Ég er með stóra spurningu við heimildarmyndina The Bridge.
Myndin fjallar um sjálfsvíg við Golden Gate brúna. Í myndinni eru u.þ.b. átta sjálfsvíg fest á filmu (eftir að þetta var skrifað sé ég að Wikipedia segir 19 – ég hlýt að hafa athyglisbrest), og að mig minnir þrjú stöðvuð. Rammafrásögn myndarinnar er eitt tiltekið sjálfsvíg. Við sjáum viðkomandi ganga fram og aftur eftir brúnni alla myndina inni á milli annarra atriða, augljóslega í öngum sínum, uns myndinni lýkur á því að hann stekkur upp á handriðið og tekur dýfu aftur á bak fram af.
Í myndinni eru tekin viðtöl við þrjá vini hans og móður. Ekkert þeirra virðist sjá neitt athugavert við þetta (aftur segir Wikipedia að aðstandendur hafi ekki vitað af upptökunum, en á hinn bóginn að öll hafi þau verið sátt við myndina). Spurningin er, og kannski er hún einfeldningsleg, en var í alvörunni ekki hægt að hindra þetta? Mér virðist augljóst að fyrst það var sérstaklega fylgst með þessum náunga þá hafi kvikmyndatökuliðið haft sínar væntingar til hans. Og þá vil ég spyrja, þó ekki sé nema til þess eins bara að spyrja.
Hef reyndar ekki séð myndina sjálfa, bara lesið um hana, en ég tek undir spurningu þína. Fyrst fylgst var með, hví ekki að stöðva!! Hvað með hin 8 (eða 19)? Hefði ekki verið hægt að koma í veg fyrir þau?
Svona til þess að koma þeim aðeins til varnar þá skilst mér að þau hafi verið á sólarhringsvöktum í margar vikur og væntanlega er myndefnið sem endar svo í myndinni valið eftir á, það hefði vafalítið verið hægt að taka jafnmikið af efni um ýmsa aðra líka – og þau voru að taka þetta upp ansi langt frá brúnni skilst mér. En það afsakar hins vegar ekki hvað myndin var óbærilega vond …
Ég geri mér grein fyrir að það er erfitt að hringja í lögguna þegar maðurinn er kominn upp á handrið.
En þeir fylgdust með fólki, jafnvel í mjög langan tíma, væntanlega í von um að ná myndum af því stökkva. Mér finnst það vekja upp ýmsar spurningar, mun fleiri spurningar en um tilgang og efni myndarinnar.
Ef maður tekur tillit til þess að væntanlega koma miklu fleiri þarna og spígspora um heldur en nokkru sinni stökkva þá er voðalega erfitt að hringja í lögguna í hvert sinn sem það gerist. Á maður að segja „það er maður á brúnni sem röltir fram og til baka“?
Ég endurtek svar mitt á undan.
Hvaða spurningar?
Myndinni er ætlað að vekja máls á fjölda sjálfsvíga við eina tiltekna brú. Ekki einasta takmarkast myndatakan við brúna heldur allt efni hennar. Kvikmyndagerðarmennirnir virðast lítið velta fyrir sér orsökum þunglyndis eða alvarlegum afleiðingum þess fyrir samfélagið. Enn minna fer fyrir að þeir leiti lausna á vandanum.
Spurningin er því: til hvers var farið af stað? Til þess eins að kvikmynda fólk húrrandi framaf brúnni? Aðstandendurnir höfðu lítið til málanna að leggja annað en a) ég skil hann eða b) ég skil hann ekki. Tvær manneskjur kenndu geðlyfjum bókstaflega um, en það var ekki leitað ráða hjá neinum sérfræðingi.
Þannig missir myndin algjörlega marks. Hún er fátt annað en tilgangslaus endursýning á síðustu andartökum þunglyndissjúklinga, tekin upp í nógu mikilli fjarlægð til að ekki væri hægt að grípa inní. Kannski er það bara ég en það er það eina sem situr í mér eftir að hafa horft á þessa mynd.
Og líka í nógu mikilli fjarlægð (bókstaflega og andlega) til þess að manni er sama, sem er raunar ennþá verra …
Ég hef ekki séð þessa mynd og mun ekki bera mig eftir því vegna þess að mig langar alltaf að stökkva þegar ég stíg á brú (ekki af þunglyndi, bara langar svo til að prófa það sko). Hins vegar hef ég ekki beint skömm á því að fólk hafi gert tilraun til að kaptívera þennan hluta af raunveruleikanum, það er jú fullkomlega raunverulegt (en er það eðlilegt?) að fjöldi manna stekkur fram af brúm hingað og þangað um heiminn alla daga. Og kvikmyndagerðarmenn hafa í sér þörf, líkt og skáld, að kaptívera raunveruleikann. Og kvikmyndagerðarmenn eru þar að auki fastir með að hafa þetta tæki, myndavélina, sem raunverulega nær að kaptívera raunverulegum mómentum og þráin eftir því að ná raunverulega raunveruleikanum er sterk. Svarar þetta spurningum þínum? Nei, ekki mínum heldur…
Smá illa farið með beygingu þarna einhvers staðar: „kaptívera raunveruleg móment“ væri betra.
Myndatakan er eitt. Restin af myndinni gerir svo hinsvegar ekkert til að gefa henni tilgang.
Þetta er eins og með nekt í myndum; hún getur verið áhrifarík en oft er hún tilgangslaus. T.d. í Cat People þar sem kona flýr undan pardus, dettur niður stiga og lendir á bakinu svo brjóstahaldarinn hennar smellur sundur af engri sjáanlegri ástæðu.
Mér finnst The Bridge kannski ekki alveg svo tilgangslaus en því lætur nærri. Að öðru leyti tek ég fyllilega undir allt sem þú segir.
Ó, já, nekt. Hef rætt svo oft um það við kvikmyndagerðarmenn. Og næstum alltaf komist að því að það sem þeir vilja er að sjá leikarana nakta, og helst fá þá til að gera eitthvað gróft, burtséð frá listrænu gildi þess.
Og það sem vantaði hér að ofan er þetta mál með að „skerast í leikinn“. Ef kvikmyndagerðarmaðurinn skerst í leikinn og stoppar manneskju í því sem hún ætlar að gera, er hann búinn að klúðra mómentinu, raunveruleikanum. Þá er komið nýtt sjónarhorn. Þetta er munurinn á súbjektíf (hlutdrægur, persónubundinn) og objektíf (sem er t.d. þýtt sem raunsannur í F-Í orðabók).
Caméra objective er draumur allra heimildarmyndagerðarmanna og þessir hafa farið með það alla leið, eða ekki, ég veit það ekki.
Já.
Ég gef þeim það líka, þetta er heillandi hugmynd á sinn hátt. Hún bara klikkaði í meðförum þeirra.