sínar færslur á síðum hinna og svo framvegis. Þetta er nóg til að gera einn mann geðveikan.
Þannig að ég ætla að blogga um nýjar bækur sem ég er spenntur fyrir að lesa.
Konur eftir Steinar Braga. Ég er raunar búinn að lesa hana í handriti, en ég hlakka til að lesa hana aftur og mæli eindregið með henni.
Með villidýrum eftir Kára Pál Óskarsson. Það sem ég hef séð og heyrt þaðan finnst mér lofa góðu.
Tvítólaveizlan eftir Ófeig Sigurðsson.
Fiðrildi, mynda og spörfuglar Lesbíu eftir Magnús Sigurðsson, og sömuleiðis Hálmstráin eftir sama.
Vonarstræti eftir Ármann Jakobsson.
Gott á pakkið, ævisaga Dags Sigurðarsonar.
Annarskonar sæla, eftir Kristínu Eiríksdóttur.
Ofsi eftir Einar Kárason.
Ú á fasismann eftir Eirík Örn Norðdahl, og þýðingar hans á Allen Ginsberg, Maíkonungurinn.
Segðu mömmu að mér líði vel eftir Guðmund Andra Thorsson.
Og margt fleira svosem. En þetta svona flýtur ofaná öðru. Komi jólafrí fagnandi nær það kemur, með bókum, graflax og svoleiðis sulli.