Ég held það hafi verið á nýársdag 1992 frekar en árið eftir að Batman (1989) var sýnd á Stöð2. Þá mynd sáum við fjölskyldan ásamt Anselmifjölskyldunni í bíó á sínum tíma í Piacenza, og svo aftur á video á Akureyri árið eftir. Þegar við áður bjuggum tímabundið í einhverri Hlíðinni í íbúðinni hans Halla frænda, að mig minnir, meðan Árni bróðir hans og fjölskylda bjuggu í okkar, áttum við bræður heilan poka af Batmansleikipinnum. Á umbúðunum voru límmiðar með leðurblökumerkinu sem við límdum á hérumbil allt sem fyrir varð. Þá voru bölvaðir Batmanþættirnir með Adam West enn sýndir bæði í ítölsku sjónvarpi og á Íslandi.
Þrátt fyrir að hafa ekki beinlínis búið í Batmanlausu tómi undanfarin ár þótti mér mikill viðburður að myndin skyldi sýnd í sjónvarpinu. Við bræður fengum frómas til að slafra í okkur með myndinni og þótti hvorugum það amalegt. Á þessari stundu laust það mig hve frábær nýársdagur væri og hversu skrýtið það var að ég hefði aldrei fattað það áður. Í um það bil eitt ár var nýársdagur því uppáhaldsdagurinn minn í árinu. Eina sem ég man frá nýársdegi árið eftir er að hann olli mér vonbrigðum.
Nýársdagur er mér ennþá jafn fjarlægur öllum þessum árum síðar. Það er sá dagur þegar allt virðist vera búið og ekkert nema heill fjarski af ókönnuðum lendum framundan. Í huga mér er hann alltaf tómur, einskonar millibilsástand. Á sama tíma er gamlárskvöld fyrir mér alltaf jafn konkret táknmynd þess að nú sé allt búið sem að baki er, síðasta brúin brennd yfir í nýja árið, og aðeins framtíðin taki við eftir það. Þess vegna verður nýársdagur alltaf hálfgerð vonbrigði eftir kvöldið á undan – svona dominospítsa á nærfötunum dagur meðan maður rifjar upp með sjálfum sér hvað það eiginlega var sem maður ætlaði að gera svona merkilegt á nýja árinu. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta kannski ólíklegasti dagur ársins til að minna á Batman.