Fátt er meira spennandi en að gefa út bók (látið mig þekkja það, ég hef gefið út sex), en aldrei hef ég áður gefið út bók sem ég einn skrifaði, braut um, vann myndirnar í og hannaði kápuna á. Til þess kenndi ég sjálfum mér á LaTex og notaðist helst við þrjú forrit í öllu ferlinu: Texmaker, BibDesk og Inkscape. Bókina prentaði ég hjá Lulu og þar sem ég neyddist til að gera rykkápu þá var þægilegt að nota bara kápugerðargræjuna þeirra.
Afraksturinn er ekki fullkominn. Það er með vilja að kápan lítur út einsog önnur hver kápa í þessum fræðum og með það í huga er hún býsna velheppnuð (ég gerði hana á örfáum mínútum). Tvær myndir inni í bókinni prentast illa (mestar áhyggjur hafði ég af því hvort þær prentuðust yfirhöfuð) en þó ekkert verr heldur en ýmislegt sem ég hef séð hjá virtari forlögum. Textinn er mun fallegri á prenti en ég sá fyrir og þó var hann gríðarlega fallegur á skjá, spássían rétt og allt er réttumegin á hverri opnu. Bókbandið er sæmilega laglegt og rykkápan er vandaðri en ég ímyndaði mér. Fyrir utan myndvinnsluna er í raun ekkert í bókinni sem gefur til kynna að hún sé ekki sett saman af fagmanni í útgáfu fræðirita og það er auðvitað aðalatriðið.
Fyrir utan svo efni bókarinnar. The Supernatural in Íslendingasögur: a theoretical approach to definition and analysis er Cand.Mag. ritgerð mín sem ég skrifaði við Árósaháskóla. Í henni tek ég til skoðunar tengsl rýmis og nándar við yfirnáttúru í víðu samhengi, en meginhluti bókarinnar er viðamikil og kerfisbundin greining á yfirnáttúrlegum óvættum í Íslendingasögum. Niðurstaðan er grundvallarkenning sem ég legg nú drög að því að vinna meira með. Bókin er 167 tölusettar blaðsíður, innbundin og fæst hjá höfundi fyrir litlar 4.000 krónur (tollar og gjöld innifalin). Útgefandi er Tower Press, sem er nýtt höfundaforlag fræðirita.
Ég vænti þess að lesendur snúist hver um annan þveran í tryllingslegum æsingi eftir að lesa þessa bók. Hana má panta með því að senda póst á arngrimurv [hjá] simnet [punktur] is.