Nú hef ég í tvígang snögglega stansað, gegn betri vitund hefði maður haldið, við viðbjóðslega lykt í Hagkaupum í Skeifunni. Það er lyktin af plastpokunum sem búðin útvegar við nammibarinn. Eftir þrettán ár hætti ég að reykja, fyrir rétt nákvæmlega átta dögum, og af allri þeirri heimsins angan sem mér mögulega gat hlotnast að finna betur eftir allt ofbeldi sjálfs mín gegn eigin skynfærum, þá þarf það að vera plastpokastybba í Nammilandi. Mér finnst ótrúlegt ef enginn annar finnur þessa lykt, en samt étur fólk nú sjálfviljugt upp úr þessum pokum að því er virðist svo það hlýtur bara að vera ég sem get fundið hana.
Lesi einhver starfsmaður Hagkaupa þessa færslu er því þá komið á framfæri að mér þætti gaman að vita hvort það sé nokkuð fleira notað til framleiðslu þeirra en plast, til dæmis gamlir sokkar?
Fleiri skynfæri mín hafa hrokkið hressilega í gang síðan ég hætti að reykja. Til dæmis get ég svo svarið að ég heyri orðið mun betur þegar ferðamenn spyrja mig hvar Ljósmyndasafn Reykjavíkur er, svo vel raunar að ég heyri það jafnvel hvort sem ég er spurður eða ekki. Ég get staðið við uppröðun uppi á fimmtu hæð og heyrt það bergmála úr anddyrinu upp um loftræstistokkinn sem liggur frá toppi til fótar Grófarhúss. Málstöðvarnar hafa látið undan síga á móti á hinn bóginn þar sem mér fer ekkert fram við að svara þessari spurningu nema síður sé; sama hversu oft ég reyni þá hefst það aldrei í fyrstu atrennu. „Það er á sjöttu hæð“ er ekki nógu skýrt svar og ég veit að sökin liggur hjá mér að halda í hvert sinn að það dugi.
Mér er sagt að því að hætta að reykja geti fylgt ýmis fráhvarfseinkenni og skapsveiflur. Ég get ekki sagt að ég hafi fundið fyrir neinu slíku.