Það getur verið gaman að fylgjast með umræðum á Facebook. Nú er ég til að mynda hæfilegur aðdáandi Einars Kárasonar sem þó nýverið lét í ljós þá þekkingarfræðilegu afstöðu að hafi „dr. phil. Helgi Guðmundsson“ sýnt fram á eitthvað sem Einar er sammála þá hljóti það að vera rétt, en andmæli Viðar Hreinsson því þá sé það til marks um „standardskýringar norræna fræðaskólans“ sem sé auðvitað eintóm þvæla.
Það er raunar fyndið að þeir fræðimenn sem helst væru sammála Einari eru dauðir og uppnefndir forsvarsmenn Íslenska skólans. Hinn langþreytti frasi um standardskýringar norræna fræðaskólans á nefnilega best við þessa hálfgleymdu karla sem viðhöfðu dýrkun á meintum höfundum miðaldarita, þessa sömu og Íslendingar hamast enn við að hampa einsog engar framfarir hafi átt sér stað í norrænum fræðum síðan snemma á síðustu öld. En Einar verður víst að hafa það sem honum þykir hljóma best, einsog hendir bestu menn.
Hvað segirðu, hver skrifaði Færeyingasögu? Var það Heinesen?