Kom heim frá Akureyri í nótt. Við Eyja urðum veðurteppt en ákváðum þegar snjóa leysti uppi á heiðum í gærkvöld að bruna í bæinn meðan við gátum. Hef ekki gáð að því hvort fennt hafi í förin okkar aftur. Ég var svo óábyrgur að smella af mynd undir stýri svo dyggir lesendur fengju að sjá hvernig var í Vatnsskarði í gær.
Fyrir norðan fékk ég þær fréttir að ég yrði ráðinn í sumarvinnu. Sama dag bauðst mér starf hjá Rannsóknastofnun Háskóla Íslands á norðurlandi vestra, og núna í dag bauðst mér starf á Þjóðskjalasafni Íslands. Eins spennandi og það hefði verið að prófa eitthvað nýtt þá frá og með 1. júní sný ég aftur á Borgarbókasafn Reykjavíkur.
Ég læt af störfum á bókasafninu í ágústbyrjun og held á ráðstefnu í Árósum. Lungann úr ágúst hef ég til eigin þarfa og svo byrjar skólinn í september. Í dag fékk ég nefnilega líka að vita að umsókn mín um doktorsnám í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands hefði verið samþykkt. Bara allt að verða vitlaust! Svo hefur raunar enn fleira gott átt sér stað í blessuðu lífinu mínu nýverið, en meira um það síðar.
Lífið er gott.